Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 180/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 180/2016

Miðvikudaginn 21. desember 2016

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 5. desember 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála beiðni A, um endurupptöku úrskurðar í máli nr. 180/2016. Er þess farið á leit að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála frá 2. nóvember 2016, þar sem staðfest var ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, verði endurskoðaður og málið endurupptekið.

I. Málsatvik og kæruefni

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 13. september 2015 og var henni veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar 22. september s.á. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. apríl 2016 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hafði ekki veitt heimild til sölu íbúðar sinnar. Að mati embættisins var kærandi ekki talin hafa sýnt fram á að tekjur hennar myndu duga til að greiða af veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 13. maí 2016 og krafðist kærandi þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara yrði felld úr gildi. Þann 2. nóvember 2016 var úrskurðað í málinu. Þar kemur fram að líta verði svo á að kærandi hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um að selja íbúð sína. Í málinu hafi komið fram að kærandi teldi líkur á að tekjur hennar myndu aukast til framtíðar litið og því myndi hún geta greitt afborganir af fasteigninni. Kærandi rökstuddi þetta þannig að annars vegar ætti hún möguleika á að fá vinnu þegar hún lyki námi og hins vegar teldi hún líklegt að fá endurgreiðslu opinberra gjalda vegna lækkunar á tekjuskattstofni. Úrskurðarnefndin hafi tekið fram að hún gæti ekki byggt niðurstöðu sína á öðru en þeim staðreyndum og gögnum sem þegar lægju fyrir í málinu. Ekkert í gögnum málsins styddi það álit kæranda að tekjur hennar myndu aukast í framtíðinni vegna atvinnu og/eða endurgreiðslu opinberra gjalda. Ákvörðun umboðsmanns skuldara var því staðfest.

Í endurupptökubeiðni kæranda til úrskurðarnefndarinnar kemur meðal annars fram hvert hún telji að markaðsverð íbúðar sinnar sé, og að það eigi eftir að leiðrétta lögveðskröfur sem hvíli á íbúð hennar vegna fasteignagjalda. [...] Enn fremur hafi kærandi greint frá því að úrskurður ríkisskattstjóra um tekjuskattslækkun kæmi innan fjögurra vikna og í síðasta lagi 10. janúar 2017. Loks hafi kærandi upplýst að hún myndi útskrifast úr námi í febrúar 2017 og horfur á vinnumarkaði væru góðar.

Með endurupptökubeiðni lagði kærandi fram mikinn fjölda gagna. Meðal þeirra eru yfirlit yfir ýmsan kostnað sem kærandi kvað hafa fallið til og hún greitt á árabilinu 2005 til 2015, staðfesting á 100% afslætti fasteigna- og fráveitugjalda ársins 2014, ýmis gögn um íþróttaiðkun sonar kæranda, ýmis gögn og upplýsingar um [...] og endurrit úr gerðabók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fram kemur að íbúð kæranda hafi verið seld nauðungarsölu á uppboði X2016.

II. Niðurstaða

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar. Samkvæmt ákvæðinu á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. lagagreinarinnar á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun í máli hans hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á og höfðu þýðingu við ákvörðun málsins, en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem litlu eða engu máli skipta við úrlausn þess.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. Í tilviki kæranda ákvað umsjónarmaður að kærandi þyrfti að selja íbúð sína í greiðsluaðlögunarferli þar sem hún hefði ekki bolmagn til að greiða af áhvílandi lánum innan matsverðs íbúðarinnar. Kærandi féllst ekki á að selja íbúðina þar sem hún taldi að tekjur sínar myndu aukast til framtíðar litið og því myndi hún geta greitt afborganir af fasteigninni. Þar sem kærandi gat ekki sýnt fram á að tekjur hennar myndu hækka felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara með úrskurði 2. nóvember 2016. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að ákvörðun í málinu hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik en hún hefur ekki lagt fram nein gögn er staðfesta að tekjur hennar hafi hækkað. Þá kemur til skoðunar hvort ákvörðun úrskurðarnefndarinnar teljist íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann en í málinu liggja fyrir þær breyttu aðstæður að íbúð kæranda hefur verið seld nauðungarsölu á uppboði.

Þegar stjórnvald tekur við umsóknum frá borgara ber stjórnvaldi að ganga úr skugga um að lagaskilyrði til að verða við henni séu uppfyllt. Séu lagaskilyrði uppfyllt leiðir það oft til að umsókn verði samþykkt. Þegar hin lögbundnu skilyrði eru á hinn bóginn ekki uppfyllt hefur verið litið svo á að synjun umsóknar feli ekki í sér viðvarandi bann gagnvart borgaranum, enda setji stjórnvald athafnafrelsi borgarans ekki hömlur með henni. Borgara er þá frjálst að sækja um aftur ef aðstæður hans breytast þannig að hann telji sig uppfylla lagaskilyrði. Í þessu sambandi skal þess getið að ákvörðun stjórnvaldsins þarf að varða nútíð eða framtíð en ekki fortíð, og er ætlað að hafa viðvarandi réttaráhrif.

Í máli kæranda var sú staða fyrir hendi að kærandi sinnti ekki ákveðnum skyldum sem lagðar eru á herðar skuldurum í greiðsluaðlögunarferli og lutu að sölu á fasteign hennar. Af þeim sökum þóttu skilyrði lge. varðandi sölu eigna í greiðsluaðlögunarferli ekki vera uppfyllt og voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda því felldar niður. Í því fólst ekki skerðing á athafnafrelsi kæranda heldur hefur kærandi heimild til að sækja aftur um greiðsluaðlögun telji hún sig reiðubúna til að uppfylla þau skilyrði sem lögð eru á skuldara í greiðsluaðlögunarumleitunum og/eða hafi aðstæður hennar breyst þannig að þýðingu hafi við úrlausn málsins. Augljóst er að málið varðar ekki boð en til þess að teljast boð þarf ákvörðun stjórnvalds að fela í sér einhvers konar fyrirmæli um skyldu til athafna. Samkvæmt þessu verður að telja að úrskurður úrskurðarnefndarinnar um að staðfesta ákvörðun umboðsmanns skuldara á niðurfellingu á umsókn kæranda um greiðsluaðlögun samkvæmt 15. gr. lge. feli ekki í sér boð eða bann í skilningi 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurður kærunefndarinnar um að staðfesta ákvörðun umboðsmanns skuldara var því ekki byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða á atvikum um boð eða bann sem hafa breyst frá því að ákvörðunin var tekin. Skilyrði fyrir því að endurupptaka málið samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru því ekki fyrir hendi.

Með vísan til framangreinds er beiðni um endurupptöku synjað.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni A til úrskurðarnefndar velferðarmála um endurupptöku úrskurðar í máli nr. 180/2016 er synjað.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum