Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 206/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 206/2018

Miðvikudaginn 3. október 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. júní 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar til kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Málavextir eru þeir að með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. desember 2015 og 17. mars 2016, voru umsóknir kæranda um heimilisuppbót samþykktar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. febrúar 2018, var kæranda tilkynnt um að greiðslur heimilisuppbótar yrðu stöðvaðar 1. mars 2018 á þeim grundvelli að samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá væri B með skráð lögheimili á sama stað og hún frá X 2016. Kæranda var veittur frestur til að andmæla væntanlegri stöðvun og senda gögn sem staðfesti að þau byggju ekki í sömu íbúð eða að þau hefðu ekki fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Einnig var greint frá því að bærust engin gögn yrði innheimt krafa vegna greiðslna frá 1. febrúar 2016 með 15% álagi. Með bréfi, dags. 16. febrúar 2018, lagði kærandi fram húsaleigusamning til Tryggingastofnunar auk frekari rökstuðnings. Greiðslur heimilisuppbótar til kæranda voru stöðvaðar 1. mars 2018. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. mars 2018, var kæranda veittur nýr frestur til að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings en að öðrum kosti yrði ákvörðun tekin á grundvelli þeirra gagna sem lægju fyrir. Með bréfi, dags. 19. mars 2018, bárust Tryggingastofnun athugasemdir kæranda. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. júní 2018, var kæranda tilkynnt um að heimilisuppbótin hefði verið stöðvuð en kæranda á ný veittur frestur til að andmæla. Með bréfi, dags. 18. júní 2018, var kæranda tilkynnt um að þau gögn sem kærandi hafi lagt fram bæru ekki með sér að hún nyti ekki eða gæti ekki notið fjárhagslegs hagræðis af sambýli við B Þarf að leiðandi stæði ákvörðun Tryggingastofnunar frá 6. febrúar 2018 um stöðvun á heimilisuppbót frá 1. febrúar 2016 með 15% álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. júní 2018. Með bréfi, dags. 18. júní 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. júlí 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 18. júlí 2018. Með bréfi, dags. 7. ágúst 2018, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 15. ágúst 2018, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2018, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 28. ágúst 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður heimilisuppbót til hennar verði felld úr gildi og henni verði veitt heimilisuppbót á ný.

Í kæru kemur fram að kæran sé lögð fram þar sem Tryggingastofnun svari ekki spurningum kæranda og skilgreini ekki lagalegan rétt stofnunarinnar til að taka ákvörðun um niðurfellingu heimilisuppbótar sem byggð sé á getgátum.

Kærandi hafi gert skýra grein fyrir stöðu sinni og uppfylli öll skilyrði greiðslu heimilisuppbótar, það hafi hún allan tímann gert í þessari íbúð, hún sé einhleyp, njóti tekjutryggingar og sé ein um heimilisreksturinn. Tryggingastofnun hafi engar sannanir fyrir því sem þau telji og byggi því ákvörðun sína á röngum forsendum og getgátum um kæranda og hennar heimili.

Eins og fram komi í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. febrúar 2018, þá virðist kærandi ekki uppfylla skilyrði heimilisuppbótar. Þar sem kærandi hafi ekki getað fært sönnur á því frá opinberri stofnun að enginn annar væri skráður formlega í íbúðina hennar þá sé ekki tekið mark á skýringum hennar að neinu leyti. Eins og kærandi hafi komið á framfæri í bréfum til stofnunarinnar, dags. 16. febrúar 2018 og 19. mars 2018, þá sé lögheimili B í sömu blokk en ekki í sömu íbúð. Fjöldi einstaklinga séu skráðir í blokkinni, sem gætu þá alveg eins allir verið skráðir eða búsettir í íbúð sem kærandi leigi. Kærandi hafi allan tímann verið ein um heimilisrekstur og hún nái varla endum saman. Þá hafi hún ekki gefið til kynna að B væri búsettur í annarri íbúð í sömu blokk heldur eingöngu að hann væri með lögheimili í sömu blokk. Kærandi hafi spurt Tryggingastofnun í bréfunum hvort stofnunin gæti haft afskipti af því hvar einstaklingar séu með lögheimili, þ.e. aðrir en þeir sem séu á bótaskrá hjá þeim. Þá hafi hún einnig spurt á grundvelli hvaða laga stofnunin geti áskilið sér þann rétt að ásaka hana um að vera með utanaðkomandi aðstoð að heimilisrekstri þegar hún sé ein skráð í […] húsnæði. Kærandi hafi lagt fram leigusamning fyrir íbúðina og greint frá því að hún hafi ekki skráð neinar breytingar á sinni stöðu og það sanni að hún sé ein búsett í umræddri íbúð. Fleiri gögn geti hún ekki lagt fram um sjálfa sig og henni sé óheimilt að leggja fram persónuleg gögn varðandi aðra aðila, það geti verið brot á persónuverndarlögum að verða við því sem Tryggingastofnun sé að biðja hana um.

Kærandi hafi ekki fengið nein viðbrögð við útskýringum sínum og Tryggingastofnun hafi ekki svarað spurningum hennar. Stofnunin byggi ákvörðun sína á röngum forsendum og getgátum sem standist ekki lög. Kærandi óski eftir leiðréttingu og endurgreiðslu á lífeyrisgreiðslum sínum frá 1. mars 2018.

Í athugasemdum kæranda, dags. 7. ágúst 2018, eru nokkur atriði í greinargerð Tryggingastofnunar gagnrýnd. Fram kemur að í greinargerð stofnunarinnar segi að samkvæmt Þjóðskrá sé B skráður á sama stað og kærandi og að hann sé ábúandi á heimilisfangi hennar. Athygli sé vakin á að þarna standi heimilisfang kæranda en ekki íbúð.

Kærandi hafi leitað til Þjóðskrár í febrúar 2018 til að athuga hvort hægt væri að fá staðfestingu á því að B væri ekki skráður í sömu íbúð og hún en þær upplýsingar hafi fengist að það væri ekki hægt. Yfirlit Tryggingastofnunar segi ekki til um hvort B sé staðsettur í sömu íbúð og hún leigi. Enn sé um getgátur að ræða hjá stofnuninni og enn sé spurningum kæranda ósvarað. Sé litið á framangreint yfirlit sem sönnun þá geti kærandi gert slíkt hið sama, þ.e. Þjóðskrá gefi ekki út staðfestingar á staðsetningu fólks í fjölbýlishúsum og þar við sitji.

Þá sé farið með villandi staðreynd í greinargerð Tryggingastofnunar um hvað kærandi hafi gefið til kynna um búsetu B. Kærandi hafi sagt að lögheimili hans sé í sömu blokk en ekki í sömu íbúð. Það segi ekki til um hvort hann sé með leigusamning í annarri íbúð í sömu blokk. Aftur haldi stofnunin fullyrðingum á lofti sem byggi á hennar eigin getgátum.

Það sé ekki rétt hjá Tryggingastofnun að það hefði verið henni í lófa lagið að leggja fram leigusamning B. Hún sé enn að bíða eftir svörum við því hvaða lagalega rétt stofnunin hafi til að óska eftir gögnum frá einstaklingum sem séu ekki bótaþegar hjá stofnuninni. B þurfi ekki að sanna hvar hann sé búsettur til að hún geti sannað að hún sé ein um heimilisreksturinn á sínu heimili. Kærandi geti ekki lagt fram leigusamning hans og eins og hún hafi áður bent á þá varði þessi beiðni stofnunarinnar við brot á lögum um persónuvernd.

Tryggingastofnun hafi bent á 39. gr. laga um almannatryggingar en ekkert bendi til þess að kærandi hafi brotið þá lagagrein. Kærandi hafi gefið Tryggingastofnun allar þær upplýsingar sem hún geti og þar sem hún hafi ekki tilkynnt um neinar breytingar þá hafi engar breytingar orðið. Varðandi 2. mgr. 45. gr. sömu laga þá hafi Tryggingastofnun ekki neina heimild til að gera breytingar á hennar greiðslum þar sem þær samræmist ekki neinum breytingum hjá henni. B hafi flutt lögheimili sitt í X 2016 og það séu ekki breytingar af hennar hálfu eða breytingar á hennar aðstæðum heldur eingöngu af hans hálfu. Hér sé um að ræða breytingar hjá einstaklingi sem Tryggingastofnun hafi engin afskipti af og geti ekki haft afskipti af.

Tryggingastofnun geti ekki sannað að kærandi sé ekki ein um heimilishald og að hún deili heimili með öðrum. Þessu til sönnunar óski kærandi eftir gögnum sem sanni að B leggi eitthvað til heimilis hennar.

Orðalag Tryggingastofnunar um að stofnunin telji að kærð ákvörðun hafi verið í samræmi við lög og reglur segi eingöngu að stofnunin telji að lög og reglugerðir gefi þeim lagaheimild til að hunsa alfarið skýringar kæranda og byggja rökstuðning sinn á getgátum. Slíka heimild sé ekki að finna í íslenskum lögum.

Kærandi óski eftir leiðréttingu og endurgreiðslu á lífeyrisgreiðslum sínum og að hætt verði að rukka hana tvö ár aftur í tímann um eitthvað sem eingöngu sé byggt á getgátum.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. ágúst 2018, sé vísað til þess að í úrskurði nr. 454/2016 komi skýrt fram viðurkenning á því að B í því máli væri búsettur hjá viðkomandi og að viðkomandi væri að sækja um bætur en í hennar tilviki séu greiðslur stöðvaðar. Þar af leiðandi sé framangreindur úrskurður ekki fordæmismál. Það sé Tryggingastofnun sem vilji ekki meðtaka að B sé ekki búsettur í íbúð hennar. Þar með segi það sig sjálft að ekki sé um neinn fjárhagslegan stuðning að ræða.

Varðandi 39. gr. laga um almannatryggingar um upplýsingaskyldu kæranda þá hafi kærandi áður tekið það fram að hún hafi ekki haft ástæðu til að leggja fram breytingar á aðstæðum sínum og högum þar sem engin breyting hafi orðið. Annars hefði hún gert það. Enn fremur sé bent á að kærandi hafi veitt upplýsingar og gögn sem með sanngirni megi ætla að hún geti lagt fram. Gögn frá Þjóðskrá séu ekki sönnunargögn. Hvorki hún né Tryggingastofnun geti samkvæmt framangreindum lögum lagt fram eða krafist gagna frá óháðum þriðja aðila sem ráði sjálfur hvar hann hafi lögheimili sitt.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um stöðvun heimilisuppbótar til kæranda frá 1. febrúar 201[6].

Málavextir séu þeir að kærandi, sem sé örorkulífeyrisþegi, hafi sótt um heimilisuppbót til Tryggingastofnunar ríkisins með umsókn þess efnis, nú síðast þann 31. maí 2015, og hafi þá fengið framlengda heimilisuppbót. Með bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 6. febrúar 2018, hafi greiðsla heimilisuppbótar verið stöðvuð þar sem komið hafi í ljós við reglubundið eftirlit hjá stofnuninni að B hafði verið skráður til heimilis á sama stað og hún hjá Þjóðskrá Íslands frá X 201[6]. Frá þeim tíma hafi kærandi ekki verið talin uppfylla skilyrði laga og reglugerða um að vera ein um heimilishald. Í kjölfar stöðvunar á heimilisuppbót hafi kærandi lagt fram leigusamning um íbúðina sem ætlað hafi verið að sýna fram á að hún væri ein um heimilishald. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags 8. mars 2018, hafi kæranda verið tilkynnt að stöðvun heimilisuppbótar stæði óhögguð ef kærandi myndi ekki leggja fram staðfestingu á því að B byggi í annarri íbúð í sama fjölbýlishúsi, eins og kærandi málsins hafi gefið til kynna í bréfi sínu og fylgigögnum til stofnunarinnar, dags. 16. febrúar 2018. Tryggingastofnun bendi einnig á að kæranda hefði verið það í lófa lagið að verða við beiðni stofnunarinnar um aukin gögn til að færa sönnur á mál sitt. Tryggingastofnun hafi ítrekað kröfur sínar með bréfum þess efnis, dags. 15. og 18. júní 2018. Nánar tiltekið hafi stofnunin óskað eftir því að kærandi legði fram leigusamning B fyrir íbúð í sama fjölbýlishúsi með annarri raðtölu fasteignar samkvæmt Þjóðskrá Íslands til sönnunar á því að kærandi byggi ein í sinni íbúð eða með framlagningu annarra gagna sem styðji þá fullyrðingu kæranda að ekki sé um fjárhagslegt hagræði af sambýlinu að ræða.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um greiðslur. Ef breytingar verði á stöðu og högum sem geti haft áhrif á greiðslur beri að tilkynna þær.

Þá segi í 2. mgr. 45. gr. sömu laga að heimilt sé að endurskoða bótarétt hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega.

Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setji þá sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót þar sem kærandi sé ekki ein um heimilishald, en það sé eitt af þeim skilyrðum sem bótaþegi þurfi að uppfylla til þess að eiga rétt á heimilisuppbót.

Þegar svo hátti til sem hér segi, þ.e. þegar tveir einstaklingar deili heimili, þá hljótist af því töluvert hagræði í formi ódýrari rekstrarkostnaðar heimilisins, enda deilist þá rekstur heimilisins að öllu jöfnu niður á tvo aðila.

Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem búi með öðrum einstaklingum hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðunum sínum varðandi heimilisuppbót kæranda.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. ágúst 2018, segir að stofnunin hafi skoðað athugasemdir kæranda með tilliti til gagna málsins og telji ekki ástæðu til efnislegra athugasemda vegna þeirra þar sem fjallað hafi verið um öll gögnin áður í samræmi við önnur samtímagögn í málinu. Um önnur efnisatriði málsins og lagarök vísar Tryggingastofnun til fyrri greinargerðar stofnunarinnar.

Málinu til frekari stuðnings sé bent á úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 454/2016 en telja verði að sá úrskurður sé fordæmisgefandi fyrir mál kæranda, enda séu málsatvik og málatilbúnaður talsvert sambærileg. Í framangreindu kærumáli hafi kærandi sótt um heimilisuppbót en verið synjað þar sem B var búsettur hjá honum. Kæranda hafi verið gefið færi á að skila inn gögnum sem staðfestu að hann hefði ekki fjárhagslegt hagræði af sambýli með B. Kærandi hafi neitað að skila inn slíkum gögnum og taldi að Tryggingastofnun þyrfti að verða sér úti um slík gögn án hans aðkomu. Stofnunin hafi bent á 38. gr. laga um almannatryggingar og 10. gr. stjórnsýslulaga sem kveði á um rannsóknarskyldu stofnunarinnar en í þeirri reglu felist ekki það að stjórnvöld þurfi sjálf að afla allra gagna, heldur sé hægt að beina þeim tilmælum til umsækjanda að veita nauðsynlegar upplýsingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í því máli staðfest niðurstöðu stofnunarinnar. Í úrskurðinum sé jafnframt tekið fram að „ÚRVEL telur að jafnan séu líkur á að [...], hafi fjárhagslega aðkomu að heimilisrekstri.“ Þá sé tekið fram í úrskurðinum að Tryggingastofnun hafi verið nauðsynlegt að óska eftir þessum upplýsingum frá aðila málsins og að sönnunarbyrðin liggi ekki hjá stofnuninni.

Að öllum gögnum málsins virtum telji Tryggingastofnun að stöðvun heimilisuppbótar í tilviki kæranda hafi verið í samræmi við gögn málsins og sé farið fram á að niðurstaðan verði staðfest.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 6. september 2018, kemur fram að ekki sé ástæða til efnislegra athugasemda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva heimilisuppbót til kæranda. Í bréfum Tryggingastofnunar er jafnframt greint frá því að mynduð verði krafa frá 1. febrúar 2016. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hefur kærandi ekki enn verið krafinn um endurgreiðslu heimilisuppbótar. Því kemur hugsanlega endurkrafa Tryggingastofnunar ekki til skoðunar í máli þessu.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt.

Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1052/2009, með síðari breytingum, var sett með stoð í 5. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð þar sem segir:

„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.“

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Samkvæmt 38. gr. laga um almannatryggingar hvílir sú rannsóknarskylda á Tryggingastofnun að stofnunin skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega gagnvart Tryggingastofnun ríkisins er fjallað um í 39. gr. laganna. Þar segir að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð máls, meðal annars með því að veita upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt o.fl. í máli viðkomandi. Einnig er rannsóknarskylda stjórnvalds sérstaklega tilgreind í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá segir í 1. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar sem fjallar um eftirlit og viðurlög að Tryggingastofnun skuli reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun byggist á.

Samkvæmt þágildandi 6. tölul. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er vinnsla persónuupplýsinga heimil ef vinnslan er nauðsynleg við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með. Þá segir í 3 tölul. 1. mgr. 7. gr. að við meðferð persónuupplýsinga skuli gætt að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt sé miðað við tilgang vinnslunnar. Sambærileg ákvæði eru nú í 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidda heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins á þeim grundvelli að hún væri ein um heimilisrekstur að C, sem er skráð lögheimili hennar. Við eftirlit Tryggingastofnunar með réttmæti greiðslna kom í ljós að B væri skráður á sama lögheimili í Þjóðskrá og taldi stofnunin að kærandi uppfyllti þar af leiðandi ekki skilyrði um að vera ein um heimilisrekstur.

Fyrir liggur að kærandi hefur lagt fram húsaleigusamning á milli hennar og leigusala um leigu á íbúð í C. Þá byggir kærandi á því að B sé með lögheimili í sama fjölbýlishúsi og hún en ekki í sömu íbúð. Kærandi hefur lýst því yfir að hún geti ekki fengið opinbera staðfestingu frá Þjóðskrá á því að B sé ekki skráður í sömu íbúð og hún. Kærandi hefur aftur á móti hafnað að veita upplýsingar og leggja fram gögn um búsetu B, meðal annars hugsanlegan leigusamning hans, með vísan til laga um persónuvernd. Tryggingastofnun ríkisins telur að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram séu ekki nægjanleg til þess að sýna fram á að B búi annars staðar en í íbúð hennar.

Í máli þessu liggur fyrir útprentun úr Þjóðskrá þar sem að fram kemur að B sé með lögheimili í C. Úrskurðarnefndin fellst á að framangreindar upplýsingar hafi gefið Tryggingastofnun ríkisins tilefni til að kanna hvort B væri í raun búsettur á heimili kæranda og hvort hún nyti fjárhagslegs hagræðis af sambýli við hann, sbr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð. Af rannsóknarreglu 38. gr. laga um almannatryggingar og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að Tryggingastofnun ber að sjá til þess að nauðsynlegar og réttar upplýsingar liggi fyrir í máli þannig að hægt sé að taka rétta ákvörðun. Tryggingastofnun er þó óheimilt að óska eftir meiri persónuupplýsingum en nauðsynlegt er til þess að taka rétta stjórnvaldsákvörðun í máli, sbr. þágildandi 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst á það mat Tryggingastofnunar að þau gögn sem liggja fyrir í málinu séu ekki nægileg til að sýna fram á að B búi ekki hjá henni. Að mati úrskurðarnefndar eru upplýsingar um búsetu ekki viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi þágildandi 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. núgildandi 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þá lítur úrskurðarnefndin til þess að Tryggingastofnun hefur heimild til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. þágildandi 6. tölul. 8. gr. laganna. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að afla upplýsinga um búsetu B frá henni. Þá telur úrskurðarnefndin ljóst að almennt hafi húsaleigusamningar, sem iðulega séu þinglýstir, ekki að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að beiðni Tryggingastofnunar um upplýsingar um búsetu B brjóti ekki í bága við persónuverndarlög. Kæranda er þó bent á að sérhver skráður einstaklingur hefur rétt til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd ef hann telur að vinnsla persónuupplýsinga brjóti í bága við lög um persónuvernd og persónuupplýsingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018.

Eins og áður hefur komið fram er umsækjanda eða greiðsluþega rétt og skylt að veita þær upplýsingar sem Tryggingastofnun er nauðsynlegt að fá svo að unnt sé að taka ákvörðun í máli viðkomandi, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar. Þar sem kærandi hefur neitað að veita Tryggingastofnun ríkisins upplýsingar og gögn um búsetu B er fallist á að stofnuninni hafi verið heimilt að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til hennar.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda staðfest. Kæranda er bent á að hún geti lagt fram umbeðin gögn og óskað eftir endurupptöku málsins.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum