Hoppa yfir valmynd

Táknmálsgrein

Sveitarfélögum ber að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Félagsþjónusta sveitarfélaga heyrir undir velferðarráðuneytið sem hefur eftirlit með því að sveitarfélögin veiti lögbundna þjónustu. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúanna og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Skal það meðal annars gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti, tryggja uppeldisskilyrði barna, veita aðstoð til þess að fólk geti búið sem lengst á eigin heimili, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi. Einnig skal gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.

Sveitarstjórn ber að kjósa félagsmálaráð eða félagsmálanefnd sem fer með stjórn og framkvæmd félagsþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórn er heimilt er að fela stofnun að sjá um framkvæmd félagsþjónustunnar. Með félagsþjónustu sveitarfélaga er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf við einstaklinga og fjölskyldur þar sem sérstök áhersla er lögð á málefni barna, ungmenna, fatlaðra og aldraðra. Þjónusta í heimahúsum og nærumhverfi einstaklinga og fjölskyldna er lykilorð og ber sveitarfélaginu meðal annars að beita úrræðum eins og félagslegri ráðgjöf, félagslegri heimaþjónustu og stuðningi vegna húsnæðis-, vímuefna- og fjáhagsvanda.

Félagsþjónustunni ber að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Sveitarfélaginu ber að setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Velferðarráðuneytið hefur gefið út leiðbeinandi reglur með fjárhagsviðmiði sem er uppfært árlega. Reglurnar eru eingöngu leiðbeinandi.

Ákvörðun félagsmálanefnda er hægt að skjóta til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, innan fjögurra vikna frá tilkynningu um ákvörðun.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum