Hoppa yfir valmynd

Táknmálsgrein

Velferðarráðuneytið annast stefnumótun og áætlanagerð um málefni aldraðra fyrir landið í heild og hefur eftirlit með framkvæmd laga. Markmið laga um málefni aldraðra er að tryggja að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagsþjónustu sem þeir þurfa á að halda. Einnig er markmið laganna að aldraðir geti eins lengi og unnt er búið við eðlilegt heimilislíf en sé jafnframt tryggð stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.

Velferðarráðherra skipar fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Hlutverk hennar er að vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar. Samstarfsnefndin fer einnig með stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra en fé úr honum skal varið til uppbyggingar þjónustumiðstöðva, dagvista og stofnana fyrir aldraða og til breytinga og endurbóta á slíku húsnæði.

Í hverju heilsugæsluumdæmi starfar þjónustuhópur aldraðra. Hlutverk hans er að fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra og samhæfa þjónustu og leitast við að tryggja að aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þarfnast.

Helstu þættir þjónustu við aldraða eru heimaþjónusta og þjónusta í þjónustumiðstöðvum aldraðra á vegum sveitarfélaga, heimahjúkrun á vegum heilsugæslustöðva, dagvistun, endurhæfingar- og hvíldarinnlagnir eða búseta í dvalarrými eða hjúkrunarrými á stofnunum aldraðra.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum