Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kaupendur hluta í Íslandsbanka 22. mars sl.

Í framhaldi af útboði og sölu Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka þann 22. mars sl. hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið í dag fengið afhent yfirlit yfir þá aðila sem keyptu hluti í útboðinu.

Fjármála- og efnahagsráðherra óskaði formlega eftir slíku yfirliti með bréfi til Bankasýslunnar þann 30. mars sl., en í bréfinu var m.a. skírskotað til laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þar sem lögð er áhersla á gagnsæi við sölu hluta.
Þann 31. mars sl. móttók fjármála- og efnahagsráðuneytið afstöðu Bankasýslu ríkisins og lögfræðiráðgjafa hennar þess efnis að óvarlegt væri að birta upplýsingar um mótaðila ríkisins í viðskiptunum, með vísan til ákvæðis 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, er varðar bankaleynd.

Þann 1. apríl sl. óskaði ráðuneytið eftir afstöðu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til þess hvort lagaákvæði um bankaleynd stæðu því í vegi að upplýsingar um kaupendur og um eignarhlut sem hverjum og einum var seldur, yrðu gerðar aðgengilegar almenningi.

Ráðuneytinu hefur ekki borist svar frá Seðlabankanum.

Í dag, þann 6. apríl, barst hins vegar umbeðið yfirlit yfir kaupendur frá Bankasýslu ríkisins, en þar er sú afstaða ítrekuð að óvarlegt sé að gera yfirlitið aðgengilegt almenningi.

Ráðuneytið hefur nú lagt sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar hafa verið fram fyrir því að framangreint yfirlit falli undir bankaleynd. Að mati ráðuneytisins falla upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna hefur ráðherra ákveðið að birta yfirlitið.

Aðdragandi sölumeðferðar

Fyrsta skrefið varðandi sölu íslenska ríkisins á hlutum í Íslandsbanka var tekið með frumútboði á 35% hlut í bankanum og töku hlutanna í kjölfarið til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallar Íslands þann 22. júní í fyrra. Tæplega 24.000 hluthafar eignuðust hlut í bankanum, sem varð þannig fjölmennasta almenningshlutafélag á Íslandi.

Áframhaldandi sala hluta í bankanum er í samræmi við ákvæði laga, stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, niðurstöður hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið og eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki.

Þann 20. janúar sl. barst fjármála- og efnahagsráðherra tillaga frá Bankasýslu ríkisins um áframhaldandi sölumeðferð hluta í bankanum. Ráðherra féllst á tillöguna þann 10. febrúar sl. Samdægurs sendi ráðherra bréf til Alþingis þar sem óskað var umsagna fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar, auk bréfs til Seðlabanka Íslands, þar sem óskað var umsagnar bankans. Þá birti ráðuneytið enn fremur greinargerð vegna framhalds sölu á hlutum ríkisins í bankanum, í samræmi við ákvæði laga nr. 155/2012.

Þann 18. mars sl. ákvað ráðherra, að fengnum umsögnum efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar Alþingis, auk umsagnar Seðlabanka Íslands, að hefja framhald sölumeðferðar á hlutum í bankanum í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins. Meirihlutar beggja þingnefnda mæltu með því að hafist yrði handa við framhald sölu. Þá taldi Seðlabankinn í umsögn sinni að jafnræði bjóðenda yrði tryggt og var salan talin hafa takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð.

Lífeyrissjóðir umfangsmestu fjárfestarnir

Bankasýsla ríkisins annaðist framkvæmd sölunnar í samræmi við lög nr. 88/2009. Tilkynnt var opinberlega um upphaf útboðsins með fréttatilkynningu Bankasýslunnar eftir lokun markaða þann 22. mars. Útboðið náði til allra hæfra fjárfesta, skv. skilgreiningu laga þar um. Að morgni dags þann 23. mars birti Bankasýsla ríkisins og ráðgjafar hennar fréttatilkynningu um niðurstöðu útboðsins.

Alls voru seldir 50 milljón hlutir í bankanum á genginu 117 krónur á hlut eða samtals fyrir 52,7 ma.kr. Þátt tóku 209 hæfir fjárfestar og má sjá flokkun þeirra hér að neðan.

Tegund fagfjárfesta Fjöldi Fjárhæð (ma.kr.) Fjárhæð
Lífeyrissjóðir 23 19,5 37,1%
Einkafjárfestar 140 16,1 30,6%
Verðbréfasjóðir 13 5,6 10,6%
Aðrir fjárfestar 14 3,5 6,7%
Innlendir fjárfestar 190 44,8 85,0%
Erlendir langtímafjárfestar 7 4,4 8,3%
Aðrir erlendir fjárfestar 12 3,5 6,7%
Erlendir fjárfestar 19 7,9 15,0%
Samtals fjárfestar 209 52,7 100,0%

Bankasýsla ríkisins, að höfðu samráði við sölu- og fjármálaráðgjafa, annaðist úthlutun til einstakra aðila í samræmi við þau viðmið sem fjármála- og efnahagsráðherra tilgreindi í greinargerð sinni til Alþingis um söluna og bréfi til stofnunarinnar þann 18. mars sl. Þau viðmið sem sérstaklega voru tilgreind í bréfi ráðherra voru svofelld:

i. að áfram verði stuðlað að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði;

ii. að áfram verði horft til þess að viðhalda dreifðu eignarhaldi og fjölbreytileika í eigendahópi Íslandsbanka;

iii. að horft verði til þess, við útfærslu og úthlutun í kjölfar tilboðsfyrirkomulags og ef nægjanleg umframeftirspurn verður í slíkum útboðum, að fjárfestar sem horfi til lengri tíma fjárfestinga verði fyrir minni skerðingu en skammtímafjárfestar.

Nánari upplýsingar um söluferlið má sjá í kynningu Bankasýslu ríkisins sem birt var þann 1. apríl sl.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum