Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Guðlaug Einarsdóttir skipuð skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu

Guðlaug Einarsdóttir nýskipaður skrifstofustjóri - mynd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað Guðlaugu Einarsdóttur skrifstofustjóra á skrifstofu sjúkrahúsa og sérþjónustu í heilbrigðisráðuneytinu. Guðlaug var valin úr hópi 12 umsækjenda um embættið að undangengnu mati ráðgefandi nefndar sem skipuð var til að meta hæfni umsækjenda í samræmi við lög um Stjórnarráð Íslands. Nefndin mat Guðlaugu mjög vel hæfa til að gegna embættinu.

Guðlaug er með BS próf í hjúkrun og embættispróf í ljósmóðurfræðum frá Háskóla Íslands. Einnig er hún með MPM próf í verkefnastjórnun og hefur hlotið alþjóðlega vottun í verkefnastjórnun IPMA Level C og D. Þá er hún jafnframt með diploma frá Háskóla Íslands í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Í mati hæfnisnefndarinnar er bent á að Guðlaug hafi því háskólamenntun og framhaldsmenntun á tveimur sviðum sem nýtist mjög vel í starfi.

Guðlaug hefur starfað sem sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu/ velferðarráðuneytinu frá september 2018. Frá 2011 til 2018 starfaði hún hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fyrst sem ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, síðan sem verkefnastjóri frá 2013 og sem deildarstjóri hjúkrunardeilda (Fossheima og Ljósheima) frá 2016 en þar voru rúmlega 70 starfsmenn og loks starfaði hún sem ljósmóðir á tveimur sjúkrahúsum í Danmörku, samtals í rúmlega tvö ár. Í störfum sínum hjá ráðuneytinu hefur Guðlaug m.a. unnið að aðgerðaáætlun í þjónustu við einstaklinga með heilabilun, greiningu og eftirfylgni á þörf fyrir hjúkrunarrými og stýrt starfshópi um gerð heildrænnar skýrslu um barneignarþjónustu.

Eins og fram kemur í mati hæfnisnefndar hefur Guðlaug fjölbreytta og víðtæka starfsreynslu á sviði heilbrigðisþjónustu og umtalsverða reynslu sem stjórnandi með mannaforráð auk mikillar þekkingar og reynslu á sviði verkefnastjórnar, bæði úr störfum í ráðuneytinu og sem verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra Heilbrigðistofnunar Suðurlands. Hún hefur jafnframt góða þekkingu á opinberri stjórnsýslu. Guðlaug hefur tekið mikinn þátt í erlendu samstarfi og gegnt fjölda trúnaðarstarfa m.a. var hún formaður Ljósmæðrafélags Íslands um sex ára skeið. Þá hefur hún haldið marga fyrirlestra og birt fjölda greina bæði í dagblöðum og tímaritum.

Guðlaug tekur við skrifstofustjórastarfinu af Elsu B. Friðfinnsdóttur sem hefur gegnt því embætti frá árinu 2018.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum