Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Bann sett við sölu á grágæs

Grágæs. - myndHalldór Walter Stefánsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur undirritað breytingu á reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Með breytingunni er óheimilt að bjóða til sölu eða selja grágæs og afurðir hennar. Einnig er óheimilt að flytja hana út. Heimilt er þó að selja uppstoppaða gæs.

Á undanförnum árum hefur grágæsarstofninum hnignað og er sölubann sett fram til að auka líkurnar á að stofninn nái sér á strik á ný. Lagt verður mat á stöðuna að ári liðnu og verði áframhaldandi hnignun á  stofninum á þeim tíma verður lengd veiðitímabils grágæsar tekið til skoðunar. Verði hins vegar fjölgun í stofninum verður metið hvort þörf verði á áframhaldandi sölubanni.

Í ljósi umræðu um hvernig eftirliti verði háttað með sölubanninu og ábendinga um að sölubannið muni hafa þau áhrif að grágæs verði seld sem heiðagæs bendir ráðuneytið á að veiðimaður hefur heimild til að selja villibráð sem hann veiðir sjálfur. Villibráðin þarf hins vegar að vera afhent óunnin í hamnum nema viðkomandi aðili hafi leyfi Matvælastofnunar til að verka hana og selja beint til neytenda. Ráðuneytið hvetur þá sem kaupa unna villibráð til að hafa þetta í huga við sín kaup til að tryggja að ekki sé um að ræða vöru unna úr grágæs. Þá er mikilvægt að neytendur séu vel upplýstir um uppruna þeirrar vöru sem þeir kaupa, hvort heldur sem er á veitingastöðum eða í matvöruverslunum.

Unnið er að því að útfæra nánar eftirlit með sölubanninu. Það eftirlit mun meðal annars fela í sér sýnatökur og DNA greiningu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Fækkað hefur í grágæsastofninum á undanförnum árum og við því verður að bregðast. Með sölubanninu nú eru stigin skref til að vernda stofninn, sem vonandi duga til að hann taki við sér á ný og verður staðan metinn á ný að ári liðnu.“

Reglugerð nr. 858/2023 um breytingu á reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum með síðari breytingum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum