Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 30. desember 1994

Föstudaginn 30. desember 1994 var í Matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms tekið fyrir matsmálið nr. 2/1993

Óðinn Sigþórsson
gegn
Vegagerð ríkisins

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson, formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur, og Böðvar Sigvaldason, bóndi, en formaður nefndarinnar kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dags. 8. september 1993 sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 1. október 1993, óskaði Óðinn Sigþórsson, kt. 050751-4659, Einarsnesi, Borgarhreppi, Mýrasýslu (eignarnámsþoli) eftir því við matsnefndina að hún mæti honum hæfilegar eignarnámsbætur vegna þeirrar skerðingar sem hann telur að hafi orðið á laxveiðihlunnindum jarðarinnar Einarsness í Hvítá við lagningu brúarinnar yfir Borgarfjörð árið 1980. Eignarnemi er Vegagerð ríkisins.

Í matsbeiðninni kemur fram að fyrir hafi legið að Vegagerð ríkisins hafi að lögum haft eignarnámsheimild vegna brúargerðarinnar sbr. X. kafla vegalaga nr. 6/1977 og samsvarandi eldri ákvæði. Áhöld voru um hvort og þá hvaða áhrif brúargerðin myndi hafa á laxveiðihlunnindi Einarsness og var ekki unnt með neinni vissu að spá fyrirfram um hver þessi áhrif myndu verða. Samkomulag varð því um að láta mat á þessu bíða þar til framtíðarráhrif brúarsmíðinnar þættu vera komin í ljós að þessu leyti. Samkomulag varð með aðilum í febrúar 1993 um að leggja málið fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta, en þar sem skipunartími eldri nefndar var að renna út þótti aðilum rétt að bíða skipunar nýrrar nefndar og var því matsbeiðni ekki útbúin fyrr en 8. september svo sem að framan greinir.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir föstudaginn 1. október 1993. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram matsbeiðni ásamt fleiri gögnum. Aðilar lýstu því yfir að þeir væru sammála um að málið væri rekið fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta og að þeir gerðu ekki athugasemdir við skipan matsnefndarinnar í málinu. Málinu var frestað til framlagningar frekari gagna til 18. október 1993.

Mánudaginn 18. október 1993 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema voru lögð fram nokkur skjöl og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 12. nóvember 1993.

Föstudaginn 12. nóvember var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 14. janúar 1994.

Föstudaginn 14. janúar var málið tekið fyrir. Fyrir fyrirtökuna höfðu aðilar haft samband við formann matsnefndarinnar óskað eftir því að málinu yrði frestað. Málinu frestað til 11. febrúar 1994.

Föstudaginn 11. febrúar 1994 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgigönum. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma.

Fimmtudaginn 14. apríl 1994 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola voru lögð fram gögn, en að því búnu var málinu frestað til vettvangsgöngu til 27. apríl 1994.

Miðvikudaginn 27. apríl 1994 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Rætt var um framlagningu gagna og var málinu frestað til framlagningar frekari gagna til 23. júní 1994.

Fimmtudaginn 23. júní 1994 var málið tekið fyrir. Af hálfu aðila voru lögð fram ýmis gögn. Eignarnemi upplýsti að verið væri að vinna gögn varðandi dýpt Hvítár ofan brúar, og voru aðilar sammála um að fresta málinu þar til þau gögn lægju fyrir. Málinu frestað ótiltekið.

Miðvikudaginn 6. júlí 1994 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema voru lögð fram gögn og sættir reyndar án árangurs. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs málflutnings til 18. október 1994.

Þriðjudaginn 1. nóvember 1994 var málið tekið fyrir. Af óviðráðanlegum orsökum reyndist ekki unnt að taka málið fyrir þann 18. október eins og til stóð. Af hálfu aðila voru lögð fram ýmis gögn og málið að því búnu munnlega flutt. Að flutningi loknum var málið tekið til úrskurðar.

IV. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola eru þær kröfur gerðar, að honum verði úrskurðaðar bætur fyrir það tjón sem hann telur byggingu brúarinnar yfir Borgarfjörð hafi valdið honum með minnkandi veiði fyrir landi Einarsness. Þá er þess krafist að eignarnemi greiði allan kostnað af málinu, þ.m.t. kostnað eignarnámsþola.

Þar sem Hvítá hefur nú verið leigð út til stangveiði og netaveiðar þar aflagðar, skiptast leigutekjur milli veiðiréttarhafa í hlutfalli við mat hverrar jarðar í arðskrá. Gerir eignarnámsþoli þá kröfu að höfð verði hliðsjón af þeirri rýrnum á hlut Einarsness í arðskrá fyrir Hvítá, sem minnkandi veiði vegna Borgarfjarðarbrúarinnar fyrir landi Einarsness hafði í för með sér, og að bætur verði ákvarðaðar með þeim hætti að eignarnámsþoli fái í sínar hendur fjárhæð sem geti borið nægilega háa vexti til að hann sitji ekki uppi með skertar tekjur í framtíðinni vegna minnkandi veiði eftir brúargerðina. Þá er sú krafa gerð að eignarnámsþola verði bætt sérstaklega veiðitjónið fyrir árin 1981 til 1990 sem eignarnámsþoli telur nema kr. 12.908.087- á verðlagi í nóvember 1993, samkvæmt framlögðum útreikningum á skjali nr. 19.

Eignarnámsþoli heldur því fram að áður en bygging brúarinnar hófst hafi eignarnemi á fundum með heimamönnum gefið loforð um að þeim sem yrðu fyrir tjóni vegna framkvæmdarinnar, yrði bætt það að fullu. Þessu til stuðnings hefur eignarnámsþoli lagt fram nokkrar fundargerðir kynningarfunda eignarnema með landeigendum, sem haldnir voru áður en ráðist var í verkið.

Af hálfu eignarnámsþola kemur fram að haustið 1977 hafi óslína Hvítár verið færð fram og við það hafi veiðisvæði Einarsness stækkað. Áhrif þessa voru fyrst og fremst þau að veiðiaðstaða við nesið (Einarsnes) batnaði til mikilla muna. Árið 1980 var vegfylling að hinni nýju Borgarfjarðarbrú sett niður, Borgarnesmegin. Við þetta telur eignarnámsþoli að helsta gönguleið laxins hafi lokast, þar sem áll með landinu Borgarnesmegin, sem hafi verið mikil gönguleið, hafi lokast. Eignarnemi telur að fyrir niðursetningu vegfyllingarinnar hafi laxinn gengið meðfram landinu Borgarnesmegin, upp ál þann sem lokaðist með vegfyllingunni og áfram upp með landinu að norðanverðu, upp með skerjum og nesinu þar sem eignarnámsþoli stundaði veiðar. Eftir að állinn lokaðist virðist eignarnámsþola sem laxinn gangi í meira mæli um leirusvæðið sunnar, þ.e. ofan við brúaropið sjálft, og skili sér því ekki upp með Einarsneslandi líkt og áður.

Eignarnámsþoli kveður göngutíma laxins einnig hafa breyst eftir brúargerðina. Þannig hafi háttað til áður, að laxin hafi aðallega veiðst síðast á útfallinu og á liggjandanum, þ.e. þegar straumlaust er. Eftir að áhrifa brúargerðarinnar fór að gæta kveður eignarnámsþoli að sú breyting hafi orðið á að laxinn hafi ekki gengið í ána fyrr en nokkuð var fallið að. Þetta telur eignarnámsþoli hafa haft þau áhrif að nú dreifi laxinn sér um ána á veiðisvæði Einarsness, í stað þess að fara um ákveðan gönguleið um álana sem lágu meðfram Einarsnesi.

Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram, að til að unnt sé að meta tjón það sem minnkandi veiði hafi valdið honum, liggi beinast við að skoða tölur yfir veiði jarðarinnar með því að bera árin 1978-1979 saman við veiði áranna 1981 til 1990. Eignarnámsþoli hefur lagt fram á skjali nr. 8 yfirlit yfir afla Einarsness sem hlutfall af heildarafla í Hvítá fyrir árin 1978 til 1990. Ástæða þess að eignarnámsþoli lítur ekki til veiðinnar fyrir þann tíma er sú að haustið 1977 var óslína Hvítár færð fram og bættist því við mikilvægur veiðistaður fyrir Einarsnes svo sem að framan er rakið. Eignarnemi telur því ekki tækt að nota veiðitölur frá því fyrir færslu óslínunnar til samanburðarins.

Á framlögðu yfirliti kemur fram að veiði Einarsness árið 1978 nam 12,74% af heildarveiði í Hvítá það árið, árið 1979 15,41% og árið 1980 12,98%. Eftir þann tíma minnkaði hlutfallið nokkuð og var meðaltal áranna 1978 til 1980 13,71% af heildarveiði í Hvítá en 7,81% fyrir árin 1981 til 1990. Eignarnámsþoli telur að árið 1980 hafi ástandið verið óeðlilegt og því ekki ástæða til að telja það ár með við sambanburðinn, hvorki til tímabilsins fyrir né eftir brúargerðina. Frá árinu 1991 hefur ekki verið um neina netaveiði að ræða í Hvítá þar sem búið er að leigja vatnasvæðið út til stangveiði.

Eignarnámsþoli tekur fram að hann hafi breytt nokkuð veiðiaðferðum árið 1978 þegar hann tók við veiðinni af föður sínum í Einarsnesi. Í stað krókneta voru tekin upp lagnet, lögnum fækkað og þær lengdar. Samtímis buðust margþætt nælonnet í stað eldri neta úr hörgarni og hentuðu hin nýju net betur hinni breyttu veiðiaðferð. Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram, að ef ekki hefði komið til smíði Borgarfjarðarbrúarinnar hefði þróun hans á hinni nýju veiðiaðferð orðið til þess að hlutdeild hans í heildarveiði Hvítár hefði getað farið upp í 20%. Eignarnámsþoli telur að það hefði verið raunhæf þróun með hliðsjón af þeirri þekkingu og reynslu sem hann hefur öðlast á lagnetalögn í þau 12 ár sem hún hefur verið notuð. Þá bendir eignarnámsþoli á að bara milli áranna 1978 og 1979 hafi orðið veruleg aukning á veiði fyrir Einarsnesi, m.a. vegna meiri reynslu í notkun lagneta.

Eignarnámsþoli heldur því fram að við skoðun á þessum veiðitölum sé ljóst að bein tengsl séu milli gerð brúargerðarinnar og minnkandi veiði fyrir landi Einarsness og þetta tjón beri að bæta honum.

Í greinargerð sinni útlistar eignarnámsþoli með hvaða hætti hann telur að reikna eigi út bætur fyrir tjón hans í framtíðinni, þ.e. frá árinu 1991. Útreikningurinn miðast við að bæta honum tjónið með nægilega hárri fjárhæð til að afla honum þeirra vaxtatekna sem nema tekjutapi hans vegna lægra mats Einarsness í arðskrá fyrir Hvítá.

V. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er kröfum eignarnámsþola alfarið mótmælt og þess krafist, að bótakröfu eignarnámsþola verði alfarið hafnað. Til vara er þess krafist, að bæturnar verði metnar mun lægri en krafa eignarnema hljóðar upp á.

Eignarnemi tekur fram að fyrir og á meðan á byggingu Borgarfjarðarbúarinnar stóð hafi allan tímann verið haft mikið og gott samstarf við heimamenn. Fjöldi ábendinga hafi komið frá landeigendum í tengslum við verkið sem tillit hafi verið tekið til af hálfu eignarnema. Þannig hafi t.a.m. afstaða veiðiréttareigenda ráðið úrslitum varðandi lengd brúarinnar, en ákveðið hafi verið að byggja eina 520 m. langa brú yfir dýpsta ál óssins, þar sem slík brú var talin valda minnstri truflun á rennsli árinnar og sjávarföllum. Þá bendir eignarnemi á að miklar mælingar hafi verið gerðar á botni og rennsli Hvítár, fyrir og eftir byggingu brúarinnar með það fyrir augum að rannsaka áhrif brúarinnar á netaveiði á svæðinu.

Eignarnemi bendir á að samkvæmt niðurstöðum mælinga hafi engar botnbreytingar orðið við Einarsnesið sjálft, þar sem eignarnámsþoli hefur hina svokölluðu Neslögn, sem hann veiðir aðallega í. Af þessum sökum sé ekki hægt að halda því fram að bygging brúarinnar hafi haft nokkur áhrif á möguleika laxins til að ganga meðfram landinu framhjá Einarsnesi.

Eignarnemi bendir á að veiði í Borgarnesi, sem er fyrir neðan Einarsnes, og á Bóndhól, sem er ofan við Einarsnes, hafi ekki minnkað hlutfallslega frá byggingu Borgarfjarðarbúar, og því sé ekkert sem bendi til að laxagöngum hafi verið bægt frá norðurströnd Borgarfjarðar með tilkomu brúarinnar.

Af hálfu eignarnema er því mótmælt sem ósönnuðu að bygging brúarinnar hafi breytt göngutíma laxins. Þá kveðst eignarnemi ekki sjá hvers vegna það ætti að spilla veiði í Einarsnesi, jafnvel þó slík breyting á göngutímanum væri sönnuð.

Eignarnemi bendir á, að samkvæmt því sem fram komi í greinargerð Sigurðar Más Einarssonar og Sigurðar Guðjónssonar hjá Veiðimálastofnun um málefni Einarsness, sem lögð var fram í málinu, sé ekki að sjá að veiði hafi minnkað eða vaxið í Einarsnesi meira en hjá öðrum netaveiðibændum á árunum eftir brúargerðina.

Af hálfu eignarnema er því haldið fram að það sé ekki unnt að nota veiði tveggja ára, þ.e. áranna 1978 og 1979 til samanburðar við veiði á tíu ára tímabili þar á eftir, þ.e. á árunum 1981-1990. Eignarnemi heldur því fram að til að fá marktæka viðmiðun hefði þurft að líta yfir mun lengra tímabil en tvö ár.

Eignarnemi heldur því fram að sveiflur í hlutfalli Einarsness í heildarveiði Hvítár séu ekkert einsdæmi. Í þessu sambandi bendir eignarnemi á veiðitölur allt frá árinu 1948 sem lagðar hafa verið fram í málinu. Eignarnemi bendir sérstaklega á að sé veiði í Einarsnesi frá árinu 1948 til 1955 skoðuð sem hlutfall af heildarnetaveiði á vatnasvæði Hvítár, sjáist að meðalveiði áranna frá 1948 til 1953 hafi verið 10,6% af heildarveiði, en árin 1954 og 1955 hafi hlutfallið verið 17,49%. Munurinn er 6,89%. Sé hins vegar hlutfallið af heildarnetaveiðinni á árunum 1981-1986 á sama hátt borið saman við árin 1978 og 1979 komi fram að meðaltal áranna 1981-1986 7,3% en var fyrir árin 1978 og 1979 14,8%. Munurinn er 6,78%. Eignarnemi telur að þessar tölur tali sínu máli um að sveiflur í veiðihlutfalli Einarsness séu ekkert einsdæmi og tengist ekkert brúarbyggingunni. Eignarnemi bendir ennfremur á að þau ár sem veiði er í lágmarki í Einarsnesi, þ.e. árin 1958-1977 hafi sveiflur í veiði verið jafnvel enn meiri eða frá því að vera engin veiði sum árin upp í 5,09% árið 1971.

Af hálfu eignarnema er mótmælt gundvelli bótakröfu eignarnámsþola í málinu. Eignarnemi mótmælir alfarið útreikningi eignarnámsþola á tjóni hans sem lagt hefur verið fram í málinu. Eignarnemi telur ekki tækt að miða við að áin verði framvegis leigð út til stangveiði, þar sem ekkert liggi fyrir um að slíkt fyrirkomulag sé komið til að vera. Eignarnemi mótmælir sérstaklega að arðskrármat verði notað sem mælikvarði á meint tjón eignarnámsþola þar sem forsendur þess séu að miklu leyti ókunnar og auk þess óviðkomandi aðgerðum eignarnema. Eignarnemi telur eignarnámsþola eigi að beina kröfum sínum vegna arðskrármatsins að öðrum aðilum en honum.

Eignarnemi telur að bótagrundvöllinn skuli miða við þau afnot, sem eignarnámsþoli hafði af veiðiréttindunum. Eignarnemi telur að í þessu sambandi skuli litið til þeirra tekna sem eignarnámsþoli hafði af veiðinni og hugsanlega skerðingu á þeim vegna byggingu brúarinnar.

VI. Álit meirihluta matsnefndar:

Aðilar málsins eru sammála um eignarnámsheimild eignarnema. Þá eru aðilar sammála um að mál þetta skuli rekið fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta. Ekki hefur verið gerð athugasemd af hálfu aðila við skipun matnsnefndarinnar í máli þessu.

Í málinu hafa m.a. verið lögð fram ítarleg gögn um veiðitölur í Hvítá, dýptarmælingar og skýrslur yfir botnbreytingar árinnar auk greinargerðar frá Veiðimálastofnun um málefni Einarsness. Þá hafa verið lagðar fram fundargerðir samráðsfunda eignarnema og landeigenda á svæðinu sem haldnir voru fyrir gerð brúarinnar yfir Borgarfjörð.

Svo virðist sem mikið og gott samstarf hafi verið haft við heimamenn fyrir gerð brúarinnar yfir Borgarfjörð. Um það vitna fundargerðir eignarnema með landeigendum sem lagðar hafa verið fram í málinu. Á nefndum undirbúningsfundum kom m.a. fram að eignarnemi ábyrgðist að greiða þeim landeigendum bætur sem kynnu að verða fyrir tjóni af völdum brúargerðarinnar svo sem skylt er samkvæmt X. kafla vegalaga nr. 6/1977.

Af hálfu eignarnema hafa verið gerðar nákvæmar mælingar á dýpt og botni Hvítár, bæði fyrir og eftir byggingu brúarinnar yfir Borgarfjörð. Fallast ber á það með eignarnema að ekki hafi orðið veruleg breyting á dýpt og botni Hvítár af völdum brúarinnar á þeim stöðum sem netaveiði eignarnámsþola fór fram. Öll skilyrði fyrir því að fiskur haldist á þessum svæðum virðast því vera hin sömu og fyrir gerð brúarinnar og botnbreytingar ekki orðið meiri á þessum slóðum en búast hefði mátt við, en algengt mun vera að álar í ám með sendnum botni, eins og Hvítá er, séu sífellt að breyta sér.

Ekkert liggur fyrir um að brúin sem slík hamli fiskgengd inn á vatnasvæði Hvítár. Þá er ósannað að göngutími laxins hafi breyst með tilkomu brúarinnar.

Við mat á hugsanlegum áhrifum brúarinnar yfir Borgarfjörð á veiði eignarnámsþola þykir rétt að líta til veiðitalna Einarsness fyrir og eftir brúarsmíðina sem hlutfall af heildarveiði í Hvítá. Svo sem fram hefur komið, hafa verið lagðar fram upplýsingar um veiðitölur á svæðinu. Um er að ræða tölur allt frá árinu 1947. Vegna tilfærslu á óslínu Hvítár árið 1977 breyttist lagnasvæði eignarnámsþola verulega þar sem hin svokallaða neslögn var tekin í notkun, en fyrir færslu óslínunnar var netalögn á því svæði óheimil. Vegna þessara breyttu forsendna er ljóst að viðmiðun á hlutdeild Einarsness í heildarveiði frá því fyrir árið 1978 er ekki tæk.

Ljóst virðist að með vegfyllingu að brúnni Borgarnesmegin lokaðist mikilvæg gönguleið fyrir lax upp með landinu að norðanverðu. Við mat á því hver raunveruleg áhrif þetta hefur haft á fiskgengd og veiðar á einstökum bæjum þykir raunhæfast að líta til talna yfir veiði á svæðinu, en ekki liggja fyrir neinar mælingar eða athuganir á gönguleiðum laxins frá því fyrir og eftir gerð brúarinnar.

Við skoðun á veiðitölum frá árinu 1978 kemur í ljós að árið 1978 var hlutfall Einarsness í heildarveiði í Hvítá var það ár 12,74% og 15,41% árið eftir. Í apríl 1980 var vatni hleypt undir brúna í fyrsta sinn, og var veiði Einarsness það sumar 12,98% af heildarveiði í Hvítá. Á árunum þar á eftir fór hluteild Einarsness í heildarveiði í Hvítá minnkandi og var þannig 9,96% árið 1981, 9,12% árið 1982, 5,17% árið 1983, 4,08% árið 1984 og 6,79% árið 1985. Á árunum 1986 og 1987 varð uppsveifla í hlutdeild Einarsness í veiðinni og var árið 1986 9,38% og 15,18% árið 1987. Árið 1988 fór veiðin í Einarsnesi niður í 6,36% af heildarveiði, 6,03% árið 1989 og 6,04% árið 1990. Ekki hefur verið stunduð netaveiði í Hvítá eftir árið 1990 svo sem að framan er rakið.

Við athugun á veiðitölum þeim sem lagðar hafa verið fram í málinu má sjá að hlutfall Einarsness í heildarveiði í Hvítá hefur verið sveiflukennd allt frá árinu 1947. Þannig hefur t.d. hlutfallið frá árinu 1947 til 1978 verið allt frá því að vera 0,06% upp í að vera 17,54% af heildarveiði á svæðinu. Við skoðun á aflatölum þessum verður að hafa í huga að veiðiaðferðir hafa breyst í tímanna rás og óvíst er um áreiðanleika talningarinnar á hverjum tíma. Engu að síður fellst meirihluti matsnefndarinnar á það með eignarnema að sýnt hafi verið fram á að ákveðin tilhneiging sé til sveiflna í hlutfalli Einarsness í heildarveiði Hvítár. Svo sem áður greinir fellst meirihluti matsnefndarinnar einnig á það með aðilum, varðandi mat á hugsanlegum áhrifum brúarinnar yfir Borgarfjörð á hlutfall Einarsness í heildarveiði í Hvítá, sé ekki tækt að líta til tímabilsins frá því fyrir þess tíma er óslína Hvítár var færð neðar, þ.e. á árinu 1977. Árin 1978 til 1990 eru því þau ár sem til skoðunar koma í þessu sambandi.

Með vísan til þeirra sveiflna sem hafa verið í hlutfalli Einarsness í heildarveiði í Hvítá þykir meirihluta matsnefndarinnar ósannað að aflinn árin 1978 og 1979 hafi ekki verið náttúruleg uppsveifla í veiðinni. Þannig má til samanburðar líta til áranna 1986 og 1987 sem sýna greinilega aðra uppsveiflu í veiðinni. Með vísan til framanritaðs þykir meirihluta matsnefndarinnar ósannað að bygging brúarinnar yfir Borgarfjörð hafi haft þau áhrif á veiði fyrir landi eignarnámsþola að hann eigi rétt á bótum af þeim sökum. Nefndin hafnar því kröfum eignarnema um eignarnámsbætur vegna þessa.

Með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnám skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 350.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 720.000- til ríkissjóðs í kostnað við störf matsnefndarinnar í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum eignarnámsþola um eignarnámsbætur er hafnað. Eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 350.000 auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 720.000- til ríkissjóðs í kostnað vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

___________________________      ______________________________
Helgi Jóhannesson, formaður         Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur

Sératkvæði Böðvars Sigvaldasonar bónda:

Ég er sammála málavaxtalýsingu og umfjöllun um sjónarmið aðila málsins sem fram koma í atkvæði meirihluta nefndarinnar.

Hins vegar tel ég yfirgnæfandi líkur á því að við byggingu Borgarfjarðarbrúarinnar hafi veiðimöguleikar Einarsness minnkað. Lokað hefur verið mikilvægum gönguleiðum laxins með norðurlandinu, en þar var eina færa leiðin á bát á lágfjörðu að lögnum Einarsness. Ljóst er að svonefnd neslögn var mikilvæg viðbót við veiðimöguleika Einarsness 1977 og færði umtalsverða aukningu veiði 1978 og 1979, jafnframt að vera neðsta lögn jarðarinnar við norðurbakka Hvítár og því mjög mikilvæg fyrir eignarnámsþola.

Eftir brúargerðina og lokun á gönguleið með norðurlandinu 1980 minnkaði veiði Einarsness til áranna 1986 og 1987 en þá varð umtalsverð veiðiaukning sem hefði best getað orðið miklu meiri ef veiðiaðstæður hefðu verið óbreyttar. Því er ég ósammála meirihluta matsnefndarinnar og tel að meta eigi eignarnámsþola eignarnámsbætur í máli þessu. Ég er sammála úrskurði meirihluta um málskostnað og kostnað vegna starfa matsnefndarinnar í máli þessu, en þar sem meirihluti nefndarinnar hafnar eignarnámsbótum í málinu þykir ekki ástæða til að ákvarða fjárhæð bóta í sératkvæði þessu.

__________________________________
Böðvar Sigvaldason, bóndi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn