Hoppa yfir valmynd
25. janúar 1996 Matvælaráðuneytið

Fundur norrænna ráðherra á sviði neytendamála

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 1/1996



Fundur norrænna ráðherra á sviði neytendamála var haldinn hinn 24. janúar 1996 í Fredensborg á Sjálandi. Ráðherra neytendamála á Íslandi, Finnur Ingólfsson, hafði ekki tök á að sækja fundinn en staðgengill hans var Þorkell Helgason ráðuneytisstjóri.

Á fundi sínum urðu ráðherrarnir sammála um nauðsyn þess að auka kennslu í skólum um málefni neytenda og samþykktu áætlun um neytendafræðslu í skólum. Rannsóknir sem gerðar hafa verið í Svíþjóð og Noregi sýna að almenn þekking ungs fólks á fjárhagsmálefnum heimila er mjög lítil. Þrátt fyrir það gerir þjóðfélagið sífellt meiri kröfur til ungs fólks að þessu leyti. Má í því sambandi benda á að notkun greiðslukorta verður æ algengari og framboð lánsfjár verður stöðugt meira. jafnframt verður sífellt erfiðara að henda reiður á alls kyns tilboðum á neytendamarkaði.

Markmiðið með fræðsluáætluninni er að stuðla að aukinni þekkingu norrænna ungmenna á málefnum neytenda og gera þau hæfari til þess að taka ábyrgð á sínum eigin málum og fjölskyldna í velferðarsamfélagi nútímans. Lögð er sérstök áhersla á sambandið milli neyslu og áhrifa hennar á umhverfi okkar. Ráðherrarnir vona að hin sameiginlega áætlun leiði til aukins áhuga kennara á neytendamálum og á gerð kennslugagna á þessu sviði t.d. með notkun tölvutækni. Stefnt er að því að nota norræna tölvunetið í skólum, sem Norræna ráðherranefndin hefur stutt á undanförnum árum, sem miðil í neytendafræðslu. Einnig er stefnt að því að virkja samstarfskerfi Norræna ráðherraráðsins og evrópskra stofnana í þeim tilgangi að hafa áhrif á þróun mála innan Evrópu á þessu sviði.

Ráðherrarnir ræddu einnig á fundi sínum í Fredensborg um ríkjaráðstefnu þá sem haldin verður á þessu ári um endurmat á samstarfinu innan Evrópusambandsins og forgangsröðun málefna af hálfu Ítalíu sem fer með formennsku í ESB á fyrri helmingi ársins. Meðal áhersluatriða í neytendamálum í evrópusamstarfinu verða dómsleiðir til að greiða úr ágreiningi seljenda og neytenda, aukin neytendavernd en einnig verður sérstaklega fjallað um villandi og varhugaverðar auglýsingar m.a. með tilliti til velferðar barna. Ráðherrarnir fjölluðu um neytendamál í tengslum við framtíð hinna norrænu velferðarsamfélaga en þau mál verða meðal umræðuefna um framtíð velferðarkerfisins á norrænu málþingi í Reykjavík í júní n.k.

Rætt var sérstaklega um framtíð norræna umhverfismerkisins á neytendavörum með hliðsjón af hliðstæðri merkingu á Evrópska efnahagssvæðinu. voru ráðherrarnir einhuga um að halda þeirri forystu sem Norðurlandaþjóðir hafa í neytendamálum í evrópusamstarfinu. Sérstaklega var rætt um stuðning Norðurlanda við þróun neytendamála í grannlöndunum í austri og samþykktar aðgerðir í því sambandi.

Frekari upplýsingar veitir Tryggvi Axelsson deildarstjóri í viðskiptaráðuneytinu.

Reykjavík, 25. janúar 1996

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum