Hoppa yfir valmynd
19. mars 1996 Matvælaráðuneytið

Endurskoðun eignaraðila á Landsvirkjun

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 7/1996




Borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri hafa formlega lagt til við Finn Ingólfsson, iðnaðarráðherra, að eignaraðilar að Landsvirkjun taki upp viðræður um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki fyrirtækisins. Landsvirkjun hóf rekstur á árinu 1965. Eignaraðild að fyrirtækinu er nú þannig að ríkið á 50% í fyrirtækinu, Reykjavíkurborg 44,5% og Akureyri um 5,5%.

Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að verða við framangreindri tillögu sameignaraðila ríkisins að Landsvirkjun og skipað sérstaka viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun til þess að ræða eignarhald, rekstrarform og hlutverk fyrirtækisins.

Viðræðunefndina skipa eftirtaldir aðilar: Af hálfu ríkisins: Halldór J. Kristjánsson, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sem er formaður nefndarinnar og Guðmundur Jóhannsson, viðskiptafræðingur, í fjármálaráðuneyti. Samkvæmt tilnefningu Borgarráðs Reykjavíkurborgar: Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi. Samkvæmt tilnefningu bæjarráðs Akureyrarbæjar: Jakob Björnsson, bæjarstjóri og Sigurður J. Sigurðsson, bæjarfulltrúi. Halldór Jónatansson, forstjóri Landsvirkjunar mun starfa með nefndinni.

Viðræðunefndin átti sinn fyrsta fund í Reykjavík í gær 18. mars 1996 og ákvað viðræðunefndin að fá hina virtu bandarísku fjármálastofnun J P Morgan til að vera eignaraðilum til ráðgjafar um mat á áhrifum mismunandi rekstrarforms á stöðu Landsvirkjunar á alþjóðlegum mörkuðum og varðandi mat á verðmæti eignarhluta í fyrirtækinu.

Reykjavík, 19. mars 1996

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum