Hoppa yfir valmynd
20. mars 1996 Matvælaráðuneytið

Markaðssetning íslenskra verðbréfa erlendis

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 8/1996




Starfshópur sem viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson skipaði síðastliðið haust til að gera tillögur um hvernig staðið skuli að markaðssetningu innlendra verðbréfa meðal erlendra fjárfesta hefur lokið störfum og skilað ráðherra áliti sínu og tillögum.

Í starfshópnum voru:
Ólafur Ísleifsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands, formaður,
Benedikt Árnason, hagfræðingur, tilnefndur af viðskiptaráðuneyti,
Finnur Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða,
Gunnar Helgi Hálfdanarson, forstjóri, tilnefndur af Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja,
Jón Þ. Sigurgeirsson, deildarstjóri í alþjóðadeild Seðlabanka Íslands,
Stefán Halldórsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Verðbréfaþingi Íslands,
Þórhallur Arason, skrifstofustjóri, tilnefndur af fjármálaráðuneyti,
Arnór Sighvatsson, deildarstjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands, ritari.

Helstu ábendingar starfshópsins eru þessar:

  • Kynna þarf með markvissum hætti íslensk verðbréf í helstu upplýsingakerfum sem fjárfestar styðjast við. Að þessu er þegar unnið, m.a. af hálfu Verðbréfaþings Íslands.
  • Bæta þarf úr skorti á upplýsingum á prentuðu formi fyrir erlenda aðila um verðbréfamarkaðinn hér á landi.
  • Ýmis tengsl íslenskra fjármálastofnana og -fyrirtækja við erlend fjármálafyrirtæki geta komið að gagni við að auka við kynningu meðal erlendra aðila á innlendum markaði og væri vert að auka samstarf og upplýsingamiðlun á þessu sviði.
  • Hugsanlegt er að kynna megi og selja erlendum fjárfestum íslensk verðbréf í gegnum fjárfestingarsjóð í verðbréfum á vegum verðbréfafyrirtækja, Íslandssjóð, skráðum á erlendu verðbréfaþingi og mynduðum af hlutabréfum íslenskra atvinnufyrirtækja.
  • Bæta þarf seljanleika íslenskra verðbréfa m.a. með því að efla viðskiptavakt, eins og þegar er unnið að og með því að fækka verðbréfaflokkum og stækka.
  • Stofnun verðbréfamiðstöðvar og breyting yfir í pappírslaus viðskipti með stöðluð verðbréf væru þýðingarmikil skref í þá átt að laga umhverfi markaðarins að kröfum sem nú eru yfirleitt gerðar af hálfu erlendra fjárfesta.
  • Huga þarf að aðgerðum til að þróa þá markaði sem tekið er að örla á fyrir fjármálalega samninga á sviði afleiðuviðskipta og sem eru forsenda þess að skapa fjárfestum skilyrði til að verjast áhættu vegna vaxta- eða gengisbreytinga.
  • Efla þarf hlutabréfamarkaðinn m.a. með því að auka framboð og fjölbreytileika bréfa. Fjölgun skráðra fyrirtækja á markaði, m.a. með markvissri áætlun um breytingu á opinberum fyrirtækjum á ýmsum sviðum yfir í almenningshlutafélög, væri þýðingarmikið skref í þessa átt.
  • Eftir því sem óverðtryggðum verðbréfum vex fiskur um hrygg á innlendum markaði og hlutabréfamarkaður eflist skapast auknir möguleikar á að bjóða erlendum fjárfestum verðbréf af því tagi sem þeir eiga helst að venjast og eru líkleg til að vekja áhuga þeirra.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Ísleifsson í síma 569 9600.

Reykjavík, 20. mars 1996

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum