Hoppa yfir valmynd
19. apríl 1996 Matvælaráðuneytið

Endurskoðun Orkulaga

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 11/1996




Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að endurskoða löggjöf um vinnslu, flutning og dreifingu orku. Meginmarkmiðið með þessari endurskoðun er að leggja grunn að hagkvæmri frambúðarskipan í orkumálum þjóðarinnar, meðal annars með það að leiðarljósi að auka skilvirkni í starfsemi á orkusviðinu, auka samkeppni, þó þannig að hún stuðli að jöfnun orkuverðs, tryggja gæði þjónustu sem og auka sjálfstæði orkufyrirtækja og ábyrgð stjórnenda.

Til að vera iðnaðarráðuneytinu til ráðuneytis við endurskoðun á lögunum hefur ráðherra ákveðið að skipa ráðgjafarnefnd. Leitað var eftir tilnefningu í nefndina frá þeim stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Akureyrarbæ, Reykjavíkurborg, Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Samorku, Orkustofnun, Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins. Tilnefningar hafa nú borist og hefur Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, verið skipaður formaður nefndarinnar.

Verkefni nefndarinnar verða meðal annars:

1. Að vera iðnaðarráðuneytinu til ráðgjafar við endurskoðun þeirra kafla Orkulaga sem fjalla um vinnslu raforku, um vinnslu jarðhita, um héraðsrafmagnsveitur, um hitaveitur, um Rafmagnsveitur ríkisins og um orkusjóð sem og sérlaga um einstök orkufyrirtæki. Í þessu skyni er nefndinni meðal annars falið að taka saman yfirlit um helstu sjónarmið sem hún telur að eigi að liggja til grundvallar við umrædda endurskoðun.

2. Að vera ráðuneytinu til ráðgjafar varðandi ýmsa aðra þætti, svo sem rekstrarumhverfi orkufyrirtækja, eftirlit með einokunarþætti í starfsemi fyrirtækjanna og fjármögnun endurnýjunar dreifikerfis raforku í sveitum.

3. Að fylgjast með og annast eftir því sem við á faglegar úttektir á mikilvægum þáttum í skipan orkumála, svo sem varðandi skipulagsmál, aðgreiningu vinnslu, flutnings og dreifingar orku og mat á kostum og göllum mismunandi rekstrarforma orkufyrirtækja.

Nánari upplýsingar gefur Árni Magnússon, aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í síma 560 9070.

Reykjavík, 19. apríl 1996.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum