Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 1997 Matvælaráðuneytið

Veiðar með smáfiskaskilju á Breiðdalsgrunni. 06.02.97

FRÉTTATILKYNNING

Veiðar með smáfiskaskilju á Breiðdalsgrunni


Dagana 30.-31. janúar s.l. fór fram á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar könnun á svæði á Breiðdalsgrunni þar sem tog- og línuveiðar hafa verið bannaðar síðan í september 1995. Í ljósi niðurstaðna þeirrar könnunar hefur Hafrannsóknastofnunin lagt til, að í tilraunaskyni verði til 1. maí 1997 leyfðar togveiðar á umræddu svæði, enda verði smáfiskaskilja notuð við veiðarnar.

Í samræmi við þessa tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar hefur ráðuneytið í dag gefið út reglugerð, sem heimilar togveiðar á þessu svæði með smáfiskaskilju. Tekur reglugerðin gildi 11. febrúar og gildir til loka apríl n.k. Svæðið markast af línum sem dregnar, eru milli eftirgreindra punkta:
                    1. 64°05'76 N - 13°14'40 V
                    2. 64°17'65 N - 13°21'10 V
                    3. 64°33'00 N - 13°23'00 V
                    4. 64°33'00 N - 12°40'00 V
                    5. 64°25'00 N - 12°34'00 V
                    6. 64°16'00 N - 12°46'80 V
                    7. 64°08'00 N - 13°02'55 V
Jafnhliða þessu hefur ráðuneytið gefið út reglugerð um gerð og útbúnað smáfiskaskilju. Í reglugerð þessari segir, að séu togveiðar á ákveðnu svæði bundnar því skilyrði, að varpan sé útbúin smáfiskaskilju, sé aðeins heimilt að nota þá gerð smáfiskaskilja, sem ráðuneytið hefur viðurkennt, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar. Skal ráðuneytið birta sem viðauka með reglugerðinni, hvaða gerðir smáfiskskilja eru viðurkenndar og hvernig þeim skuli komið fyrir í vörpunni. Samkvæmt þeim viðauka, sem fylgir reglugerðinni nú, hefur aðeins ein gerð smáfiskaskilju; "SORT-X" verið viðurkennd og er í viðaukanum ítarleg lýsing á gerð hennar og frágangi í vörpunni. Ráðuneytinu er hins vegar kunnugt, að tilraunir hafa verið gerðar með aðrar gerðir smáfiskaskilja, en þær gerðir hafa ekki verið teknar út af Hafrannsóknastofnuninni enn. Mæli Hafrannsóknastofnunin með því að notkun annarra gerða smáfiskskilja verði leyfð mun ráðuneytið gefa úr frekari viðauka við reglugerðina.

Þá eru ákvæði í reglugerðinni um að skipstjóri togskips, sem hyggst halda til veiða á svæði þar sem notkun smáfiskaskilju er áskilin, skuli tilkynna ætlan sína til Landhelgisgæslunnar ekki fyrr en 4 klst. og ekki síðar en 2 klst. áður en veiðar hefjist. Þá skal hann tilkynna til Landhelgisgæslunar þegar veiðum á svæðinu lýkur.
    Sjávarútvegsráðuneytið
    6. febrúar 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum