Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 1997 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttatilkynning nr. 20/1997. Viðurkenning til ríkisstofnunar fyrir árangur í starfi

Í september s.l. skipaði fjármálaráðherra nefnd til að veita viðurkenningu til ríkisstofnunar sem skarar fram úr og er til fyrirmyndar í starfi sínu. Er þetta í annað sinn sem þetta er gert. Í apríl 1996 hlaut Kvennaskólinn í Reykjavík þessa viðurkenningu er hún var veitt í fyrsta sinn.

Í nefndinni eru Páll Kr. Pálsson forstjóri Nýsköpunarsjóðs, formaður, Arney Einarsdóttir framkvæmdastjóri Gæðastjórnunarfélags Íslands, Erna Gísladóttir framkvæmdastjóri Bifreiða- og landbúnaðarvéla hf., Kristinn Briem blaðamaður við viðskiptablað Morgunblaðsins og Svafa Grönfeldt, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjá starfsmannaráðgjöf GALLUP.

Að þessu sinni verður valið úr hópi stofnana sem lagt hafa inn umsóknir um viðurkenningu og lýst helstu atriðum í starfseminni sem þær telja til fyrirmyndar. Úr þessum hópi verða síðan valdar 5-8 stofnanir sem skoðaðar verða nánar og loks hlýtur ein þeirra verðlaun. Stefnt er að verðlaunaafhendingu í lok febrúar næstkomandi.

Veiting viðurkenningar til ríkisstofnunar er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um nýskipan og árangursstjórnun í ríkisrekstri. Auknar kröfur eru nú gerðar um árangur í starfi stofnana samtímis og sjálfstæði þeirra er aukið. Lögð er áhersla á að stofnanir setji sér skýr markmið og geri síðan grein fyrri því hvernig tekist hefur að ná þeim.

 


 

Fjármálaráðuneytinu 17. nóvember 1997.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum