Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 1997 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttatilkynning nr. 21/1997. Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri stofnana ríkisins

Ríkisstjórnin hefur samþykkt stefnu um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri stofnana ríkisins. Hún felur í sér að stofnun, sem stundar umtalsverðan samkeppnisrekstur, skal aðgreina hann fjárhagslega frá öðrum rekstri sínum. Fjármálaráðuneytið hefur nú gefið út rit um fjárhagslegan aðskilnað og gefið út fyrirmæli til stofnana ríkisins þar að lútandi.

Í 14. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 er samkeppnisráði heimilað að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað milli starfsemi sem er í samkeppni og annarrar starfsemi, ef fyrirtæki, sem starfar í skjóli opinberrar verndar, starfar jafnframt í frjálsri samkeppni við aðra. Á undanförnum árum hafa samkeppnisyfirvöld gert athugasemdir við samkeppnisstarfsemi á vegum stofnana ríkisins. Með því að marka skýra stefnu um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri ríkisstofnana er brugðist við þessu. Markmið stefnunnar er að:

  • Stuðla að jafnræði í samkeppni einkafyrirtækja og ríkisstofnana.
  • Gera allan kostnað við samkeppnisstarfsemi á vegum ríkisins sýnilegan til að auðvelda mat á því hvort henni verði betur sinnt af einkafyrirtækjum.
  • Efla kostnaðarvitund í stofnunum og auka hagkvæmni opinbers rekstrar.

Fjármálaráðuneytið hefur nú gefið út umburðarbréf þar sem eru fyrirmæli um að umfang samkeppnisrekstrar eigi að ráða því hversu langt skuli ganga í fjárhagslegum aðskilnaði. Eftirfarandi beri að leggja til grundvallar:

  1. Séu tekjur samkeppnisrekstrar lægri en 5 m.kr. á ári og markaðshlutdeild minni en 5% af skilgreindum markaði, þarf fjárhagslegur aðskilnaður ekki að koma til en í þess stað skal miða verðlagningu þjónustu við það sem gerist hjá keppinautum.
  2. Ef tekjur stofnunar af samkeppnisrekstri eru á bilinu 5-50 m.kr. eða markaðshlutdeild þess rekstrar er á bilinu 5-15% af skilgreindum markaði, skal fara fram fjárhagslegur aðskilnaður í bókhaldi milli samkeppnisrekstrarins og annarrar starfsemi stofnunarinnar.
  3. Ef tekjur stofnunar af samkeppnisrekstri eru hærri en 50 m.kr. eða markaðshlutdeild þess rekstrar er meiri en 15% af skilgreindum markaði, skal fara fram fjárhagslegur og stjórnunarlegur aðskilnaður milli samkeppnisrekstrarins og annarrar starfsemi stofnunarinnar.

Gert er ráð fyrir að fjárhagslegur aðskilnaður samkeppnisrekstrar og annars rekstrar verði kominn að fullu til framkvæmda í reikningshaldi ríkisstofnana eigi síðar en í ársbyrjun 1999. Ríkisbókhald og Ríkisendurskoðun munu hafa á hendi eftirlit með framkvæmdinni.

Fjármálaráðuneytinu 25. nóvember 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum