Hoppa yfir valmynd
30. desember 1997 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttatilkynning nr. 23/1997. Samningur um aðlögun landskerfa vegna ártalsins 2000

Að undanförnu hefur mikið verið rætt á alþjóðavettvangi um að ýmis tölvukerfi muni ekki fara rétt með ártöl við upphaf nýrrar aldar. Algengasta ástæðan er sú að fyrrum létu menn sér duga tvö sæti fyrir ártal (97 fyrir 1997) í forritum og gagnaskrám, en þar með verður ógjörningur að greina hvort ártal eins og 00 þýðir 1900 eða 2000. Eins getur útkoma orðið röng ef raðað er í tímaröð eftir síðustu tveimur stöfum ártals. Önnur ástæða er sú að reikniformúlur í forritum, til dæmis fyrir vaxtareikning, fara ekki rétt með ártöl nýrrar aldar. Fleira mætti telja en ofantalin dæmi nægja væntanlega til að varpa ljósi á vandann sem við er að etja. Á vegum íslenska ríkisins eru rekin fjölmörg tölvukerfi. Hin stærstu þeirra eru í umsjá Skýrr hf., sem áður hét Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar. Skýrr hf. og fjármálaráðuneytið hafa í dag undirritað samning um breytingar og prófanir á þessum kerfum vegna ártalsins 2000. Samningurinn tekur til 17 kerfa en fjöldi einstakra forrita skiptir þúsundum.

Eftir breytingar eiga öll kerfin að vinna rétt með gögn sem innihalda tíma og dagsetningar, þar með talið útreikninga, samanburð og röðun fyrir og eftir árið 2000, sem og útreikninga vegna hlaupára. Auk þess að greina og forrita breytingarnar verða þær prófaðar við sem raunhæfust skilyrði. Breytingum á að vera lokið fyrir árslok 1998, en árið 1999 verður notað til prófana.

Skýrr hf. tekur á sig allan kostnað vegna leiðréttinga á villum sem upp kunna að koma til ársloka 2001. Öll vinna hugbúnaðardeildar Skýrr hf. verður unnin samkvæmt vottuðu ISO 9000 gæðakerfi.

Upphæð samningsins er 64,5 milljónir króna. Fjármögnun verður með eftirfarandi hætti: Í fjárlögum 1998 er gert ráð fyrir 25 m.kr. framlagi til þessa verks. Sótt verður um fjárveitingu í fjárlögum 1999 fyrir um um 20 m.kr. Mismuninn munu einstakar stofnanir bera sjálfar.

Með þessum samningi, sem væntanlega er hinn fyrsti sinnar tegundar hér á landi, hefur það verið tryggt með góðum fyrirvara að breytingum á öllum helstu tölvukerfum ríkisins verði lokið þannig að þau verði starfhæf og örugg fyrir aldamót. Með því að semja um öll kerfin í einu næst veruleg hagkvæmni.

Samningur þessi tekur ekki til kerfa sem ríkisstofnanir reka á eigin vegum. Það er á ábyrgð hverrar stofnunar að ljúka nauðsynlegum breytingum í tæka tíð. Í þessu sambandi má benda á leiðbeiningar sem bæði Ríkisendurskoðun og Ráðgjafanefnd um upplýsinga- og tölvumál (RUT-nefnd) hafa gefið út um viðbrögð við framangreindum aldamótavanda.

Fjármálaráðuneytinu 30. desember 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum