Hoppa yfir valmynd
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ósnortin víðerni - niðurstaða starfshóps

Niðurstaða starfshóps um hugtakið ósnortið víðerni


Skilgreining hugtaksins ósnortið víðerni:

Ósnortið víðerni er landsvæði
- þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa,
- sem er í a.m.k. 5 km. fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, s.s. raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum (sbr. vegalög),
- sem er a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu.


Greinargerð og nánari skýringar:
Meginmarkmið með skilgreiningu og afmörkun ósnortinna víðerna er að varðveita svæði þar sem náttúran ræður ríkjum og maðurinn kemur þangað eingöngu sem gestur. Í þeim tilgangi er nauðsynlegt að draga úr ummerkjum um mannvist eins og kostur er. Takmarka þarf vélknúna umferð og stefna markvisst að fækkun slóða og skála á svæðinu. Til að byrja með telur þó starfshópurinn að slóðar og skálar eigi ekki að koma í veg fyrir að svæði verði lýst ósnortið víðerni. Hins vegar er lagt til að gerð verði áætlun um fækkun slóða og skála, þegar svæði verða nánar afmörkuð og settar reglur um umgengni þar.
Ljóst er að ósnortin víðerni þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og tilgangur með svæðunum og stýring þeirra verða að falla að ákveðnum markmiðum.

Skilyrði:
- Maðurinn hefur ekki bein áhrif á ásýnd lands eða lífríki, býr ekki þar eða nytjar beint.
- Dreifing plantna og lífvera er óheft og ræðst ekki af athöfnum mannsins.
- Umferð er haldið innan þeirra marka að skaðleg áhrif verði sem minnst, t.d. með einfaldri merkingu göngu-, reið- og/eða akleiða - eftir eðli, stærð og staðsetningu svæða.
- Framkvæmdum og/eða mannvirkjum er haldið utan svæða, nema hugsanlega í þeim tilgangi að halda áhrifum umferðar í lágmarki.

Markmið með varðveislu ósnortinna víðerna:
- Að taka frá samfelld ósnortin svæði fyrir komandi kynslóðir.
- Að tryggja óhefta þróun náttúru samkvæmt eigin lögmálum um ókomin ár.
- Að viðhalda samfelldum og ósnortnum svæðum til útivistar, rannsókna og fræðslu.
- Að tryggja og treysta ímynd Íslands sem óspillts lands með óspillta náttúru.


Starfshópurinn bendir á eftirfarandi leiðir sem næstu skref í afmörkun og verndun ósnortinna víðerna:

Leiðir:
- Afmörkuð verði landssvæði, sem eru einkennandi fyrir íslenskt landslag og náttúrufar og eru enn lítt snortin eða óröskuð, sbr. skilyrði hér að ofan.
- Settar verði reglur um verndun þeirra, er miða að stýringu í átt að settum markmiðum.
- Aflað verði upplýsinga um svæðin, jarðfræði, lífríki og núverandi nýtingu, og þær upplýsingar nýttar til stýringar, rannsókna og fræðslu.


Nánari skýringar um hvað má og hvað ekki innan ósnortins víðernis:

1. Mannvirki, sem leyfð eru innan ósnortinna víðerna, skulu vera þannig gerð að mögulegt sé að fjarlægja þau og afmá ummerki eftir þau. Rústir og fornminjar, þar sem mjög lítil ummerki eru um mannvist, þurfa ekki að koma í veg fyrir að svæði sé skilgreint sem ósnortið víðerni. Gangnamannakofar og sæluhús, sem eru innan svæðis þegar það er lýst ósnortið víðerni, geta fengið að vera, en slík hús ber að mála í jarðlitum. Skálar í einkaeign, sem heimild er fyrir, eiga heldur ekki að koma í veg fyrir að svæði verði skilgreint sem ósnortið víðerni, en eigendur þeirra verða skilyrðislaust að lúta reglum um stærð, útlit, umgengni og umferð. Ekki á að leyfa nýja skála nema þá sæluhús fyrir göngufólk og þá ekki á áberandi stöðum eða þar sem um sérstakar náttúruperlur er að ræða.

2. Akstur verði takmarkaður um ósnortin víðerni eins og frekast er kostur. Gangnamönnum verði heimill akstur að sæluhúsum og gangnamannakofum meðan á göngum stendur. Heimilt verði að veita undanþágur vegna viðhaldsverkefna og rannsókna, ef flytja þarf efnivið og tæki á vettvang. Sérstakar reglur verður að setja um akstur á snjó. Umferð vegna veiðiskapar skal miðuð við brýnustu nauðsyn vegna flutninga með afla eða bráð, t.d. við hreindýraveiðar.

3. Fara ber varlega í að merkja göngustíga. Leggja skal áherslu á útgáfu góðra korta um svæðin og hafa vegvísa einfalda og lítt áberandi. Skilti með upplýsingum skulu vera einföld og á vel völdum stöðum.

4. Ef nauðsynlegt er vegna öryggis að hafa göngubrýr skal hafa þær eins einfaldar og kostur er.

5. Girðingar verði fjarlægðar.

6. Raflínur mega ekki sjást og fjarlægja ber leifar af símalínum.

7. Fjarskiptaloftnet á fjöllum verður að leyfa vegna öryggismála, en þau á að hafa eins lítið áberandi og frekast er kostur.

8. Lendingarstaðir flugvéla eiga ekki að vera merktir eða valtaðir innan þessara svæða. Af öryggisástæðum þurfa þeir þó að vera kunnir flugmönnum og leyfilegt að lenda, ef nauðsyn ber til.

9. Gamlir reiðvegir fá að halda sér, en gæta skal varúðar, ef þörf er talin á mörkun nýrra leiða.

10. Sértækar reglur í anda sjálfbærrar þróunar eiga að gilda um hvers konar nytjar, s.s. beit eða veiðiskap.

11. Fiskirækt í ám og vötnum er óheimil innan ósnortinna víðerna.

12. Landgræðsla og gróðursetning eiga ekki heima innan ósnortinna víðerna. Þó er heimilt að veita undanþágu vegna aðgerða, sem miða að því að hefta jarðvegseyðingu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira