Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 1998 Dómsmálaráðuneytið

Lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum vegna fyrstu skýrslu Íslands

Fréttatilkynning



Dómsmálaráðuneytinu hafa borist lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum vegna fyrstu skýrslu Íslands um samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 10. desember 1984 sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 21. október 1996.
Nefndin gegn pyndingum ræddi efni fyrstu skýrslu Íslands um framkvæmd samningsins hér á landi á fundi með fulltrúum Íslands sem haldinn var í Genf í Sviss þann 12. nóvember síðastliðinn. Íslenska sendinefndin var skipuð Benedikt Jónssyni sendiherra, Þorsteini Geirssyni ráðuneytisstjóra í dómsmálaráðuneytinu, Björgu Thorarensen skrifstofustjóra í ráðuneytinu og Hauki Ólafssyni sendifulltrúa

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 19. nóvember 1998.


__________________


[Þýðing úr ensku]



Niðurstöður og tilmæli
nefndar gegn pyndingum
(óbreytt gerð)


Ísland


1. Nefndin fjallaði um upphafsskýrslu Íslands (CAT/C/37/Add.2) á 350., 351. og 357. fundi sínum 12. og 17. nóvember 1998 (CAT/C/SR.350, 351 og 357), og hefur samþykkt eftirfarandi niðurstöður og tilmæli:

A. Inngangur


2. Nefndin þakkar ríkisstjórn Íslands hina opinskáu samvinnu sína, og fulltrúa hennar fyrir uppbyggilegar viðræður. Hún telur að upphafsskýrsla þessa aðildarríkis samræmist að fullu hinum almennu skýrslugerðarleiðbeiningum nefndarinnar og veiti greinargóðar upplýsingar um framkvæmd hverrar einstakrar greinar samningsins.

B. Jákvæð atriði


2. Nefndinni er ánægja að nefna að Ísland hefur fært fram þær yfirlýsingar sem nauðsynlegar eru til að viðurkenna hæfi nefndarinnar samkvæmt 21. og 22. gr. samningsins.

3. Henni er einnig ánægjuefni að breytingar þær sem gerðar voru á stjórnarskránni 1995 auka mannréttindavernd, og sérstaklega að með þeim er komið á algeru banni við pyndingum.

4. Að lokum lofar nefndin íslensk yfirvöld fyrir setningu laga og reglna um réttindi handtekinna manna, lögregluyfirheyrslur og vernd manna sem lagðir eru á geðsjúkrahús gegn vilja sínum.

C. Áhyggjuefni


5. Nefndinni er það áhyggjuefni að pyndingar eru ekki taldar vera sérgreint afbrot í refsilöggöf aðildarríkisins.

6. Hún lítur á sama hátt á það að einangrunarvistun skuli vera beitt, sérstaklega sem fyrirbyggjandi ráðstöfun við varðhald á undan dómsmeðferð.

D. Tilmæli


7. Nefndin mælist til þess,

a) að kveðið verði á um pyndingar sem sérgreint afbrot í íslenskri refsilöggjöf,

b) að íslensk yfirvöld endurskoði reglur um einangrunarvistun meðan á varðhaldi stendur fyrir dómsmeðferð, í því skyni að fækka verulega þeim tilvikum þar sem einangrunarvistun kann að eiga við,

c) að löggjöf um sönnunarfærslu í dómsmálum verði aðlöguð ákvæðum 15. gr. samningsins, með því að útiloka berum orðum allar upplýsingar fengnar með pyndingum,

d) að skýrt verði frá höftum sem beitt er í geðsjúkrahúsum í næstu reglulegu skýrslu Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum