Hoppa yfir valmynd
12. júlí 1999 Dómsmálaráðuneytið

Tillögur nefndar um málefni ungra afbrotamanna

Fréttatilkynning

Hinn 17. júlí 1998 skipaði dómsmálaráðherra, að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, samstarfsnefnd ráðuneyta til að fjalla um málefni ungra afbrotamanna og gera tillögur til úrbóta. Hlutverk nefndarinnar var að meta umfang vandans, gera grein fyrir lagareglum sem varða unga afbrotamenn og börn sem hætt er við að stefni á braut afbrota og gera grein fyrir þeim úrræðum sem umræddum börnum bjóðast. Nefndin lauk störfum í maí síðastliðinn og skilaði dómsmálaráðherra skýrslu sinni.

Í nefndinni áttu sæti Benedikt Bogason, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem var formaður nefndarinnar, Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, Davíð Bergmann Davíðsson, unglingaráðgjafi, Guðrún Ögmundsdóttir, deildarstjóri í félagsmálaráðuneytinu, Gunnar M. Sandholt, yfirmaður fjölskyldudeildar Félagsþjónustunnar í Reykjavík, Ragnhildur Arnljótsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytinu og Þorsteinn A. Jónsson, forstjóri fangelsismálastofnunar ríkisins.

Í niðurstöðum nefndarinnar er rætt um ýmsar hliðar vandans og gerðar tillögur til úrbóta. Hér verða niðurstöður nefndarinnar raktar í helstu atriðum:

1. Umfang vandans
Vakin er athygli á því að hér á landi fer ekki fram samræmd og heildstæð skráning á landsvísu á málefnum sem varða afbrot og því eru upplýsingar um afbrot barna ekki aðgengilegar. Nefndin telur mikilvægt að á þessu verði ráðin bót. Nefndin aflaði upplýsinga um afbrot framin af börnum frá embætti Lögreglustjórans í Reykjavík og barnaverndar- og félagsmálanefndum í stærstu umdæmum landsins. Þessar upplýsingar benda til þess að vandinn sé allnokkur, en á grundvelli þeirra er þó ekki hægt að fullyrða hvort hann fari vaxandi eða þróun hans að öðru leyti. Þess skal þó getið að einstaklingum yngri en 18 ára sem dæmdir voru í skilorðsbundið eða óskilorðsbundið fangelsi á síðustu árum hefur fjölgað nokkuð, en þeir voru 44 á árinu 1996, 76 á árinu 1997 og 114 á árinu 1998.

2. Um störf barnaverndarnefndar
Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að lögregla gæti tilkynningarskyldu sinnar þegar hún þarf að hafa afskipti af barni vegna hegðunar þess. Í kjölfarið er mikilvægt að barnaverndarnefnd bregðist við og geri foreldrum kunnugt um málið. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin aflaði virðist framkvæmdin að þessu leyti vera viðunandi. Til að tryggja samræmda framkvæmd og árangur í barnaverndarstarfi á landsvísu er hins vegar lagt til að teknar verði saman leiðbeiningar um fyrstu aðgerðir þegar barn gerist brotlegt við lög.

3. Meðferðarheimili fyrir börn
Gerð er grein fyrir meðferðarheimilum og fjölda rýma, en þau eru 52 hjá Barnaverndarstofu og 4 rými á meðferðarheimilinu Virkinu. Þegar skýrslan var skrifuð biðu 47 börn meðferðar og er gert ráð fyrir því að biðtími geti orðið allt að einu ári. Nefndin telur þörf fyrir stóraukið framboð meðferðarrýma fyrir börn á öllum stigum vistunarúrræða, þ.e. í neyðarvistun, greiningu og á heimilum, sem taka börn til langtímameðferðar. Nefndin telur að fjölga verði meðferðarrýmum um 20-30.

4. Niðurfelling saksóknar
Nefndin telur niðurfellingu saksóknar heppilegt úrræði í sumum tilvikum en varar við óhóflegri beitingu þeirrar heimildar.

5. Skilorðsbundin frestun ákæru og skilorðsdómar
Nefndin leggur til að kannað verði hvort ekki sé unnt að auka stuðning við börn meðan þau sæta eftirliti á skilorðstíma. Þá telur nefndin rétt að kannað verði hvort ekki sé ástæða til að beita eftirliti í auknum mæli og með virkari hætti þegar refsing er skilorðsbundin.

6. Fullnusta fangelsisrefsingar og gæsluvarðhald
Í skýrslu nefndarinnar er gerð grein fyrir samkomulagi Fangelsismálastofnunar og Barnaverndarstofu um að gera föngum yngri en 18 ára kleift að afplána refsingu utan fangelsa með vistun á meðferðarheimili. Nefndin leggur til að áfram verði unnið á þessari braut þannig að unnt verði í öllum tilvikum að komast hjá því að börn afpláni refsingu innan fangelsa með fullorðnum föngum. Þess í stað afpláni þau á viðeigandi meðferðarheimilum jafnvel án tillits til vilja þeirra. Telur nefndin þann kost vænlegri en að komið verði á fót sérstöku fangelsi eða fangelsisdeild fyrir börn. Til að koma í veg fyrir að börn í gæsluvarðhaldi hafi samneyti við eldri fanga telur nefndin koma til álita að Barnaverndarstofu verði falið að vista börn í gæsluvarðhaldi.

7. Heilbrigðisþjónusta við unga afbrotamenn
Nefndin leggur til að samvinna verði aukin meðal heilsugæslu, skóla, Barnaverndarstofu, félagsmálayfirvalda, barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, SÁÁ og annarra stofnana sem veita einstaklingum undir 18 ára aldri heilbrigðisþjónustu. Til að móta þessa samvinnu og gera tillögur leggur nefndin til að settur verði á fót starfshópur með fulltrúum frá framangreindum aðilum.

Dóms og kirkjumálaráðuneytið 1. júlí 1999

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum