Hoppa yfir valmynd
23. september 1999 Matvælaráðuneytið

Ársfundur Norðvestur-Atlantshafsveiðistofnunarinnar, NAFO í september 1999

Fréttatilkynning


Dagana 13. - 17. september 1999 var ársfundur Norðvestur- Atlantshafsveiðistofnunarinnar, NAFO, haldinn í Dartmouth, Nova Scotia.

Á fundinum var m.a. rætt um stjórn rækjuveiða og skiptingu veiðiheimilda á Flæmingjagrunni. Ákveðið var að heildaraflinn yrði sá sami og á þessu ári þ.e. 30.000 tonn. Þá var ákveðið að hefja veiðar á nýju svæði vestur af núverandi veiðisvæði og var heildarafli á því svæði ákveðinn 6.000 tonn. Af þeim fær Kanada 5.000 tonn í sinni hlut sem veidd skulu innan kanadískrar lögsögu en þau 1.000 tonn sem eftir standa skiptast jafnt milli annarra aðildarríkja.

Varðandi stjórn rækjuveiða á Flæmingjagrunni varð niðurstaðan sú að halda áfram sóknarstýringu sem byggir á úthlutun veiðidaga til hvers lands. Af hálfu Íslands var ítrekuð andstaða við þetta fyrirkomulag þar sem það gæfi ekki kost á að mæta nauðsynlegum veiðitakmörkunum með hagkvæmum hætti. Að auki hafi framkvæmd sóknarkerfis á Flæmingjagrunni hafi verið afar ótrúverðug. Tillaga Íslands um að aflamarkskerfi yrði í framtíðinni notað við stýringu veiða á Flæmingjagrunni náði ekki fram að ganga á fundinum, en ákveðið var að fulltrúar aðildarríkja NAFO hittust á aukafundi í lok mars árið 2000 og ræddu kosti þess að taka upp aflamarkskerfi og um hugsanlega skiptingu veiðiheimilda samkvæmt slíku kerfi. Málflutningur Íslands um stjórnun rækjuveiða á Flæmingjagrunni hefur því fengið mjög aukinn hljómgrunn. Til enn frekara marks um þetta er að samstaða var um að rækjuveiðum á hinu nýja veiðisvæði vestur af núverandi veiðisvæði skuli stjórnað með aflamarkskerfi.


Á fundinum var gerð samþykkt um aðgang félagasamtaka að fundum NAFO. Í samþykkt þessari felst að félagasamtök, sem láta sig fiskveiðar og fiskitegundir á NAFO svæðinu varða, koma í framtíðinni til með að hafa heimild til að sitja fundi tveggja af aðal stofnunum NAFO, General Council og Fisheries Commission, sæki þau sérstaklega um það. Ræður einfaldur meirihluti aðildarríkjanna því hvort hverjum og einum félagasamtökum verður heimilaður slíkur aðgangur. Félagasamtökin hafa rétt til að koma að munnlegum yfirlýsingum á fundunum samkvæmt ákvörðun formanns hverju sinni og taka að öðru leyti þátt í störfum fundanna eftir því sem við á. Sendinefnd Íslands lýsti sig mjög andvíga tillögunni og lét bóka mótæli sín og viðvaranir á fundinum.

Sjávarútvegsráðuneytið
23. september 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum