Hoppa yfir valmynd
28. september 1999 Matvælaráðuneytið

Skipun nefndar - Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. 28.09.99

Fréttatilkynning


Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands kemur fram að vinna skuli að sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið.

Í lögum um stjórn fiskveiða eins og þeim var breytt í janúar síðastliðnum er kveðið á um endurskoðun laganna fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001.

Sjávarútvegsráðherra hefur í dag skipað nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða og koma með tillögur til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Nefndinni ber að taka tillit til hagsmuna sjávarútvegsins, byggðanna og almennings í landinu í starfi sínu.

Markmið breytinganna er að ná fram sem víðtækastri sátt landsmanna um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þess skal þó gætt að fórna ekki markmiðum um skynsamlega nýtingu og bætta umgengni um auðlindir sjávar né heldur raska hagkvæmni og stöðugleika í greininni.

Nefndina skipa Friðrik Már Baldursson rannsóknaprófessor við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem jafnframt er formaður, Árni Steinar Jóhannsson, alþingismaður, Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður, Kristján Skarphéðinsson skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, Sighvatur Björgvinsson alþingismaður, Tómas Ingi Olrich alþingismaður og Vilhjálmur Egilsson alþingismaður.

Starfsmaður nefndarinnar er Kristín Haraldsdóttir lögfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu.

Nefndinni er gert að skila niðurstöðum til ráðherra fyrir 1. september árið 2000. Jafnframt skal nefndin, að því marki sem hún telur nauðsynlegt, skila minnisblöðum og/eða áfangaskýrslum til sjávarútvegsráðherra meðan hún er að störfum.

Sjávarútvegsráðuneytið
28. september 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum