Hoppa yfir valmynd
30. september 1999 Matvælaráðuneytið

Aðal inntak ræðu sjávarútvegsráðherra á Fiskiþingi 30.9.1999

Fréttatilkynning


Auknar kröfur neytenda og hvernig íslenskur sjávarútvegur á að bregðast við þeim var aðal inntak ræðu Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á Fiskiþingi í dag. Ráðherra gerði einkum þrjá þætti að umtalsefni; siðareglur fyrir íslenskan sjávarútveg, skilvirkt eftirlit og aðgengilegar upplýsingar.

Kröfur neytenda sjávarafurða eru sífellt að aukast þar sem þeir vilja fá upplýsingar um hollustu, gæði og umgengni um auðlindir hafsins. Kannanir sýna að í nágrannalöndunum er allt að helmingur neytenda orðnir að því sem kallað er pólitískum neytendum. Neytendum sem kaupa vöru á grundvelli siðferðilegra og pólitískra álitaefna.

Siðareglur FAO um ábyrgð í fiskimálum, sem samþykktar voru árið 1995, hafa þegar orðið grunnur að formlegum siðareglum greinarinnar í nokkrum löndum. Ráðherra hefur í dag skrifað Fiskifélaginu formlegt bréf þar sem hann hvetur til þess að Fiskifélagið hafi forgöngu um að atvinnugreinin sjálf útfæri þessar reglur fyrir íslenskan sjávarútveg og geri tillögur um hvernig þeim skuli fylgt eftir.

Stjórnvöld ætla ekki að láta sitt eftir liggja. Þótt eftirlit með framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og framleiðslu sjávarafurða hafi tiltölulega nýlega verið byggt upp með nýjum hætti, þarf að endurskoða það m.a. að skoða að nýju hlutverk Fiskistofu og hlutverk skoðanastofa. Ráðherra ætlar því að láta endurskoða opinbert eftirlit og setur á laggirnar nefnd til að fara yfir þann þátt. Formaður nefndarinnar verður Magnús H. Guðjónsson framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Suðurnesja en aðrir nefndarmenn Gylfi Gautur Pétursson forstjóri Löggildingarstofu, Þórður Ásgeirsson Fiskistofustjóri, Pétur Bjarnason framkvæmdastjóri Fiskifélagsins, Sigurrós Þorgrímsdóttir stjórnmálafræðingur og Kristín Haraldsdóttir lögfræðingur.


Sjávarútvegsráðuneytið hefur unnið að því að koma upp upplýsingaveitu sjávarútvegsins og opnaði ráðherra hana formlega í dag. Veitan fjallar á aðgengilegan hátt um fjölmarga þætti íslensks sjávarútvegs, Tilgangur veitunnar er að allir þeir sem vilja, geti fræðst um fiskveiðistjórnun, vinnslu sjávarfangs og umhverfismál í íslenskum sjávarútvegi. Vonast er til að veitan nýtist öllum þeim sem þurfa að halda fram málefnum íslensks sjávarútvegs. Slóð veitunnar er www.fisheries.is

Reykjavík 30/9 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum