Hoppa yfir valmynd
6. október 1999 Matvælaráðuneytið

9. ársfundur NAMMCO haldinn á Akureyri. 06.10.99

Fréttatilkynning


Nú stendur yfir á Fosshótel KEA, Akureyri 9. ársfundur NAMMCO, Norður-Atlandshafs sjávarspendýraráðsins, og mun honum ljúka föstudaginn 8. október.

Auk aðildarþjóða NAMMCO, Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs, sitja fundinn áheyrnarfulltrúar frá Kanada, Danmörku, Rússlandi, Japan og Sankti Lúsíu auk fulltrúa ýmissa alþjóðastofnana og félagasamtaka.

Ársfundurinn er vettvangur skoðanaskipta um málefni sem varða verndun, rannsóknir og nýtingu sjávarspendýra í Norður-Atlandshafi. Á vegum ráðsins starfa ýmsar nefndir svo sem veiðistjórnunarnefnd, nefnd um veiðiaðferðir auk vísindanefndar ráðsins. Á fundinum verður farið yfir ráðgjöf vísindanefndarinnar, þar á meðal nýja úttekt hennar, um ástand og veiðiþol langreyðarstofnsins við Ísland og óskir um frekari vísindalega ráðgjöf. Ísland mun á grundvelli vísindaráðgjafarinnar gera tillögu um stjórnun og verndun þessa stofns. Þá verður á fundinum farið yfir skýrslur vinnunefnda og innri málefni ráðsins.

Í opnunarræðu sjávarútvegsráðherra á fundinum kom fram að það sé stefna íslenskra stjórnvalda að hefja hvalveiðar eins fljótt og kostur er og að hann geri sér vonir um að yfirstandandi fundur mundi færa Ísland nær því markmiði. Þá sagðist ráðherra sjá fyrir sér að í framtíðinni yrði í auknum mæli tekið tillit til áhrifa sjávarspendýra á stærð mikilvægra fiskstofna við fiskveiðiráðgjöf.

Frekari upplýsingar um fundinn veitir Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu í síma 460-2000 en hún er formaður íslensku sendinefndarinnar á fundinum.
Sjávarútvegsráðuneytið
6. október 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum