Hoppa yfir valmynd
8. október 1999 Matvælaráðuneytið

Nr. 04/1998

Fréttatilkynning frá Landbúnaðarráðuneytinu nr. 4/1998

Um varnir gegn útbreiðslu á smitandi hitasótt í hrossum.


Landbúnaðarráðherra hefur í dag gefið út nýja reglugerð til varnar útbreiðslu á smitandi hitasótt í hrossum samkvæmt tillögum yfirdýralæknis og að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila í hrossarrækt.

Enn er ekki vitað hver er orsök veikinnar. Hún er nú orðin útbreidd í Reykjavík og nágrannabæjum, víða í Árnessýslu og á Akranesi. Ekki er vitað til þess að hún hafi komið upp í öðrum landshlutum.
Smit virðist geta borist með beinum samgangi hrossa og manna en auk þess með óbeinum hætti.

Tilgangur með setningu þessarar reglugerðar er að efla enn frekar varnir gegn því að sjúkdómurinn breiðist víðar út um landið og að hestamennska og önnur starfsemi með hross geti komist í sem eðlilegast horf innan afmarkaðra svæða.

Með reglugerðinni er landinu skipt upp í eftirtalin varnarsvæði:

1. Svæði þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp: Reykjavík, Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Bessastaðahreppur, Mosfellsbær og Árnessýsla.
2. Svæði þar sem sjúkdómurinn hefur komið upp: Akranes.
3. Svæði þar sem smithætta er mikil: Reykjanes sunnan Hafnarfjarðar.
4. Svæði þar sem smithætta er mikil: Kjalarnes- og Kjósarhreppar.
5. Svæði þar sem smithætta er mikil: Borgarfjarðarsýsla, sunnan Skarðsheiðar.
6. Svæði þar sem smithætta er mikil: Rangárvallasýsla, vestan Markarfljóts.
7. Svæði þar sem smithætta er minni: Aðrir kaupstaðir og landshlutar.

Milli varnarsvæða gildir bann við flutningi á hrossum, reiðtygjum og hestaflutningatækjum. Hestamenn og aðrir sem umgangast hross skulu forðast samgang við hross af öðrum svæðum en þeir sjálfir tilheyra, en sé brýn þörf á slíkum samskiptum skulu þeir með ítarlegum sóttvörnum hindra að þeir beri smit á milli svæða.
Innan svæða er hinsvegar heimilt að flytja hross milli húsa, stunda útreiðar og halda uppi annarri starfsemi með hross s.s. tamningum, járningum, reiðnámskeiðum og hestamótum. Hvatt er til að gætt sé ítrasta hreinlætis og tæki er gætu borið smit séu sótthreinsuð.
Heyflutningar eru leyfðir á milli varnarsvæða að uppfylltum ítarlegur reglum um sótthreinsun sem felur í sér grófhreinsun, háþrýstiþvott og úðun með sótthreinsilegi.
Útflutningur á hrossum er sjálfkrafa stöðvaður á meðan óvissa ríkir um orsök veikinnar.
Þá hefur landbúnaðarráðherra ákveðið að koma formlega á starfshópi undir yfirstjórn yfirdýralæknis með þátttöku sérfræðinga, hagsmunaaðila og stjórnvalda til að kanna aðdraganda sjúkdómsins og nauðsynlegar varúðarráðstafanir.

Nánari upplýsingar veitir yfirdýralæknir Sölvhólsgötu 7.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum