Hoppa yfir valmynd
8. október 1999 Matvælaráðuneytið

Nr. 05/1999

Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 5/1999


Óréttmætar ásakanir Samkeppnisráðs
á landbúnaðarráðuneytið

Landbúnaðarráðuneytinu hefur borist álit samkeppnisráðs um samkeppnishömlur við innflutning á blómum. Landbúnaðarráðuneytið telur að framsetning samkeppnisráðs sé villandi og er ósammála túlkun ráðsins á framkvæmd landbúnaðarráðuneytisins á úthlutun á kvótum fyrir innflutning á blómum, sem fer fram skv. samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (nefnt WTO), sem Ísland hefur staðfest og lögum nr. 98/1995 um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Með þeirri lagasetningu ákvað Alþingi tolla á landbúnaðarvörur þ.á.m. blóm, hvaða heimildir landbúnaðarráðherra hefði til að lækka tolla á tilteknum vörum og á hvaða hátt þær heimildir yrðu nýttar.

Þau lög sem Alþingi setti til staðfestingar á samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina staðfestu ákvæði samingsins um aukin alþjóðleg viðskipti með landbúnaðarvörur og tiltekinn rétt einstakra ríkja til að veita landbúnaði sínum þau kjör að gildi landbúnaðarins yrði ekki að engu haft í óheftri samkeppni við niðurgreiddar landbúnaðarvörur á heimsmarkaði. Landbúnaðarráðuneytið getur ekki fallist á þá túlkun samkeppnisráðs að framkvæmd landbúnaðarráðuneytisins á landbúnaðarhluta samningsins um WTO eigi að fara eftir samkeppnislögum umfram áðurnefnda lagabreytingu um framkvæmd samningsins, sem ráðuneytið hefur unnið eftir. Óheftur innflutningur blóma, sem samkeppnisráð er með tilmæli um í sínu áliti, brýtur ákvæði sérlaga um framkvæmd landbúnaðarhluta WTO-samningsins með því að ganga á rétt innlendra framleiðenda í þágu erlendra.

Þá vekur landbúnaðarráðuneytið einnig athygli á að með áðurnefndri lagabreytingu ákvað Alþingi að tollkvótum skuli úthlutað til ákveðins tíma, allt að einu ári í senn. Ennfremur að berist umsóknir um meiri innflutning en sem nemur tollkvóta vörunnar skuli heimilt að láta hlutkesti ráða eða leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og að andvirði þeirra skuli renna í ríkissjóð. Framkvæmd ráðuneytisins hefur að öllu leyti farið eftir ákvæðum laga nr. 98/1995 og stuðst við leiðbeiningar ráðgjafanefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara og er í samræmi við ákvæði landbúnaðarhluta WTO. Nefndin er skipuð fulltrúum frá viðskiptaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu. Nefndin tekur fyrir reglur um inn-og útflutning og hverja einstaka framkvæmd eftir þessum reglum m.a. umræddan blómainnflutning og mælir með tiltekinni málsmeðferð í hverju tilviki.

Samkeppnisráð fullyrðir að landbúnaðarráðuneytið hafi a.m.k. tvívegis litið fram hjá skýrum vísbendingum um ólöglegt samráð tilboðsgjafa og hefði átt að hafna umsóknum um innflutning blóma frá innflytjendum og leita á ný eftir umsóknum og tilboðum í framhaldi af því. Ráðuneytið hafnar fullyrðingum sem þarna eru settar fram um vitneskju ráðuneytisins um samráð og um málsmeðferð og benda má á að það hefur tekið Samkeppnisráð rúmlega ár að komast að niðurstöðu um samráð umræddra fyrirtækja. Að stöðva blómainnflutning til athugunar á meintu ólöglegu samráði hefði valdið markaðslegu tjóni og hefði getað skaðað meira en bætt. Úrræði og refsiákvæði vegna ólöglegs samráðs eru samkvæmt samkeppnislögum og því ekki á valdi landbúnaðarráðuneytisins að beita

viðurlögum við brotum í þeim tilvika þar sem sannast samráð. Væntanlega er það í samræmi við alvarleika á meintu umræddu broti að samkeppnisráð telur engin viðurlög eiga að koma fyrir brotin.

Ráðgjafanefndin lagði til við ráðuneytið að umrædd úthlutun á blómakvótum færi fram og hefur lagt til breytingar á framkvæmd útboðs á innflutningskvótum til að tryggja svo sem unnt er að meint samráð eigi sér ekki stað.
Landbúnaðarráðuneytinu, 31. mars 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum