Hoppa yfir valmynd
12. október 1999 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dreifing aðalnámskrár grunnskóla - apríl 1999

Dreifing aðalnámskrár grunnskóla


Samkvæmt grunnskólalögum setur menntamálaráðuneytið grunnskólum aðalnámskrá. Ný aðalnámskrá fyrir grunnskóla tekur gildi 1. júní 1999 og kemur til framkvæmda í grunnskólum haustið 1999 eftir því sem unnt er og á að vera komin til framkvæmda að fullu innan þriggja ára frá gildistöku samkvæmt auglýsingu nr. 163/1999.

Aðalnámskráin er gefin út í 12 heftum. Sex fyrstu heftin eru þegar komin út en þau eru:Almennur hluti; lífsleikni; íslenska; stærðfræði; íþróttir - líkams- og heilsurækt; listgreinar.

Seinni sex heftin koma út í byrjun maí en þau eru: Samfélagsgreinar; kristin fræði, siðfræði, trúarbragðafræði; heimilisfræði; náttúrufræði; erlend tungumál; upplýsinga- og tæknimennt.

Til þess að flýta dreifingu aðalnámskrárinnar svo sem kostur er, hefur verið ákveðið að senda nú þegar grunnskólum og aðilum sem málið varðar, sex fyrstu heftin en seinni sex heftin jafnskjótt og þau eru öll komin út - væntanlega í byrjun maí.

Skólaskrifstofur hafa góðfúslega orðið við þeim tilmælum menntamálaráðuneytisins að sjá um dreifingu aðalnámskrárinnar hver á sínu svæði. Kann ráðuneytið þeim bestu þakkir fyrir skjót og góð viðbrögð.

Fjöldi eintaka sem sendur er á hverja skólaskrifstofu er miðaður við að viðkomandi sveitarstjórn(ir), skólanefnd(ir) og foreldraráð hvers skóla fái a.m.k. eitt sett og viðkomandi skólaskrifstofa hafi hjá sér nokkur eintök af hverju hefti. Gert er ráð fyrir að senda nægilega mörg eintök af almennum hluta, lífsleikni, íslensku og stærðfræði til að flestir kennarar geti átt eintak af þessum námskrám. Áætlaður fjöldi eintaka af öðrum námskrám á að nægja til að þeir sem kenna þær námsgreinar fái hver sitt hefti. Þeir sem þurfa fleiri eintök eru vinsamlegast beðnir að snúa sér til ráðuneytisins.

Bent er á að námskrárnar eru einnig gefnar út á netinu og eru aðgengilegar á heimasíðu menntamálaráðuneytisins. Slóðin er www.mrn.stjr.is.

(Apríl 1999)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum