Hoppa yfir valmynd
28. október 1999 Matvælaráðuneytið

Heimsókn sjávarútvegsráðherra til Spánar. 28.10.99

Fréttatilkynning


Sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen hélt erindi í Barcelona á Spáni í dag á fundi Spænsk-íslenska verslunarráðsins. Fundurinn er haldinn í tengslum við opinbera heimsókn ráðherra sem er í boði sjávarútvegsráðherra Spánar og hefst formlega í Madrid n.k. mánudag.

Fjallaði ráðherra um mikilvægi viðskipta milli landanna þar sem 5% af vöruútflutningi Íslendinga er til Spánar. Stærsti hlutinn er sjávarafurðir eða 95% en á Spáni er stærsti saltfiskmarkaður Íslands.

Ráðherra ræddi mikilvægi sjálfbærrar nýtingar á auðlindum hafsins sem væri í raun grundvallaratriði í umgengni okkar um fiskimiðin og eina trygging okkar fyrir því að við getum treyst á sjávarútveg sem undirstöðuatvinnugrein í framtíðinni. Árni sagði fiskveiðstjórnunarkerfið byggja á þessari hugmyndafræði og ákvarðanir um veiðar einstakra tegunda grundvölluðust á rannsóknum vísindamanna. Nýting auðlinda hafsins í sátt við umhverfið er því forsenda fyrir lífsafkomu Íslendinga.

Í máli ráðherrans kom einnig fram að ríkissjórn Íslands legði þunga áherslu á að þjóðir heims kæmust að samkomulagi um að hætta að styrkja sjávarútveg. Styrkirnir skekktu samkeppnisstöðu og sköðuðu þjóðir sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi .

Ráðherra skýrði frá sérstöðu íslenskra sjávarafurða þar sem þær væru svo til lausar við ýmis snefilefni. Helsta ógnunin lægi í iðnaðarúrgangi sem bærist í Norðurhöf hvaðan æfa að og gæti mengað hafsvæðið umhverfis Ísland.

Að lokum vék ráðherra að umhverfismerkingum og hinum pólitíska neytanda. Neytendur vilja fá sífellt meiri upplýsingar er lúta að hollustu, gæðum og hvernig stofnar eru nýttir. Árni sagði nauðsynlegt að bregðast við þessum kröfum neytenda. Skilgreiningar mættu ekki vera í höndum þröngra hagsmunahópa heldur þyrftu stjórnvöld og aðrir óvilhallir aðilar að koma að þessu verkefni.

Ráðherra mun kynna sér starfsemi fiskmarkaða í Barcelona og skoða fyrirtæki sem tengjast íslenskum sjávarútvegi á Spáni m.a. með heimsókn til SÍF og SH.
Sjávarútvegsráðuneytið
28. október 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum