Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 1999 Matvælaráðuneytið

Heimsókn Dr. Michael Woods sjávarútvegsráðherra Írlands. 18.11.99

Fréttatilkynning



Írskur ráðherra, Michael Woods, sem fer með málefni hafsins og náttúruauðlinda var í opinberri heimsókn í boði Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra 14.-16. nóvember. Auk funda um sjávarútvegsmál átti ráðherrann fund með Sturlu Böðvarssyni, samgönguráðherra, um öryggismál og fleiri málaflokka er heyra undir samgönguráðuneytið. Heimsótti ráðherrann m.a. Hafrannsóknastofnunina, Fiskistofu, Siglingastofnun Íslands og kynnti sér starfsemi þeirra.

Á fundi írska ráðherrans með sjávarútvegsráðherra var í framhaldi af kynningu á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu rætt almennt um fiskveiðistjórnun, þ.á m. um framsal aflaheimilda og mikilvægi þess að upplýsa neytendur og aðra um fiskveiðistjórnun og ástand stofna. Þá skýrði Árni M. Mathiesen frá ályktun Alþingis um endurupptöku hvalveiða og miklum áhrifum stórra hvalastofna á lífríki hér við land. Jafnframt greindi hann frá sjónarmiðum Íslands í hinu svokallaða díoxínmáli. Þá gerði hann grein fyrir hagsmunum Íslands varðandi túnfiskveiðar og þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi því lútandi.

Við lok heimsóknarinnar undirrituðu ráðherrarnir þrír sameiginlega viljayfirlýsingu um fyrirhugað samstarf ráðuneyta sinna og undirstofnana. Er ráðgert að í framhaldinu verði gerður samstarfssamningur um:
  • að miðla hvor til annars þekkingu og reynslu varðandi stefnumótun um stjórn fiskveiða, hafrannsóknir og þróunarstarf,
  • að skiptast á upplýsingum og kanna möguleika á samstarfi á sviði hafrannsókna og þróunarstarfs (m.a. að því er varðar hafbotnsrannsóknir),
  • að stuðla að auknu fiskeldi í löndunum tveimur,
  • nemendaskipti og gagnkvæmar heimsóknir sérfræðinga og fulltrúa úr atvinnugreininni til þess að bæta meðferð afla,
  • að miðla þekkingu hvor til annars varðandi öryggismál sjómanna, m.a. að því er varðar verðurspár fyrir afmörkuð hafsvæði (kerfi verðurdufla) og staðsetningakerfi skipa.

Sjávarútvegsráðuneytið
18. nóvember 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum