Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 1999 Matvælaráðuneytið

Ársfundur NEAFC í London. 22.-25.11.99

Fréttatilkynning


Í gær fimmtudaginn 25. nóvember lauk átjánda ársfundi NEAFC Norðausturatlantshafsfiskveiðiráðsins sem hófst í London 22. nóvember sl.

23. nóvember var skrifstofa NEAFC formlega opnuð við hátíðlega athöfn að viðstöddum sjávarútvegsráðherrum Íslands, Noregs, Færeyja, Grænlands og Bretlands auk yfirmanns sjávarútvegsmála hjá Evrópusambandinu.

Á fundinum var m.a. fjallað um stjórn veiða á úthafskarfa, makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld. Aðeins náðist á fundinum samhljóða samkomulag um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Þá ákváðu samningsaðilar að halda aukafund á fyrrihluta næsta árs til að fjalla um stjórnun kolmunnaveiða.

Á fundinum var m.a. kynnt ráðgjöf ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðsins um stjórnun veiða á úthafskarfa. Í ráðgjöfinni fólst að haga ætti stjórn veiðanna með þeim hætti að tekið væri tillit til þess að á svæðinu væru í raun tveir karfastofnar. Var gert ráð fyrir að veiðar úr þeim skyldu takmarkaðar við 60 þúsund tonn úr hinum hefðbundna úthafskarfastofni og 25 þúsund tonn úr djúpkarfastofninum, sem úthafskarfaveiðar Íslands hafa að mestu leiti beinst að undanfarin ár. Ísland, Grænland og Færeyjar lögðu á fundinum fram tillögu um stjórn veiða er byggði á þessari ráðgjöf en tillagan hlaut ekki stuðning annarra aðildarríkja NEAFC. Þess í stað kom fram tillaga um einn heildarkvóta úr báðum stofnum uppá 120 þúsund tonn, en það þýðir um 40% meiri veiði en vísindaráðgjöfin hljóðar um. Var tillaga þessi samþykkt á fundinum gegn andmælum Íslands, sem taldi ófært að fallast á tillöguna þar sem hún gengi þvert á tillögur Alþjóðahafrannsóknaráðsins um ábyrgar veiðar úr úthafskarfastofnunum. Ísland lét bóka mótmæli sín við samþykktinni.

Þá var einnig samþykkt tillaga um stjórn veiða á makríl sem Ísland og Rússland mótmæltu. Byggjast mótmæli Íslands á því að ekki er í samkomulaginu tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis.
Sjávarútvegsráðuneytið
26. nóvember 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum