Hoppa yfir valmynd
16. desember 1999 Matvælaráðuneytið

Nr. 14/1999

    Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 14/1999


    Innflutningur á NRF fósturvísum


    Um nokkra hríð hefur verið til athugunar í landbúnaðarráðuneytinu umsókn Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda um heimild til að flytja inn í tilraunaskyni fósturvísa frá Noregi. Fósturvísarnir eru af NRF kúastofni.

    Í lögum um innflutning dýra er kveðið á um takmarkanir sem gæta þarf að við innflutning á dýrum og erfðaefni. Að mati embættis yfirdýralæknis er sú áhætta sem tekin er við innflutning frá Noregi innan ásættanlegra marka hvað sjúkdómaþætti varða, ef skilyrði sem sett eru verða uppfyllt.

    Í umræðum sem orðið hafa í kjölfar umsóknarinnar og í bréfum sem ráðuneytinu hafa borist vegna hennar, hefur verið á það bent að íslensk mjólk og afurðir úr henni séu í fremstu röð í heiminum hvað varðar hreinleika, gæði og hollustu. Þá hefur verið sett fram tilgáta um að efnainnihald mjólkur úr íslenskum kúm geri það að verkum að tíðni ákveðinnar tegundar sykursýki í börnum sé lægri hér á landi en í öðrum löndum þar sem mjólkurneysla er svipuð.

    Í ljósi þessarar umræðu hefur landbúnaðarráðherra ákveðið að skipa þrjá aðila í starfshóp til að meta hvort rétt sé að mjólk úr íslenskum kúm sé sérstök með tilliti til gæða og hollustu. Þá skal hópurinn einnig leggja mat á hvort vænta megi breytinga á þeim þáttum ef umbeðinn innflutningur yrði heimilaður.

    Ráðherra hefur óskað eftir við Landssamband kúabænda og Landlæknisembættið að tilnefna aðila til starfa í hópnum en formaður verður skipaður án tilnefningar. Hópurinn skal leita samráðs við heilbrigðisráðuneytið, Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Háskóla Íslands, yfirdýralækni, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, umhverfisráðuneytið og aðrar stofnanir og samtök ef ástæða þykir til.

    Vegna mikilvægis þessa þáttar fyrir íslenska nautgriparækt verður afgreiðslu umsóknarinnar frestað þar til starfshópurinn hefur skilað niðurstöðu.

    Þá mun landbúnaðarráðuneytið beina því til stofnana sinna að þær skoði áhrif innflutnings, hver á sínu sviði og byggi þannig grunn að þeirri ákvörðun sem tekin verður. Sem eitt skref í þessu máli má nefna að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri mun halda málþing um áhrif innflutnings, snemma á næsta ári.

    Að endingu má geta þess að vegna þeirrar frestunar sem nú er ákveðin hefur ráðuneytið ákveðið að styðja við rekstur einangrunarstöðvar LK í Hrísey. Viðræður þar að lútandi verða teknar upp á næstu dögum.

    Landbúnaðarráðuneytinu, 16. desember 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum