Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2000 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Gildistaka nýrrar aðalnámskrár framhaldsskóla

    Til skólameistara framhaldsskóla


Vísað er til bréfs menntamálaráðuneytisins til skólameistara framhaldsskóla, dags. 25. ágúst sl., vegna gildistöku nýju aðalnámskrárinnar hinn 1. júní 1999. Í bréfinu kom fram að almenni hluti nýju aðalnámskrárinnar hefði tekið gildi frá og með 1. júní 1999 gagnvart öllum nemendum framhaldsskólans, með þeim fyrirvara sem greindur er í auglýsingu nr. 274, dags. 31. mars 1999. Tekið var fram að gildistaka nýju aðalnámskrárinnar breytti ekki námsframvindu nemenda sem þegar væru í námi og að því leyti lykju þeir námi á grundvelli eldri námskrár handa framhaldsskólum.

Eftir að framangreint bréf barst skólameisturum, hefur verið leitað eftir áliti ráðuneytisins á tveimur atriðum, sem snúa að námsframvindu nemenda sem þegar eru í námi. Fyrra atriðið varðar það fyrirkomulag í einstaka framhaldsskólum, að skólasóknarreglur gefi möguleika á að nemendur fái einkunn og/eða einingar fyrir mætingu. Spurt hefur verið hvort slíkt fyrirkomulag teljist hluti af námsframvindu sem leiði til þess að nemendur, sem þegar eru í námi, eigi rétt á því að það fyrirkomulag haldist. Seinna atriðið varðar rétt eldri nemenda bekkjarskóla til endurtökuprófa, þar sem nýja aðalnámskráin heimilar einungis endurtökupróf í tveimur greinum, í stað þriggja samkvæmt eldri námskrá handa framhaldsskólum. Spurt hefur verið hvort það teldist ólögmæt skerðing á námsframvindu eldri nema, ef reglur nýju aðalnámskrárinnar um endurtökupróf yrðu látnar gilda gagnvart þeim.

Varðandi möguleika nemenda á að fá einkunn og/eða einingar fyrir mætingu með tilliti til námsframvindu, þá bendir ráðuneytið á að í eldri námskrá handa framhaldsskólum frá 1990 sagði í 6. tl., c-lið, þar sem fjallað var um réttindi og skyldur nemenda, að skólasókn nemenda mætti meta til einkunnar og/eða námseiningar eftir frekari reglum er skólastjórn setti og staðfest yrði af menntamálaráðuneytinu. Hér var um heimildarákvæði að ræða og þeir framhaldsskólar sem nýttu sér þessa heimild, hafa með því látið skólasókn vera hluta af námsframvindu nemenda. Með hliðsjón af því og þar sem gildistaka nýju aðalnámskrárinnar á ekki að breyta námsframvindu nemenda sem þegar eru í námi, verður að telja að þeir skólar, sem hafa nýtt sér framangreinda heimild og sett skólareglur á grundvelli hennar, verði að láta þær gilda áfram, gagnvart þeim nemendum sem þegar eru í námi.

Varðandi rétt nemenda bekkjarskóla til endurtökuprófa samkvæmt eldri námskrá, þá liggur fyrir að með hinni nýju aðalnámskrá framhaldsskóla er þessi réttur nemenda þrengdur. Verður að telja að þessi réttur sé hluti af námsframvindu nemenda og með sömu rökum og að framan greinir, skulu reglur um endurtökupróf eldri námskrár gilda áfram, gagnvart þeim nemendum sem þegar eru í námi. Tekið skal fram að sömu sjónarmið eiga eftir atvikum við um reglur varðandi lágmarksárangur á prófum.


    (mán, ár)








Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum