Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2000 Matvælaráðuneytið

Fundur í Færeyjum 27.01.00

Fréttatilkynning


Fulltrúar íslenskra og færeyskra stjórnvalda á sjávarútvegssviðinu hittust í Þórshöfn í Færeyjum í gær, 27. janúar 2000. Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra fór fyrir íslensku sendinefndinni en fyrir þeirri færeysku Jörgen Niclasen sem fer með sjávarútvegsmál í Landstjórn Færeyja.

Farið var yfir veiðar Færeyinga í íslenskri lögsögu og veiðar Íslendinga í færeyskri lögsögu á síðasta ári.

Rætt var um möguleika færeyskra skipa til botnfiskveiða í íslenskri lögsögu á þessu ári. Í framhaldi af því var ákveðið að heildarkvóti Færeyinga í íslenskri lögsögu verði óbreyttur 5600 tonn árið 2000. Innan leyfilegs heildarafla Færeyinga var þorskkvótinn aukinn úr 1150 tonnum í 1200 og lúðukvótinn sem veiða skal yfir sumarmánuðina frá 1. júní til 1. sept. var minnkaður úr 150 tonnum í 100. Ákvörðun um heildarafla í öðrum tegundum er óbreytt frá fyrra ári.

Samkomulag var um að framlengja samning þjóðanna um veiðar á uppsjávarfiski. Íslendingar geta veitt kolmunna, 2000 tonn af haustgotssíld og 1300 tonn af makríl í færeyskri fiskveiðilögu á meðan færeysk skip geta veitt kolmunna og loðnu í íslenskri lögsögu.

Samkomulag var um að framlengja loðnusamning ríkjanna fyrir árið 2000. Færeyingar geta samkvæmt honum veitt 30000 tonn af loðnu frá 1. júli 2000 til 30. apríl 2001 þó með fyrirvara um ástand stofnsins.

Ráðherrarnir leggja áherslu á mikilvægi þríhliða samnings Grænlendinga Íslendinga og Færeyinga um framtíðar stjórnun veiða á karfa og grálúðu í NorðVesturAtlantshafi. Voru þeir sammála um að vinna
að lausn óleystra úrlausnarefna í því sambandi.

Samkomulag var um að styrkja þá rannsóknarsamvinnu sem er milli landanna.

Ráðherrarnir skiptust á skoðunum um stjórn fiskveiða, um atvinnugreinina og samvinnu í alþjóðastofnunum. Lögð er áhersla á samvinnu í NAFO, NEAFC og NAMMCO. Þá kom fram vilji til að auka samstarf í hvalveiðimálum.

Rætt var um samvinnu í ICCAT um túnfiskveiðar og voru aðilar sammála um að leyfa tilraunveiðar í lögsögunum.

Þórshöfn
28. janúar 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum