Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Úrskurðir landbúnaðarráðuneytis - til 2008

1/2000 Úrskurður frá 1. febrúar 2000

 

Árið 2000, þriðjudaginn 1. febrúar var í landbúnaðarráðuneytinu kveðinn upp svofelldur

ÚRSKURÐUR

I.

Með bréfi dagsettu 12. nóvember 1999, hefur Helgi Jóhannesson hrl. f.h. B, kært til úrskurðar ráðuneytisins samkvæmt heimild í 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, þá ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 19. október 1999 að neyta forkaupsréttar að 50% hluta jarðarinnar Árnhúsum, Dalabyggð.

Hin kærða ákvörðun var tekin 19. október 1999 og tilkynnt skriflega með bréfi dagsettu 22. október 1999. Kæran ásamt fylgiskjölum barst ráðuneytinu 17. nóvember 1999 og var tekin til úrskurðar eftir að ráðuneytinu höfðu borist andmæli sveitarstjórnar Dalabyggðar með bréfi dagsettu 15. desember 1999 og athugasemdir kærenda dagsettar 27. desember 1999.

II.

Þann 30. september 1999 gerði kærandi kauptilboð í 50% eignarhluta B. S., í jörðinni Árnhúsum, Dalabyggð. Tilboðsverðið var 3.300.000,- staðgreitt og samþykkti Björn tilboðið. Tilboðið var gert með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar.

Þann 1. október 1999 barst sveitarstjóra Dalabyggðar símbréf Fasteignamiðstöðvarinnar ásamt kauptilboði dagsett 30. september 1999. Með bréfi Fasteignamiðstöðvarinnar var leitað eftir því hvort sveitarstjórn samþykkti umrædd aðilaskipti eða hvort hún ætlaði að neyta forkaupsréttar samkvæmt heimild í jarðalögum.

Þann 18. október 1999 fóru C, D og E þess á leit við sveitarstjórn Dalabyggðar að hún aðstoðaði þau við að eignast 50% hlut í jörðinni Árnhúsum í Dalabyggð með því að neyta forkaupsréttar samkvæmt heimild í jarðalögum. Þann 19. október hringdi sveitarstjóri Dalabyggðar, í einn forsvarsmanna B og tjáði honum að þá um kvöldið myndi sveitarstjórn Dalabyggðar hittast og taka ákvörðun um það hvort forkaupsréttar yrði neytt. Með símtalinu var sveitarstjórinn að gefa tilboðsgjöfum tækifæri til að tjá sig um málið. A setti saman bréf þar sem helstu sjónarmiðum tilboðsgjafa var lýst. Var í bréfinu m.a. tekið fram að ekkert væri því til fyrirstöðu að ábúendur á Emmubergi, fengju um ókomna framtíð beitarafnot af jörðinni, án endurgjalds.

Þann 19. október 1999 tók sveitarstjórn Dalabyggðar ákvörðun um að neyta forkaupsréttar að jörðinni með eftirfarandi bókun:

"Forkaupsréttarmál - 50% eignarhluti í jörðinni Árnhúsum. Lögð fram beiðni C, D og E (sic), frá Emmubergi um að hreppsnefnd neyti forkaupsréttar, ásamt greinargerð með beiðninni. Jafnframt lögð fram greinargerð tilboðsgjafa A (sic) f.h. B. Hreppsnefnd Dalabyggðar samþykkir að neyta forkaupsréttar skv. heimild í jarðalögum."

Helgi Jóhannesson hrl. sendi bréf f.h. umbj. sinna B dagsett 25. október sl. þar sem ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar er mótmælt og þess krafist að sveitarstjórn falli þegar frá þeim áformum að neyta forkaupsréttar. Í svarbréfi sveitarstjórnarinnar frá 8. nóvember 1999 er málsatvikum lýst eins og þau líta út frá sjónarhóli sveitarfélagsins. Í bréfi sveitarstjórnar segir m.a.:

"Tryggt eignarhald á landi til ræktunar og beitar er mikilvægur liður í viðgangi búsetu og fer saman við atvinnuhagsmuni sveitarfélagsins. Eignarfyrirkomulag á hlut væntanlegs kaupanda, B., eru með þeim hætti að tæplega verður um frekari íhlutun sveitarfélagsins að ræða. Boð um beitarheimild er því tæpast nægilegt trygging fyrir heimild til beitar eða jarðarbóta þegar til lengri tíma er litið."

Með bréfi dagsettu 12. nóvember 1999 kærði Helgi Jóhannesson hrl. f.h. B þá ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar að neyta forkaupsréttar að 50% eignarhlut í jörðinni Árnhúsum, Dalabyggð til landbúnaðarráðuneytisins með heimild í 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Í bréfinu er þess krafist að ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar verði felld úr gildi.

Með bréfi dagsettu 22. nóvember 1999 var sveitarstjórn Dalabyggðar gefinn kostur á að neyta andmælaréttar í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gefinn frestur til 15. desember 1999.

Með bréfi dagsettu 15. desember 1999 bárust athugasemdir Inga Tryggvasonar hdl. f.h. sveitarstjórnar Dalabyggðar.

Kærendum var síðan gefinn kostur á því að koma að athugasemdum við bréf Inga Tryggvasonar hdl. f.h. sveitarstjórnar Dalabyggðar með bréfi ráðuneytisins dags. 21. desember og barst bréf frá Helga Jóhannessyni hrl. B þann 4. janúar sl.

III.

Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar kemur fram í bókun sveitarstjórnarinnar á fundi 19. október 1999. Í bókuninni kemur fram að á fundinum hafi verið lögð fram beiðni C, D og E, frá Emmubergi um að hreppsnefnd neytti forkaupsréttar, ásamt greinargerð með beiðninni. Jafnframt að lögð hafi verið fram greinargerð tilboðsgjafa A f.h. B. Síðan segir í bókuninni að hreppsnefnd Dalabyggðar samþykki að neyta forkaupsréttar skv. heimild í jarðalögum.

Kærendur krefjast þess að ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 19. október 1999 verði felld úr gildi.

Kröfu sína um að ráðuneytið felli hina kærðu ákvörðun úr gildi byggja kærendur í fyrsta lagi á því að skilyrði til að beita forkaupsréttarákvæðum í jarðalögum skorti í þessu máli. Í annan stað er á því byggt að ákvarðanataka sveitarstjórnar Dalabyggðar og undirbúningur hennar sé haldinn þvílíkum annmörkum að ógilda verði hana með vísan til reglna stjórnsýsluréttarins.

Kærendur telja að túlka verði 1. mgr. 30. gr. jarðalaga þröngt þar sem ákvæðið er undantekning frá hinni mikilvægu reglu um samningsfrelsi, þ.á.m. frelsi til að velja sér viðsemjanda. Við mat á því hvort beiting 30. gr. jarðalaga sé tæk verði að líta til 1. gr. jarðalaga og við túlkun og beitingu forkaupsréttarákvæðisins í 30. gr. verði ávallt að hafa þennan tilgang í huga.

Kærendur telja einnig að það hafi verið hægt að ná þessum tilgangi jarðalaga án þess að sveitarfélagið gripi inn í atburðarrásina með þeim hætti sem gert var og ákvörðun sveitarstjórnar þess vegna ólögmæt eins og á stóð í þessu máli og hljóti því að verða að ógilda hana. Sveitarstjórninni hefði verið í lófa lagið að tryggja beitarafnot af jörðinni, þrátt fyrir eignarhald kæranda að henni, með mun vægari aðgerðum. T.d. hefði mátt þinglýsa kvöð á jörðina þar að lútandi og hefðu kærendur ekki sett sig upp á móti því.

Kærendur telja að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi þverbrotið ýmis ákvæði stjórnsýslulaga við ákvörðunina og undirbúning hennar. Enginn reki hafi verið gerður að því að grennslast fyrir um raunveruleg framtíðaráform kærenda með kaupum á jörðinni, en það hafi sveitarstjórn verið skylt skv. rannsóknarreglunni í 10. gr. stjórnsýslulaga. Vísað er til dóms Hæstaréttar frá 1993 bls. 108. Símtal sveitarstjóra nokkrum klukkustundum fyrir ákvörðunartöku geti ekki talist viðhlýtandi rannsókn málsins. Þá liggi ekkert fyrir að hugur og áform seljanda hafi verið sérstaklega könnuð. Kærendur telja meðalhófsregluna hafa verið þverbrotna við meðferð málsins. Hægt hefði verið að ná tilgangi sveitarfélagsins fram með öðrum aðferðum sem ekki voru eins íþyngjandi og sú sem farin var. Fyrir hafi legið við ákvarðanatökuna að kærendur voru tilbúnir til að samþykkja endurgjaldslaus beitarafnot af jörðinni um ókomna framtíð. Kærendur telja að ekki hafi verið gætt að andmælarétti aðila, kærendum hafi einungis gefist mjög stuttur frestur til að koma að sjónarmiðum sínum í málinu. Sá stutti frestur geti alls ekki talist fullnægjandi. Þá er vakin athygli á því að ekki liggi fyrir í málinu neitt um að afstaða seljanda jarðarinnar hafi verið könnuð áður en ákvörðun var tekin, en kærendum var kunnugt um að hann hafi haft fyrir því gildar ástæður að selja þeim en ekki öðrum jörðina. Það uppfylli ekki skilyrði stjórnsýslulaga að gefa einungis öðrum aðilanum í tvíhliða samningum einungis nokkurra klukkustunda frest til að tjá sig um mál áður en ákvörðun er tekin. Þá telja kærendur að 14. gr. stjórnsýslulaga hafi einnig verið þverbrotin við málsmeðferðina. Að lokum benda kærendur á að eðlilegt hefði verið að sveitarstjórnin hefði með einhverjum hætti gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sem að baki lágu er ákvörðunin var tekin, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga.

IV.

Í athugasemdum sveitarstjórnar Dalabyggðar er þess krafist að staðfest verði sú ákvörðun sveitarstjórnarinnar frá 19. október 1999 að neyta forkaupsréttar að 50% hlut í jörðinni Árnhúsum Dalabyggð.

Því er haldið fram í athugasemdum sveitarstjórnar Dalabyggðar að sveitarstjórnin hafi haft tilgang jarðalaganna að leiðarljósi. Í Dalabyggð sé landbúnaður og úrvinnsla landbúnaðarafurða undirstaða atvinnulífs í sveitarfélaginu. Það sé því mikið hagsmunamál sveitarfélagsins að búa þeim sem landbúnað stunda sem tryggust skilyrði til búskapar. Tilboðsgjafi (kærendur), B er einkahlutafélag og slíkt félag ásamt eignum þess geti gengið kaupum og sölum án þess að sveitarstjórn eða aðrir aðilar geti haft þar áhrif á. Sveitarstjórn taldi því ekki að núverandi eigendur B. gætu tryggt það til frambúðar að ábúendur á Emmubergi hefðu aðgang að og afnot af túni og beitilandi jarðarinnar Árnhúsum. Tilgangi jarðalaga í máli þessu hafi því ekki verið náð með öðrum hætti en þeim að sveitarstjórn neytti forkaupsréttar að umræddum eignarhlut í Árnhúsum.

Einnig segir í athugasemdum Inga Tryggvasonar hdl., f.h. sveitarstjórnar Dalabyggðar að hagsmunum sveitarfélagsins hvað það varðar að treysta búsetu ábúenda á Emmubergi sé mun betur borgið með því að neyta forkaupsréttar í máli þessu heldur en að þinglýsa kvöð ábúenda á Emmubergi á hluta jarðarinnar Árnhúsa eins og vikið er að í stjórnsýslukærunni. Slíkri kvöð verði aldrei jafnað saman við eignarrétt að umræddum jarðarhluta. Kvöð og full eignarráð séu að engu leyti sambærileg. Þrátt fyrir slíka kvöð yrðu ábúendur á Emmubergi alltaf háðir eigendum að umræddum jarðahluta þegar kæmi að einhverju öðru en því sem nákvæmlega væri tilgreint í hinni þinglýstu kvöð, t.d. jarðarbótum eða hugsanlegri mannvirkjagerð á jarðarhlutanum.

Í athugasemdum sveitarstjórnarinnar er síðan sagt að vafalaust sé að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi verið heimilt að neyta forkaupsréttar vegna umrædds jarðarhluta í Árnhúsum, Dalabyggð.

Einnig er vikið að ákvæðum stjórnsýslulaga og segir m.a. í athugasemdum sveitarfélagsins að 10. gr. stjórnsýslulaga er fjallar um rannsóknarregluna hafi verið framfylgt og bent á það að sveitarstjóri Dalabyggðar hafi haft símasamband við forsvarsmann B., áður en sveitarstjórn tók ákvörðun í málinu og honum gefinn kostur á því að koma á framfæri sjónarmiðum tilboðsgjafa m.a. um fyrirætlanir þeirra með kaupum á umræddum eignarhlut í Árnhúsum. Einnig er minnst á það að hugur eða áform seljanda hafi ekki getað haft áhrif á það hvort sveitarstjórn neytti forkaupsréttar eða ekki.

Hvað varðar meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þá fjallar sveitarstjórnin um það í athugasemdum sínum að sveitarstjórin hafi ekki getað tryggt að tilgangi jarðalaga yrði náð í máli þessu með öðrum hætti en að neyta forkaupsréttar að umræddum jarðahluta. Ekki hafi verið um að ræða að fara aðra og/eða vægari leið gagnvart kærendum til að tryggja hagsmuni ábúenda á Emmubergi og um leið hagsmuni sveitarfélagsins.

Sveitarstjórnin bendir einnig á það að forsvarsmönnum kærenda hafi verið gefinn kostur á því að tjá sig um málið áður en ákvörðun var tekin í málinu og andmælaréttur þar með virtur.

Að lokum bendir sveitarstjórnin á það í athugasemdum sínum og mótmælir því sem fram kemur í stjórnsýslukæru að ákvörðun um að neyta forkaupsréttar hafi þegar legið fyrir þegar forsvarsmönnum kærenda var gefinn kostur á að tjá sig í málinu. Um slíkt hafi ekki verið að ræða og ákvörðun um að neyta forkaupsréttar hafi ekki verið tekin fyrr en að lokinni umfjöllun sveitarstjórnar Dalabyggðar að kvöldi 19. október 1999.

V.

Með bréfi ráðuneytisins dagsettu 21. desember 1999 var kærendum gefinn kostur á því að tjá sig um athugasemdir sveitarstjórnarinnar. Bréf kærenda þess efnis barst ráðuneytinu þann 4. janúar sl.

Í bréfi kærenda er m.a. mótmælt að þinglýst kvöð á jörðina, sem myndi tryggja ábúendum að Emmubergi aðgang að túnum og beitilandi, sé ekki nægilegt trygging fyrir því að tilgangi jarðalaga sé náð. Benda kærendur á meðalhófregluna máli sínu til stuðnings.

Varðandi tækifæri sveitarstjórnarinnar til að neyta forkaupsréttar síðar þrátt fyrir að um einkahlutafélag sé að ræða benda kærendur á það að hægt hefði verið að gera það að skilyrði að einstaklingur væri þinglýstur eigandi en ekki einkahlutafélag, eða að hægt hefði verið að þinglýsa kvöð sem myndi binda upphaflega eigendur til að tilkynna sveitarfélaginu ef breyting yrði á eignaraðild að félaginu og sveitarfélaginu í slíku tilfelli gefinn kostur á því að neyta forkaupsréttar í samræmi við ákvæði jarðalaga.

Kærendur mótmæla því einnig sérstaklega að hugur og áform seljanda skipti engu máli við mat á því hvort forkaupsrétti sé beitt. Því samningsaðilar séu tveir þ.e. seljandi og kaupandi, og sveitarfélaginu beri skylda til að kanna hug allra sem koma að málinu.

VI.

Ágreiningi máls þessa er skotið til landbúnaðarráðuneytisins samkvæmt heimild í 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, en samkvæmt nefndri lagagrein er heimilt að skjóta ákvörðunum sveitarstjórna og jarðanefnda til úrskurðar ráðuneytisins innan tiltekins frests. Á heimild þessi við um ákvarðanir nefnda sem teknar eru á grundvelli jarðalaga og á jafnt við um kaupendur og seljendur þeirra fasteigna sem lögin ná yfir og einnig aðra þá er kunna að eiga lögvarða hagsmuni af því að kæra þær stjórnvaldsákvarðanir sem hér um ræðir. Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar um að neyta forkaupsréttar að 50% hlut jarðarinnar Árnhúsum, Dalabyggð er byggð á jarðalögum nr. 65/1976, með síðari breytingum. Í IV. kafla laganna er fjallað um forkaupsrétt sveitarstjórna. Nánar tiltekið segir í 1. mgr. 30. gr. laganna að:

Eigi að selja fasteignaréttindi, sem lög þessi taka til, sbr. 3. gr. á sveitarstjórn þess sveitarfélags þar sem eignin er, forkaupsrétt að þeim, nema um ráðstöfun ættaróðals sé að ræða, sbr. og 35. gr. laga þessara.

Reglan hefur þann tilgang að veita sveitarstjórn kost á að hafa við sölu jarða í sveitarfélaginu áhrif á að þeim verði ráðstafað í samræmi vð hagsmuni sveitarfélagsins og þeirra sem landbúnað stunda, en um tilgang laganna er fjallað í 1. gr. jarðalaga nr. 65/1976 sem hljóðar svo:

Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda.

Í frumvarpi til jarðalaga og athugasemdum við 1. gr. segir m.a.:

Rétt verður að teljast að gefa þéttbýlisbúum og öðrum , sem eftir sækjast, kost á landspildum til ræktunar og útivistar og til að reisa sumardvalarhús.

Reynslan sýnir hins vegar nú þegar, að brýn þörf er á að fylgjast með slíkum ráðstöfunum lands og hafa áhrif á hvar og hvernig landi er ráðstafað á þann hátt. Að öðrum kosti vofir yfir stórfelld röskun á búsetuaðstöðu fólks á dreifbýlissvæðum umfram það, sem þegar er orðið og óeðlileg verðhækkun lands.

Lögum þessum er m.a. ætlað að veita byggðarlögunum meira áhrifavald í þessu efni, styrkja aðstöðu bænda, bændaefna og sveitarfélaga til jarðakaupa, skapa aðstöðu til að fylgjast með öllum ráðstöfunum fasteigna og fasteignaréttinda, utan skipulagðra þéttbýlissvæða og hafa áhrif á verðlag þeirra.

Skv. 1. mgr. 30. gr. jarðalaga fer sveitarstjórn með opinbert vald og þarf því ekki eingöngu að gæta ákvæða 1. gr. jarðalaga um tilgang þeirra heldur einnig ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Tilgangur jarðalaga er eins og sjá má af 1. gr. laganna fyrst og fremst sá að tryggja nýtingu lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða í þágu þeirra er landbúnað vilja stunda og með hliðsjón af hagsmunum sveitarfélaga af því að innan vébanda þeirra geti landbúnaður þróast með eðlilegum hætti. Áður en sveitarstjórnin tók ákvörðun höfðu ábúendur á Emmubergi haft samband við sveitarstjórnina og farið fram á það að sveitarstjórnin aðstoðaði þau við að eignast 50% hlut í Árnhúsum í Dalabyggð, með því að neyta forkaupsréttar, samkvæmt heimild í jarðalögum. Sveitarstjórin hafði samband símleiðis sama dag og ákvörðun sveitarstjórnarinnar var tekin, við einn af forsvarsmönnum B., A og var honum gefinn kostur á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ekki var haft samband við seljanda Árnhúsa, B.S. Í athugasemdum tilboðsgjafans kom m.a. fram að ekkert væri því til fyrirstöðu að ábúendur á næsta bæ Emmubergi, fengju um ókomna framtíð beitarafnot af jörðinni, án endurgjalds og að fyrirhugað væri óbreytt ástand varðandi aðstöðu á svæðinu til veiða, utan það að hlutur í Árnhúsum yrði skráður á B.

Ákvörðun hreppsnefndar um að neyta forkaupsréttar á jörðinni var tilkynnt lögmanni B. með símbréfi dagsettu 22. október sl. Í símbréfinu kemur ekkert fram um heimild til að óska eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni en 20. gr. stjórnsýslulaga fjallar um birtingu stjórnvaldsákvarðana og hvaða leiðbeiningar eigi að fylgja ákvörðun sé hún ekki rökstudd. Lögmaður B., krafðist þess með bréfi dagsettu 25. október 1999 að sveitarstjórnin félli frá áformum sínum að neyta forkaupsréttar að 50% hluta í jörðinni Árnhúsum, Dalabyggð. Í svari sveitarstjórnarinnar dagsettu 8. nóvember 1999 segir m.a.:

Félagsbúið að Emmubergi hefur með höndum blandaðan búskap með ám og kúm. Land Árnhúsa liggur við jörðina Emmuberg og er næsta hentuga land fyrir ræktun og kúabeit. Til margra ára hafa ábúendur að Emmubergi nýtt Árnhús sem beitarland.

Atvinnuvegir í Dalabyggð byggjast á landbúnaði og er stærsta atvinnugreinin mjólkurframleiðsla og úrvinnsla mjólkur, ásamt sauðfjárbúskap.

Tryggt eignarhald á landi til ræktunar og beitar eru mikilvægur liður í viðgangi búsetu og fer saman við atvinnuhagsmuni sveitarfélagsins. Eignarfyrirkomulag á hlut væntanlegs kaupanda, B, eru með þeim hætti að tæplega verður um frekari íhlutun sveitarfélagsins að ræða. Boð um beitarheimild er því tæpast nægileg trygging fyrir heimild til beitar eða jarðabóta þegar til lengri tíma er litið.

Samkvæmt framansögðu þykir sýnt að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi stutt ákvörðun sína við landbúnaðarhagsmuni sveitarfélagsins. Kærendur höfðu ekki hug á að nýta jörðina til landbúnaðar. Fyrirhuguð afnot þeirra falla beinlínis undir þess konar afnot af landi sem forkaupsréttarheimild 1. mgr. 30. gr. jarðalaga veitir sveitarfélögum heimild til að hafa áhrif á, sbr. athugasemdir við 1. gr. frumvarps til jarðalaga, og er hin kærða ákvörðun því í samræmi við tilgang jarðalaga, sbr. 1. gr. laganna.

Kærendur byggja m.a. á meðalhófsreglu 12. greinar stjórnsýslulaganna, að tilgangi jarðalaga og sveitarfélagsins hefði mátt ná með öðrum aðferðum sem ekki voru eins íþyngjandi og sú sem farin var. Fyrir hafi legið við ákvarðanatökuna að kærendur voru tilbúnir til að samþykkja endurgjaldslaus beitarafnot af jörðinni um ókomna framtíð. Slíku samkomulagi hefði mátt þinglýsa á jörðina og binda þannig hvern þann sem síðar kynni að eignast jörðina með kaupum á hlutafélaginu.

Í athugasemdum Inga Tryggvasonar hdl. f.h. sveitarstjórnar Dalabyggðar segir m.a. að hagsmunum sveitarfélagsins hvað það varðar að treysta búsetu ábúenda Emmubergs sé mun betur borgið með því að neyta forkaupsréttar í máli þessu heldur en að þinglýsa kvöð um afnot á hluta jarðarinnar Árnhúsum. Öllum hljóti að vera ljóst að slíkri kvöð verði aldrei jafnað saman við eignarétt að umræddum jarðahluta. Kvöð og full eignaumráð séu að engu leyti sambærileg. Þrátt fyrir slíka kvöð yrðu ábúendur á Emmubergi alltaf háðir eigendum að umræddum jarðarhluta þegar kæmi að einhverju öðru en því sem nákvæmlega væri tilgreint í hinni þinglýstu kvöð, t.d. þegar til jarðabóta eða hugsanlegra mannvirkjagerðar kæmi á jarðarhlutanum.

Í ljósi þeirra hagsmuna og röksemda sem lágu að baki ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar verður ekki talið að sveitarstjórnin hafi getað náð markmiði því sem að var stefnt, þ.e.a.s. að vernda landbúnaðarhagsmuni sveitarfélagsins og íbúa þess, með öðru og vægara móti, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, eða að sveitarstjórn hafi íþyngt kærendum að nauðsynjalausu. Er til þess að líta að þinglýst kvöð til beitarafnota en til muna þrengri heimild heldur en afnot í skjóli fullra eignarumráða og hagsmunir sveitarfélagsins best tryggðir með beitingu forkaupsréttarákvæða jarðalaganna.

Áður en hin kærða ákvörðun var tekin gaf sveitarstjórn Dalabyggðar kærendum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna fyrirhugaðrar ákvaðanatöku. Andmælaréttur var ekki formlega veittur og því ekki um að ræða bréflega vitneskju um fyrirspurnir sveitarstjórnar varðandi fyrirhuguð afnot af jörðinni. Í bréfi kærenda kemur hins vegar fram hvers kyns afnot voru fyrirhuguð af Árnhúsum. Sveitarstjórnin gaf kærendum afar stuttan frest til andmæla auk þess sem seljenda 50% hluts jarðarinnar Árnhúsum var ekki gefið tækifæri til að koma að sínum athugasemdum. Er því um að ræða töluverða annmarka á hinni kærðu ákvörðun. Þó er því hafnað að annmarkar á ákvörðun sveitarfélagsins séu slíkir að ógilda beri hana af hálfu ráðuneytisins sem æðra stjórnvalds. Hafa verður tilgang jarðalaga að leiðarljósi. Tilgangur laganna er fyrst og fremst sá að tryggja nýtingu lands í þágu þeirra sem landbúnað stunda. Getur því ekki verið um að ræða brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins í þessu máli þar sem hagsmunum sveitarfélagsins verður ekki náð með öðru og vægara móti.

Því er hafnað kröfu kærenda að ákvörðun sveitarfélags Dalabyggðar frá 19. október 1999, þess efnis að neyta forkaupsréttar að 50% hluta jarðarinnar Árnhúsum, Dalabyggð verði felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 19. október 1999 um að neyta forkaupsréttar að 50% hlut í jörðinni Árnhúsum Dalabyggð, í tilefni af samþykktu kauptilboði B. og B.S., er staðfest.

Guðni Ágústsson.

/Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn