Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2000 Matvælaráðuneytið

Aukning loðnukvótans 11.02.00

Fréttatilkynning


Ráðuneytinu hafa borist tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar um endanlegan loðnukvóta fyrir yfirstandandi vertíð.

Hafrannsóknastofnunin leggur til að leyfilegur hámarksafli frá 10. febrúar sl. til loka vertíðar verði 670 þúsund lestir. Þennan dag höfðu, samkvæmt bráðabirgðatölum, veiðst rétt um 330 þúsund lestir og verður heildarkvóti vertíðarinnar því 1 milljón lesta.

Tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar á sl. vori var um 850 þúsund lesta bráðabirgðakvóta og er aukningin því 150 þúsund lestir. Kemur þessi aukning öll í hlut íslensku loðnuskipanna auk þess sem skipin fá 30 þúsund lestir úr kvóta Grænlands, samkvæmt sérstöku samkomulagi við Evrópusambandið. Þegar hafði íslenskum skipum verið úthlutað 575.800 lestum úr bráðabirgðakvótanum og eykst úthlutun til þeirra því í 755.850 lestir.

Auk framangreinds kemur í hlut Íslands ónýttur kvóti Noregs miðað við 15. febrúar n.k. auk hluta af ónýttum kvóta Grænlands, samkvæmt samkomulagi landanna þar um. Ekki verður unnt að úthluta endanlega því magni fyrr en eftir 15. febrúar n.k., en gera má ráð fyrir að með því móti falli í hlut Íslands á bilinu 130-150 þúsund lestir. Má því búast við að heildarkvóti íslensku loðnuskipanna á vertíðinni verði allt að 900 þúsund lestum.

Sjávarútvegsráðuneytið
11. febrúar 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum