Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2000 Matvælaráðuneytið

Nr. 02/2000

    Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 2/2000




Skipun starfshóps til að gera úttekt á lífríki og umhverfismálum
á Suðurlandi vegna mengunar
af völdum Salmonellu og Campylobakter



Vegna þrálátra sýkinga í dýrum og mengunar af völdum Salmonellu og Campylobakter í skepnum og ýmsum búvörum framleiddum á Suðurlandi, hefur landbúnaðarráðherra skipað starfshóp undir forystu yfirdýralæknis, sem hefur það hlutverk að standa fyrir viðamikilli úttekt á lífríki og umhverfismálum á Suðurlandi. Tilgangur rannsóknarinnar er að finna þær smit- og mengunarleiðir er kunna vera til staðar til að unnt verði að koma í veg fyrir endurtekið smit dýra og mengun umhverfis og búfjárafurða, sem hafa orðið óneysluhæfar af þeim sökum.

Starfshópurinn hefur það verkefni að skipuleggja og stjórna þeim rannsóknum og athugunum, sem nauðsynlegar kunna að vera til að komið verði í veg fyrir áðurnefnd vandamál. Starfshópinn skipa: Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, formaður, Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands og Níels Árni Lund, deildarstjóri umhverfissviðs landbúnaðarráðuneytisins.

Til að áðunefndu markmiði verði náð er starfshópnum falið að hafa samband og samráð við þær stofnanir og aðila, sem lagt geta þessu verkefni lið, s.s. Líffræðistofnun Háskólans, Hollustuvernd, Tilraunastöðina á Keldum, Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands. Starfshópurinn skal leggja til og skipuleggja nauðsynleg rannsóknaverkefni og athuganir og gera ráðuneytinu grein fyrir umfangi þeirra og kostnaði við þær til að tryggja nauðsynlega fjármögnun verkefnanna.


Í landbúnaðarráðuneytinu, 17. febrúar 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum