Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úrskurður umhverfisráðherra varðandi mat á umhverfisáhrifum 480.000 tonna álvers í Reyðarfirði.


Umhverfisráðherra hefur í dag fellt úr gildi úrskurð skipulagsstjóra ríkisins frá 10. desember 1999 um mat á umhverfisáhrifum 480.000 tonna álvers í Reyðarfirði. Ekki er fallist á aðalkröfu framkvæmdaraðilans, Eignarhaldsfélagsins Hrauns ehf., um að úrskurðað verði að ekki sé þörf á frekari mati á umhverfisáhrifum 480.000 tonna álvers, né á kröfu hans um að fallist verði á byggingu 120.000 tonna álvers án frekara mats.

Ástæða þess að ekki er fallist á kröfu framkvæmdaraðilans um að ekki sé þörf á frekara mati á umhverfisáhrifum 480.000 tonna álvers er sú að ekki liggja fyrir nægar upplýsingar til þess að hægt sé að meta þau áhrif á viðunandi hátt. Reyndar kemur það fram í bréfi framkvæmdaraðila sem fyrir liggur í málinu að hann telji að fá þurfi reynslu af rekstri minna álvers í Reyðarfirði áður en hægt verði að meta að fullu áhrif af 480.000 tonna álveri. Ástæða þess að ekki er hægt að fallast á byggingu 120.000 tonna álvers án frekara mats er sú að Hraun ehf. óskaði upphaflega eftir mati á umhverfisáhrifum 480.000 tonna álvers og andmælaréttur almennings væri ekki tryggður ef fallist væri nú á minni framkvæmd en tilgreind var í auglýsingu skipulagsstjóra.

Ljóst er af kæru framkvæmdaraðila að hann leggur áherslu á að úrskurðað verði sérstaklega um umhverfisáhrif 120.000 tonna álvers, óháð fyrirhugaðri stækkun þess síðar. Slíkt er ekki mögulegt ef málinu væri áfram haldið í þeim farvegi sem það er í nú, þar sem miðað er við 480.000 tonna álver. Umhverfisráðuneytið telur óeðlilegt að halda málinu í farvegi sem er í andstöðu við áform framkvæmdaraðila um hvernig hann hyggst standa að framkvæmd sinni, enda gera lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum ráð fyrir því að framkvæmdaraðili beri ábyrgð á framsetningu matsskýrslu. Því er meðferð málsins ómerkt í heild sinni.

Úrskurður skipulagsstjóra var einnig kærður til ráðherra af hálfu Náttúruverndarsamtaka Austurlands og Tómasar Gunnarssonar lögfræðings. Ekki er tekin efnisleg afstaða til annarra atriða í kærum til umhverfisráðherra, en þeirra er að framan greinir, enda óþarft með tilliti til þess að málsmeðferðin í heild er ómerkt.

Óski framkvæmdaraðili eftir því að fram fari mat á 120.000 tonna álveri, eins og fram kemur í kæru hans, verður hann því að leggja fram að nýju beiðni um mat á umhverfisáhrifum slíkrar framkvæmdar og nýtt mat að fara fram.

Fréttatilkynning nr. 7/2000
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum