Hoppa yfir valmynd
16. mars 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga

16. mars 2000

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga og áhrif þeirra á ríkissjóð


Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga á árinu 2000 sem gefin var út 10. mars sl. er kveðið á um sérstakar aðgerðir sem ýmist fela í sér aukin útgjöld eða minni tekjur hjá ríkissjóði. Hér á eftir er stuttlega gerð grein fyrir áætluðum áhrifum þessara aðgerða á afkomu ríkissjóðs. Ennfremur fylgir með texti yfirlýsingarinnar.

Sú ákvörðun að láta skattleysismörk fylgja launaþróun en ekki verðlagi á samningstímanum leiðir til um 900 m.kr. tekjutaps ríkissjóðs frá því sem gert var ráð fyrir á fjárlögum yfirstandandi árs, nálægt 1.200 m.kr. miðað við heilt ár. Að svo stöddu er ekki unnt að segja til um hver áhrifin verða á samningstímanum í heild.

Unnið er að nánari útfærslu á fyrirhuguðum breytingum á barnabótum á árunum 2001-2003. Í yfirlýsingunni er gert ráð fyrir að þessar breytingar feli í sér um þriðjungs hækkun á heildarfjárhæð barnabóta, en þær eru áætlaðar rúmlega 3,6 milljarðar króna á fjárlögum ársins 2000.

Hækkun á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga umfram þá hækkun sem varð í upphafi ársins nemur 0,9%, þ.e. 4,5% í stað 3,6%, er talin fela í sér kostnaðarauka sem nemur um 250 m.kr. á heilu ári.

Útfærsla á fæðingarorlofi er enn til umfjöllunar og kemur væntanlega inn í fjárlagaferlið 2001. Að svo stöddu liggur því ekki fyrir kostnaðarmat á þessum þætti.


Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar
í tengslum við kjarasamninga á árinu 2000


Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð megináhersla á að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir áframhaldandi hagvöxt enda er stöðugt verðlag og góð samkeppnisaðstaða íslensks atvinnnulífs forsenda nýrra starfa. Aðgerðir í peningamálum og gengismálum svo og í fjármálum ríkisins að undanförnu hafa allar stefnt að þessu markmiði.

Ríkisstjórnin mun áfram fylgja þessari stefnu. Miklu máli skiptir að verðbólga hjaðni á næstu misserum þannig að undirstöður kaupmáttar verði traustar. Ríkisstjórnin mun hafa þetta markmið að leiðarljósi við ákvarðanir í efnahagsmálum enda liggi það til grundvallar við gerð kjarasamninga í landinu, einnig á vettvangi hins opinbera.

1. Skattleysismörk fylgja launaþróun
Til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga á árinu 2000 og stuðla þannig að auknum stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að persónuafsláttur og skattleysismörk breytist í takt við umsamdar almennar launahækkanir á samningstímabilinu. Hækkunin á árinu 2000 verður þó nokkru meiri. Í þessu skyni verður lagt fyrir Alþingi innan skamms frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt þar sem kveðið er á um að persónuafsláttur hækki um 2,5% frá 1. apríl 2000. Þessi hækkun kemur til viðbótar við 2,5% hækkun persónuafsláttar 1. janúar sl. þannig að heildarhækkun á árinu 2000 nemur 5%. Ennfremur hækkar persónuafsláttur um 3% 1. janúar árið 2001, um 3% 1. janúar árið 2002 og um 2,25% 1. janúar árið 2003.2. Tekjutenging barnabóta minnkar og tekjuskerðingarmörk hækka
Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar verður tilhögun barnabóta endurskoðuð með það fyrir augum að draga úr tekjutengingu og hækka tekjuskerðingarmörk barnabóta. Miðað er við að þessar breytingar komi til framkvæmda í þremur áföngum á árunum 2001, 2002 og 2003 og feli alls í sér um þriðjungs hækkun á heildarfjárhæð barnabóta frá því sem nú er.

3. Greiðslur almannatrygginga hækka í takt við laun
Ríkisstjórnin mun tryggja að greiðslur almannatrygginga hækki í takt við umsamdar almennar launahækkanir á samningstímabilinu. Hækkunin á árinu 2000 verður þó nokkru meiri. Þessar greiðslur hækkuðu um 3,6% 1. janúar sl. og mun ríkisstjórnin beita sér fyrir frekari hækkun frá 1. apríl nk. þannig að heildarhækkun bóta á árinu 2000 verði 4,5%. Jafnframt munu þessar greiðslur hækka um 3% 1. janúar árið 2001, um 3% 1. janúar árið 2002 og um 2,25% 1. janúar árið 2003.

4. Lenging fæðingarorlofs, jöfnun og samræming réttinda
Ríkisstjórnin mun undirbúa breytingar á reglum um fæðingarorlof þar sem stefnt verður að lengingu fæðingarorlofs, jöfnun réttar foreldra til töku þess og samræmingu réttinda.

5. Athugun á tekjuskattskerfinu
Ríkisstjórnin mun á næstu mánuðum láta fara fram sérstaka athugun á tekjuskatti einstaklinga og staðgreiðslukerfinu. Þar verður m.a. farið yfir kosti þess og galla að fjölga skattþrepum. Haft verður samráð við samtök launafólks og atvinnurekenda um þetta verkefni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum