Hoppa yfir valmynd
16. mars 2000 Matvælaráðuneytið

Veiðar úr úthafskarfastofnum. 16.03.00

Fréttatilkynning


Frá því að upp var tekin stjórn veiða á úthafskarfa hefur hún miðast við, að veitt væri úr einum karfastofni. Á síðasta ári lagði Alþjóðahafrannsóknaráðið til, að við stjórn veiða yrði tekið mið af því að um tvo karfastofna væri að ræða. Við greiningu milli þessara tveggja karfastofna er lagt til grundvallar hvort aflinn er fenginn ofan eða neðan 500 metra dýpis. Lagði Alþjóðahafrannsóknaráðið til að verulega yrði dregið úr veiðum á úthafskarfa, en á undanförnum árum hefur sókninni í auknum mæli verið beint í þann stofn, sem veiðist neðan 500 metra. Samkvæmt skilgreiningu ráðsins telst það verulegur samdráttur í veiðum ef veiðin minnkar um 25% eða meira.

Ráðuneytið hefur í dag gefið út reglugerð um veiðar úr úthafskarfastofnum á yfirstandandi ári og er þar tekið mið af ofangreindum tillögum Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Samkvæmt reglugerð þessari er íslenskum skipum heimilt að veiða 13 þús. lestir úr stofninum sem heldur sig grynnra en á 500 metra dýpi en 32 þús. lestir úr þeim stofni sem heldur sig dýpra. Með þessu móti er dregið úr veiðum íslenskra skipa úr neðri stofninum um u.þ.b. 25%. Heildaraflinn verður hins vegar 45 þús. lestir á árinu 2000 og er hann óbreyttur milli ára. Samkvæmt reglugerðinni er skipstjórum skylt að halda karfaafla aðgreindum eftir tegundum miðað við fyrrgreint dýpi og vigta hvora tegund sérstaklega. Sé það ekki gert telst allur karfaafli skipsins til stofnsins sem veiðist neðan 500 metra.

Handhöfum aflahlutdeildar er bent á að sækja um leyfi til veiða til Fiskistofu, sem mun á næstunni úthluta hverju skipi, sem aflahlutdeild hefur í úthafskarfa, aflamarki í hvorum stofni um sig á grundvelli aflahlutdeildar skipsins. Auk þess mun Fiskistofa kynna leyfishöfum nánar þær reglur sem gilda um veiðarnar.

Sjávarútvegsráðuneytið
16. mars 2000.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum