Hoppa yfir valmynd
20. mars 2000 Innviðaráðuneytið

Öryggi í ferjum

Samgönguráðherra óskaði eftir því í lok síðasta árs við Siglingastofnun Íslands og slysavarnaskóla sjómanna að gerð yrði úttekt á björgunar- og öryggismálum um borð í skipum með leyfi til fólksflutninga.

Fjögurra manna vinnuhópur hefur nú skilað ýtarlegri úttekt. Meðfylgjandi eru helstu niðurstöður úttektarinnar, og í framhaldi hennar hefur ráðherra falið Vegagerðinni og Siglingastofnun Íslands að bregðast þegar við og koma með tillögur um aðgerðir fyrir 15. apríl.

Vinnuhópurinn var samansettur af tveimur aðilum frá Siglingastofnun Íslands og tveimur aðilum frá Slysavarnarskóla sjómanna. Talið var rétt að sömu aðilar vinni alla úttektina þannig að heildar samræmi yrði á henni.

Vinnuhópinn skipuðu eftirtaldir:
Sigurður Jónsson, skoðunarmaður Siglingastofnunar Íslands
Kristján Þórðarson, skoðunarmaður Siglingastofnun Íslands
Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnarskóla sjómanna
Halldór Almarsson, yfirleiðbeinandi við Slysavarnarskóla sjómanna

Úttektin skipist í fimm megin þætti:
1. Úttekt á björgunar og öryggisbúnaði skipsins
2. Úttekt á skráningu björgunar- og brunaæfinga auk öryggisstjórnunar.
3. Meta björgunaræfing með áhöfn og farþegum.
4. Viðbragðsæfing áhafnar vegna maður fyrir borð.
5. Meta brunaæfingu með áhöfn og farþegum.

Miðað við ástandið eins og það birtist við lok úttektarinnar þá má segja að:
· Áhafnir allra þeirra skipa sem skoðuð voru þurfa á meiri þjálfun að halda hvað varðar öryggisstjórnun, meðferð og varðveislu björgunartækja.
· Skipta má þeim skipunum sem skoðuð voru í tvo hópa:
A. Skip sem eru með ISM kóða (International Safety Management code).
B. Skip sem ekki hafa ISM kóða.

Skip í A hópi eru skip þar sem unnið er eftir ákveðnum gæðastaðli hvað varðar innra eftirlit, viðhald og þjálfun áhafnar hvað öryggis- og björgunarbúnað varðar. Tvö skip féllu í þennan hóp. Þar var:
1. Eftirlitið almennt vel virkt.
2. Viðhald öryggisbúnaðar í all góðu lagi.
3. Þjálfun áhafnar með farþegum verulega ábótavant.
4. Vitund um mikilvægi þess að tæki séu í lagi og æfingar þurfi að halda er til staðar, en aðstoð vantar greinilega utan frá.
5. Kynning á öryggis- og björgunarbúnaði til farþega er all góð þó þar megi betur fara.

Skip í B hópi eru skip þar sem ekki er unnið eftir neinum gæðastaðli eða virku innra eftirliti, almennu viðhaldi öryggisbúnaðar áfátt, þjálfun og æfingar hafa ekki verið haldnar. Tvö skip féllu í þennan hóp. Þar var:
1. Eftirlit óvirkt meðal áhafnar.
2. Viðhald öryggisbúnaðar mjög ábótavant.
3. Þjálfun lítil sem engin.
4. Vitund um alla þessa þætti skortir.
5. Kynning á öryggis og björgunarbúnaði til farþega er ekki til staðar í neinni mynd.

Hjá skipum í hópi B kom fram að mikill meinbugur var á framkvæmd æfinga og vitund um mikilvægi viðhalds öryggistækja skipsins og viðhaldi þeirra þjálfunar sem áhöfnin hefur öðlast í Slysavarnarskóla sjómanna.

Skoða má ástandsmál skipa með leyfi til farþegaflutnings út frá sex þáttum:
1. Aukið eftirlit með skipi og búnaði t.d. 2 sinnum á ári.
2. Að búnaður skips og fjöldi í áhöfn verði skoðaður.
3. Unnið verði markvisst að eflingu sjálfshjálpar meðal farþega og fundnar leiðir til þess s.s. með bæklingum sem liggja frammi um öryggismál skipanna..
4. Að komið verði á gæðastaðli yfir öll skip sem rekin eru í þeim tilgangi að flytja farþega af einhverjum toga hvort heldur er í ferðum á milli staða eða í skoðunarferðum.
5. Að komið verði á eftirliti með að æfingar séu haldnar með farþegum t.d. 1 til 2 sinnum á sumri á öllum skipum sem flytja farþega
6. Að neyðaráætlunum og öryggisplani sé viðhaldið, neyðaráætlun sé stöðugt uppfærð miðað við áhöfn hverju sinni.

Það er álit skýrsluhöfunda að gæðakerfi á viðhaldi búnaðar og þjálfun áhafnar sé mjög mikilvægt um borð í skipum með farþegaleyfi. Miðað við mikilvægi þess að björgunar- og öryggisbúnaður skipa með farþegaleyfi sé í góðu ástandi og ávallt tilbúin til tafalausrar notkunar verður að koma upp skoðunarferli slíkra skipa þannig að eftirlit verði hert. Reglubundið eftirlit með æfingum áhafna með farþegum verði einnig gert að föstum þáttum um borð í skipum með farþegaleyfi. Það er skoðun hópsins að Siglingastofnun Íslands, í samstarfi við Slysavarnarskóla sjómanna, fylgist með framkvæmdum á æfingum með áhöfnum skipanna að minnsta kosti einu sinni á sumri.

Þá benda skýrsluhöfundar á, varðandi öryggisþjálfun áhafna, að skipverjar hafi ekki fengið þjálfun í slökkvistörfum í samræmi við STCW samþykktina þar sem ekki er til æfingasvæði til slíkra æfinga hér á landi, og að einnig þurfi að koma upp námskeiðum fyrir áhafnir farþegaskipa í stjórnun farþega á neyðarstundu.

Undir skýrsluna skrifa, í Reykjavík 6. mars 2000, Sigurður Jónsson, Hilmar Snorrason, Kristján Þórðarson og Halldór Almarsson.

Nánari upplýsingar veitir Jakob Falur, s. 560 9630 GSM 862 4272
netfang: [email protected]

Fréttatilkynning
Viðtakandi: Fjölmiðlar
Sendandi: Jakob Falur Garðarsson, aðstoðarmaður ráðherra
Dagsetning: 20/03/2000



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum