Hoppa yfir valmynd
23. mars 2000 Dómsmálaráðuneytið

Fréttatilkynning um notkun fjarkennslu við símenntun lögreglumanna

Notkun fjarkennslu við símenntun lögreglumanna


Í dag, 20. mars 2000, kl. 13:00, mun fyrsta fjarsending kennsluefnis frá Lögregluskóla ríkisins fara fram. Er þetta stór áfangi í sögu skólans og um leið í þjálfun lögreglunnar.
Á þessu fyrsta námskeiði verður fjallað um sögu Schengen samkomulagsins og helstu atriði samkomulagsins sem snúa að löggæslu. Munu allir lögreglumenn, allir lögreglustjórar og fulltrúar þeirra sem sinna lögreglumálum, tollverðir, starfsmenn Útlendingaeftirlitsins og starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, fá þar fræðslu um Schengen samstarfið og áhrif þess á starfsumhverfi löggæslunnar en brýnt er að þessir aðilar kunni skil á helstu atriðum samkomulagsins til jafns við kollega þeirra í öðrum ríkjum Schengen-svæðisins.
Búist er við að alls muni 800 - 900 manns námskeið sem haldin verða í lögregluskólanum um þetta efni á næstu vikum og er þetta verkefni með því viðamesta sem Lögregluskólanum hefur verið falið á þessu sviði. Með hliðsjón af stærð verkefnisins og fyrirsjáanlegum kostnaði í tengslum við fræðsluna, fjárfesti dómsmálaráðuneytið í fjarfundabúnaði, sem mun verða til afnota til fræðslu- og kynningarstarfs innan lögreglunnar í framtíðinni.
Grunnnámskeið um Schengen samstarfið verða alls 12 og hvert námskeið verður 6 kennslustunda langt. Á sama tíma og þau eru haldin í skólanum, fyrir allt að 50 manns í einu, verður þeim sjónvarpað með fjarfundabúnaði á nokkra staði utan höfuðborgarsvæðisins. Með því sparast tími, fé og fyrirhöfn, því þeir sem búa utan Stór-Reykjavíkursvæðisins þurfa ekki að gera sér sérstaka ferð til Reykjavíkur til að fá þessa fræðslu. Með notkun fjarfundabúnaðarins geta flestir þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins fengið fræðslu í sinni heimabyggð eða í nágrenni við hana og þrátt fyrir fjarlægðina verða þeir virkir þátttakendur í kennslustundum í skólanum.
Ráðuneytið bindur vonir við að notkun búnaðarins muni styrkja starfsemi lögregluskólans og efla lögreglulið landsins enn frekar.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
20. mars 2000.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum