Hoppa yfir valmynd
31. mars 2000 Matvælaráðuneytið

Nr. 05/2000

Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 05/2000:




Aðsetur embættis kjötmatsformanns ríkisins
flutt til Akureyrar



Þann 1. mars sl. varð sú breyting á að aðsetur embættis kjötmatsformanns ríkisins var flutt úr landbúnaðarráðuneytinu til Akureyrar. Þann sama dag tók við embættinu Stefán Vilhjálmsson matvælafræðingur. Frá árinu 1977 hefur Andrés Jóhannesson gegnt því en hefur nú látið af störfum. Starfið felst m.a. í að leiðbeina kjötmatsmönnum og tryggja samræmingu í kjötmati, nýta sjálfvirka tækni við matið og þær upplýsingar sem kjötmatið gefur.

Aðsetur kjötmatsformanns verður fyrst um sinn í Búgarði, Óseyri 2, húsnæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Þar hafa aðsetur, auk búnaðarsambandsins, m.a. starfsmenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og héraðsdýralæknir Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmis. Embættið er því í góðum tengslum við rannsókna-, mennta- og eftirlitsstofnanir á sviði matvæla, einkum framleiðslu, vinnslu og dreifingu kjöts.

Á Akureyri er yfirkjötmatið tengt starfsemi RALA, ásamt Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Iðntæknistofnun, með samstarfssamning við Háskólann á Akureyri. Þá ætla Háskólinn á Akureyri og rannsóknastofnanir atvinnuveganna að koma á fót Matvælasetri við Háskólann á Akureyri. Þar er stefnt að byggingu rannsóknahúss á næstu misserum. Í Matvælasetrinu er fyrirhugað framtíðaraðsetur yfirkjötmatsins. Tengslin við rannsóknastofnanirnar og Háskólann á Akureyri, ekki síst matvælaframleiðslubraut hans, hafa verulega þýðingu í starfi kjötmatsformanns. Hér er átt við búfjárræktun og nýtingu kjöts í vinnslum, ásamt betri stöðlun á kjöti til neytenda.


Í landbúnaðarráðuneytinu, 30. mars 2000





Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum