Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2000 Matvælaráðuneytið

Helstu tillögur nefndar um meðferð sjávarafla dagróðrabáta. 17.04.00

Fréttatilkynning


Nefnd sem sjávarútvegsráðherra skipaði í nóvember sl. og falið var að athuga meðferð sjávarafla og koma með tillögur til úrbóta væri þeirra þörf, hefur nú skilað tillögum sínum og greinargerð til ráðherra.

Nefndin ræddi sérstaklega meðferð sjávarafla hjá dagróðrabátum þar sem þar hefur verið talið að misbrestur sé á meðferð afla til að tryggja bestu fáanleg gæði. Nefndin kom með tillögur til ráðherra varðandi fræðslu um meðferð afla, hún leggur einnig til að heimild til að koma með afla óslægðan að landi verði þrengd yfir sumartímann og að skarpar verði kveðið á um kælingu um borð í fiskiskipum. Einnig er lagt til að núgildandi reglur verði skýrari hvað varðar meðferð afla eftir löndun. Til að fylgjast með að reglum sé framfylgt vill nefndin að Fiskistofu verði falið að gera úttekt á hitastigi í afla við löndun. Ef reglum verður ekki framfylgt telur nefndin að Fiskistofa eigi að beita þeim þvingunarúrræðum sem eru fyrir hendi til að hafa tilætluð áhrif. Einnig er lagt til að lög og reglur varðandi fiskmarkaði verði tekin til heildarendurskoðunar.

Fræðsla
Nefndin leggur mikla áherslu á aukna fræðslu um meðferð afla sem landað er daglega. Nefndin leggur til að Fiskistofa, Landssamband smábátaeigenda, Rf og Samtök fiskmarkaða komi á fræðsluherferð nú í vor á þeim stöðum þar sem smábátaútgerð er mest. Þar verði fjallað um meðferð afla um borð, þ.e. blóðgun, þvott, kælingu og frágang fisks í ker, meðferð afla við löndun auk almenns hreinlætis.

Nefndin leggur einnig til að gert verði upplýsingaspjald þar sem fram kemur hve mikið magn íss er nauðsynlegt til að kæla afla niður í ákveðið hitastig innan ákveðins tíma miðað við loft- og sjávarhita. Þetta auðveldar sjómönnum að ákveða þörfina fyrir magn kælimiðils í róðri.

Slæging
Nefndin fjallaði ítarlega um það hvort skylda skuli dagróðrabáta til að slægja allan afla um borð eða hvort reglur ættu að vera óbreyttar og áfram skuli leyft að koma með óslægðan afla að landi.

Niðurstaða nefndarinnar var að hún leggur til að reglur um heimild til að koma með óslægðan fisk að landi verði þrengdar yfir sumartímann og jafnframt verði skarpar kveðið á um kælingu á fiski um borð í fiskiskipum sem landa óslægðum afla.

Lagt er til að skipum sem landa afla sínum daglega verði ekki heimilt að koma með óslægðan afla að landi eftir kl. 24 á föstudögum til kl. 24 á sunnudögum á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst.

Slæging eftir löndun
Nefndin leggur til að sett verði í núgildandi reglum verði kveðið á um lengd tíma frá löndun til slægingar. Einnig leggur nefndin til að settar verði skarpari reglur varðandi meðferð á afla við löndun, þrifnað og umhirðu íláta á löndunarstað og skylt skuli að afla verði strax að löndun lokinni komið fyrir á viðurkenndum geymslustað.

Þá leggur nefndin eindregið til að Fiskistofu verði falið að gera úttekt á hitastigi í afla við löndun og notkun íss í afla dagróðrarbáta á tímabilinu 1. maí til 15. september næsta sumar á sambærilegan hátt og gert var árin 1998 og 1999.

Þvingunarúrræði
Fiskistofa hefur upplýst að þegar menn hafa verið staðnir að brotum á reglum um þvott og kælingu afla, hefur Fiskistofa ekki gengið lengra en að beita áminningum. Nefndin hefur verið upplýst um að frekari þvingunarúrræði eru fyrir hendi og telur Fiskistofu eiga að beita þeim þegar áminningar hafa ekki tilætluð áhrif. Þau þvingunar-úrræði sem um ræðir eru sviptingar starfs- og/eða veiðileyfa.

Nefndin telur að reglur þær, sem hún leggur til að farið verði eftir hvað varðar slægingu, þvott og kælingu séu svo mikilvægar að ítrekuð brot á þeim eigi að varða slíkum viðurlögum.

Reykjavík, 17. apríl 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum