Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2000 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nám í sænsku og norsku haustið 2000

Nám í sænsku og norsku haustið 2000


Allir nemendur, sem lokið hafa grunnskólaprófi í norsku og sænsku eiga rétt á að halda náminu áfram í framhaldsskóla.

Tími og staður
Kennsla fer fram í Menntaskólanum við Hamrahlíð fyrir nemendur úr öllum framhaldsskólum í Reykjavík og nágrenni og hefst kennsla yfirleitt eftir venjulegan skólatíma nemenda, eða klukkan 16.30. Fyrsta árs nemendur Menntaskólans í Reykjavík fá þó yfirleitt kennslu í húsakynnum MR að loknum venjulegum skóladegi.


Fyrirkomulag náms
Fyrra árið
Kennt er samkvæmt áfangakerfi. Grunnnám í sænsku eða norsku eru tveir áfangar 103 og 203, sem gera samtals 6 einingar. Þessir áfangar eru teknir á tveimur önnum. Nýnemar taka áfanga 103 um haustið og áfanga 203 á vorönn. Verið er að þróa netstudda kennslu fyrir norsku og sænskunemendur, vegna aukinnar áherslu á upplýsingatækni í nýrri námskrá.

Síðara árið
Margir framhaldsskólar krefjast 6 eininga í norðurlandamáli auk kjörsviðsáfanga í samræmi við ákvæði viðkomandi námsbrauta.

Innritun í sænsku og norsku
    1. Nemendur tilkynna við innritun í framhaldsskóla, sem fram fer í júní, að þeir muni stunda nám í sænsku eða norsku í stað dönsku.
    2. Nemendur í sænsku eða norsku mæti á skrifstofu eða hjá áfangastjóra viðkomandi skóla strax og skólinn hefst.
    3. Skólastjórnendur senda síðan innritun með upplýsingum um nemendur áfram til deildarstjóra í norsku eða sænsku við Menntaskólann í Hamrahlíð.
    4. Sænsku-og norskukennarar skrá nemendur, þegar þeir mæta í fyrstu kennslustund.

Innritun fer ekki fram á skrifstofu Menntaskólans við Hamrahlíð, nema því aðeins að nemandinn stundi allt sitt nám þar.
Stundatafla með nánari upplýsingum um tímasetningu mun liggja fyrir í byrjun skólaársins, bæði á skrifstofum og auglýsingatöflum allra framhaldsskóla.


Kennsla hefst
Kennsla í sænsku og norsku hefst um leið og kennsla í öðrum fögum.
Stundatöflu með upplýsingum um stað og stund fyrir kennsluna er hægt að fá á skrifstofu og auglýsingatöflu í þeim skóla sem nemandi stundar nám. Nemendur mæta í fyrsta tíma, samkvæmt stundatöflu, í Menntaskólann við Hamrahlíð eða Menntaskólann í Reykjavík, eftir því sem við á.

Stöðupróf
Að gefnu tilefni skal tekið fram að stöðupróf í norsku og sænsku eru ekki ætluð nemendum, sem hafa stundað norsku-og sænskunám í íslenskum grunnskóla. Nemendur sem lokið hafa sænsku eða norsku grunnskólaprófi úr efstu bekkjum grunnskóla í Svíþjóð eða Noregi eiga rétt á að þreyta stöðupróf hér.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum