Hoppa yfir valmynd
26. maí 2000 Matvælaráðuneytið

Fundur Sjávarútvegsráðherra við N-Atlantshaf haldinn á Grænlandi 24.-26. maí 2000

Fréttatilkynning


Sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen sótti fund sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsins sem haldinn var á Grænlandi í vikunni. Eftirfarandi fréttatilkyning var gefin út eftir fundinn.

Sjávarútvegsráðherrar við Norður-Atlantshaf hittust í fimmta sinn í Ilullisat á Grænlandi dagana 24. - 26. maí. Á fundinum voru rædd sameiginleg mál er varða verndun fiskistofna og stjórn veiða.

Til fundarins komu sjávarútvegsráðherrar Íslands, Kanada, Færeyja, Noregs og Grænlands, en af hálfu Rússlands sat fundinn fyrsti varaformaður sjávarútvegsnefndar, og fyrir Evrópusambandinu ráðuneytisstjóri sjávarútvegsmála.

Evrópusambandið mun halda næsta fund þessa samráðsvettvangs á næsta ári.

Ráðherrarnir ræddu hvort og hvernig stýra má sókn, fækka skipum og þann vanda sem skapast þegar umfram sóknargeta er flutt út og hvernig það getur tengst ólöglegum, ótilkynntum og stjórnlausum veiðum. Mörg vandamál sem steðja að sjávarútvegi eru tilkomin vegna of mikillar sóknargetu fiskiskipaflotans og of mikillar sóknar í fiskistofna. Á fundinum skiptust ráðherrarnir á skoðunum um hvernig taka ætti á vandanum og gerðu grein fyrir hvernig brugðist væri við honum í viðkomandi landi. Ríkisstyrkir sem kunna að leiða til of mikillar sóknargetu voru einnig ræddir. Ráðherrarnir voru sammála um nauðsyn þess að draga úr sóknargetu en jafnframt að vandamálið væri erfitt viðfangs, tæki til alls heimsins og gæti verið afar kostnaðarsamt. Ráðherrarnir staðfestu þá ætlun sína að fylgja eftir því sem kveðið er á um í Framkvæmdaáætlun Matvæla- og landbúnaðarstofnunar FAO um stjórn á sóknargetu bæði innan lands og í alþjóðasamstarfi. Ráðherrarnir töldu nauðsynlegt að rædd yrðu þau vandamál sem skapast af ólöglegum, ótilkynntum og stjórnlausum veiðum og lýstu ánægju með það sem gert hefur verið á því sviði hjá FAO, svæðisstofnunum og öðrum strandríkjum.

Ráðherrarnir lögðu áherslu á hversu mikilvægt er að eftirlit með fiskveiðum sé skilvirkt til að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Virkt eftirlit væri nauðsynlegur hluti fiskveiðistjórnunar þannig að umgengni um auðlindina verði sem best. Þeir voru sammála um að mikilvægt væri að beita viðurlögum í þeim tilgangi að fækka brotum. Þeir vísuðu til þess árangurs sem náðst hefur með eftirliti í hverju landi og í svæðisstofnunum um fiskveiðistjórn, svo sem NEAFC og NAFO, og lögðu áherslu á að flýta þyrfti eins og hægt er að koma á fjareftirliti á þeim svæðum sem þessar stofnanir taka til. Ráðherrarnir lýstu ánægju með starf á þessu sviði í ríkjunum við Norður-Atlantshaf og hvöttu til að þessari þróun yrði fylgt eftir á alþjóðavettvangi. Ráðherrarnir staðfestu þá ætlun sína að fylgja leiðbeinandi reglum, markmiðum um stjórnun og framkvæmdaáætlunum sem lesa má út úr Ríó yfirlýsingunni og siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum.

Ráðherrarnir lýstu ánægju sinni með að sífellt fleiri ríki gerast aðilar að úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna og FAO Compliance Agreement, þar sem gildistaka þessara samninga hafi mikil og jákvæð áhrif á sjálfbæra stjórnun fiskveiða.

Ráðherrarnir ræddu það starf sem unnið hefur verið í alþjóðlegum stofnunum og í löndunum við beitingu varúaðarnálgunar í fiskveiðistjórnun. Lögðu ráðherrarnir áherslu á nauðsyn þess að vinna saman að því að finna leiðir að sjálfbærri nýtingu lifandi auðlinda sem taki tillit til vistkerfisiins í heild. Ábyrgar fiskveiðar eru grundvöllur verndunar, stjórnunar og nýtingar lifandi sjávarauðlinda. Ráðherrarnir notuðu þetta tækifæri til að skiptast á skoðunum og upplýsingum um það hvernig umhverfissjónarmið fléttuðust inn í stjórnun fiskveiða. Þeir voru sammála um að hrein og gjöful höf væru forsenda fiskveiðistjórnunar sem stuðli að sjálfbærri þróun og líffræðilegum fjölbreytileika.

Ráðherrarnir ræddu það vísindastarf sem unnið hefur verið í löndunum og innan viðkomandi alþjóðastofnana hvað varðar hlutverk sjávarspendýra í vistkerfi Norður-Atlantshafsins. Í viðræðum þeirra var lögð áhersla á nauðsyn þess að halda áfram rannsóknum á þessu sviði í því skyni að auka skilning á vistfræðilegu samhengi sjávarspendýra og annarra sjávarlífvera, einkum hvað varðar afrán sjávarspendýra af nytjastofnum sjávar. Þeir ræddu nauðsyn þess að stjórna nýtingu allra lifandi auðlinda hafsins, þar á meðal sjávarspendýra, með jafnvægi og skynsemi að leiðarljósi.

Ráðherrarnir eru þess fullvissir að umræðurnar á þessum fimmta fundi sjávarútvegsráðherra við Norður-Atlantshaf munu verða til þess að hafa jákvæð áhrif á þróun verndunar og sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins og vistkerfis þess.
Ilullissat
25. maí 2000

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum