Hoppa yfir valmynd
8. júní 2000 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttektir á sjálfsmatsaðferðum skóla

Til grunn- og framhaldsskóla

Úttektir á sjálfsmatsaðferðum skóla

Í lögum um grunnskóla nr. 66/1995 og framhaldsskóla nr. 80/1996 eru ákvæði þess efnis að sérhver skóli skuli innleiða aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans. Skal að frumkvæði menntamálaráðuneytisins á fimm ára fresti, gerð úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla. Í reglugerð um eftirlit með starfi framhaldsskóla nr. 139/1997 er einnig að finna ákvæði um eftirlit menntamálaráðuneytisins með því að skólar leggi reglulega mat á starfsemi sína.

Ákvæði um úttektir á sjálfsmatsaðferðum koma til framkvæmda fyrir bæði skólastigin árið 2001. Menntamálaráðuneytið mun fela utanaðkomandi aðilum framkvæmd verksins sbr. fyrrnefnd lagaákvæði. Gert er ráð fyrir að úttekt á sjálfsmatsaðferðum í hverjum skóla verði í höndum tveggja til þriggja einstaklinga sem hafi menntun og reynslu á sviði gæðastjórnunar og skólastarfs. Úttekt á sjálfsmatsaðferðum skóla byggir m.a. á sjálfsmatsskýrslu viðkomandi skóla, heimsóknum í skólann og viðtölum við stjórnendur og fulltrúa starfsmanna og nemenda.

Í tilraunaskyni verða fyrst gerðar úttektir á sjálfsmatsaðferðum tveggja grunnskóla og tveggja framhaldsskóla á vorönn 2001. Skólar sem tilraunaúttektir verða gerðar í, verða valdir af handahófi þegar nær dregur úttektunum. Reynslan af þeim úttektum verður höfð til hliðsjónar við framkvæmd úttekta sem hefjast að fullu haustið 2001.

Úttektir verðar gerðar á tæplega 200 grunnskólum og rúmlega 30 framhaldsskólum.Tímaáætlun úttekta á sjálfsmatsaðferðum grunn- og framhaldsskóla er sem hér segir:
Grunnskólar:
Vorönn 2001 (tilraunaúttektir): 2
Haustönn 2001: 27
Vorönn 2002: 42
Haustönn 2002: 43
Vorönn 2003: 41
Haustönn 2003: 41

Framhaldsskólar:
Vorönn 2001 (tilraunaúttektir): 2
Haustönn 2001: 15
Vorönn 2002: 14

Meðfylgjandi eru þau viðmið sem lögð verða til grundvallar við úttektir á sjálfsmatsaðferðum skóla. Sjá einnig ritið Sjálfsmat skóla og Almennan hluta aðalnámskrár grunnskóla.


(júní 2000)
Viðmið fyrir úttektir á sjálfsmatsaðferðum


Þau viðmið sem lögð verða til grundvallar við úttektir á sjálfsmatsaðferðum skóla eru að sjálfsmatið sé:

1. Formlegt. Lýsing á aðferðum við sjálfsmat þarf að liggja fyrir í sjálfsmatsskýrslu, skólanámskrá og hugsanlega í fleiri skriflegum gögnum frá skólanum t.d. í kynningarbæklingi. Fram þarf að koma hvort um er að ræða fyrir fram mótað sjálfsmatskerfi eða samsett og aðlagað kerfi. Ljóst þarf að vera hvernig að sjálfsmatinu er staðið í heild og hvernig heildarferlið lítur út. Í lýsingunni þarf að koma fram hverjir stjórna verkinu, hverjir vinna það á hverjum tíma og til hverra það nær.

2. Altækt. Sjálfsmatið skal ná til allra helstu þátta skólastarfsins, þ.e. markmiða, stjórnunar, náms, kennslu, námsmats, nemenda, starfsfólks, aðbúnaðar og ytri tengsla. Ekki er þó gert ráð fyrir að skólar geti tekið á öllum þáttum á hverju ári.

3. Áreiðanlegt. Mikilvægt er að sjálfsmatið byggi á traustum gögnum og
áreiðanlegum mælingum. Skráð gögn skólans, s.s. námsferilsskrá og
fjarvistaskrá, þurfa að vera tiltæk, sem og kannanir og athuganir sem
stuðst er við í sjálfsmatinu.

4. Samstarfsmiðað. Upplýsingar um þátttöku í sjálfsmatinu, verka-
skiptingu, stjórnun og ábyrgð þurfa að liggja fyrir. Einnig þarf að
koma fram hvernig staðið var að undirbúningi, kynningu og
ákvarðanatöku.

5. Umbótamiðað. Í sjálfsmatsskýrslu þarf að koma fram aðgerða- og
þróunaráætlun um þær umbætur í skólastarfinu sem vinna þarf að í
kjölfar sjálfsmats.

6. Árangursmiðað. Mat skólans á því hvort markmiðum þeim sem sett
hafa verið í aðgerða- og þróunaráætlun hafi verið náð þarf að liggja
fyrir. Viðmið um hvað bættur árangur felur í sér þurfa að vera
skilgreind.

7. Stofnana- og einstaklingsmiðað. Sjálfsmatið þarf að beinast bæði að
skólanum sem heild og þeim sem þar starfa.

8. Lýsandi. Í sjálfsmatsskýrslu þarf að vera stutt, hnitmiðuð lýsing (texti,
myndir, töflur) á starfsemi skólans. Lýsingin þarf að hafa tengsl við
markmiðssetningu.

9. Greinandi. Sjálfsmatsskýrsla þarf að fela í sér styrkleika- og
veikleikagreiningu, sem sett er fram kerfisbundið við hvern þátt matsins
og síðan í samantekt í lokin.

10. Opinbert. Ljóst sé hverjir hafa aðgang að tilteknum þáttum sjálfsmatsins
en sjálfsmatsskýrsla þarf að vera opinber. Haldin séu í heiðri ákvæði
gildandi laga, m.a. um meðferð persónuupplýsinga.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum