Hoppa yfir valmynd
15. júní 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra við opnun réttarsögusýningar á Blönduósi

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra við opnun réttarsögusýningar á Blönduósi, 15. júní 2000



Góðir gestir,

Með tilkomu þjóðvegakerfisins á tuttugustu öld fóru Íslendingar í auknum mæli að ferðast um landið og kynnast öðrum byggðarlögum en þeim, sem þeir sjálfir bjuggu í. Það hlaut því að verða býsna yfirborðskennd kynning sem menn fengu oft á tíðum við að aka hratt um héruð, þar sem mikið hefur skort á merkingar og aðra þjónustu við ferðamenn.

En það er að verða gleðileg breyting á þessu sviði. Landsmenn eru að verða betur meðvitaðir um sína staðbundnu menningu og menningarminjar. Merkingar sögustaða hafa batnað, góðar leiðsögubækur hafa verið gefnar út og síðast en ekki síst hefur hvers konar söfnum fjölgað, söfnum þar sem líta má margt merkilegt frá liðinni tíð og staðarsögu. Þótt slík söfn séu e.t.v. fyrst og fremst reist fyrir þá sem í byggðarlaginu búa, þá nýtast þau einnig við að laða síaukinn ferðamannastraum að þeim og skapa betri rekstrargrundvöll fyrir þau.

Og svo ég beri matarmenningu á áningastöðum dagsins saman við það sem tíðkaðist fyrir 2 – 3 áratugum, þá er maturinn á áningarstöðum ferðamanna í auknum mæli að fá staðbundnari keim sem rekja má til þess hráefnis og matargerðarþekkingu sem í viðkomandi héraði má finna. Víða geta ferðamenn nú fengið afbragðs máltíðir á leið sinni um landið í stað hamborgara með bleikri sósu sem víðast tíðkuðust áður fyrr. Mér finnst sérstök ástæða til þess að þakka þetta og hrósa því sem vel er gert, en ég tel að matarmenning hvers staðar er mikilvægur þáttur í því að laða til sín ferðamenn.

Þannig kynnist þjóðin landi sínu og byggðarlögum betur og sama er að segja um erlenda ferðamenn sem sækja landið heim. Hér mætti líka gera enn betur og t.d. mætti setja upp skilti við þjóðvegina í hverju landnámi, þar sem getið yrði þeirra landnámsmanna, sem Landnáma segir frá og geta þess hvaðan þeir komu. Og vel líst mér þær fyrirætlanir sem framkoma í boðsbréfi þessa framtaks, þar sem talin er upp merking sögustaða, vörðun gönguleiða og fleiri athyglisverð atriði.

Þetta er inngangur að því sem ég ætla að segja við ykkur í dag, en fyrst og fremst vil ég tjá ykkur ánægju mína með það framtak, sem við hér erum hér vitni að. Í bréfi sem mér barst í byrjun maí s.l. voru raktar hugmyndir um miðstöð réttarsögu og réttarsögurannsókna á Blönduósi. Röksemdir fyrir staðsetningunni hér á Blönduósi voru taldar upp þessar:

· Síðasta aftakan, þekktasta íslenska sakamálið
· Lagaritun á Breiðabólstað
· Skörulegir sýslumenn á öllum tímum
· Tengsl við galdraöldina, m.a. Þorleifur Kortsson lögmaður
· Húnvetningar löngum stimplaðir sem sauðaþjófar
· Skilvirk lögregla síðari tíma
· Mikið af kunnum sakamálum.

Já, það er hægt að stæra sig af mörgu.

Ekki ætla ég að bera á móti því að hér sé um ýmis spennandi rannsóknarverkefni að ræða. Svo vill til að ég ætla að heimsækja þann skörulega sýslumann, sem nú fer hér með sýsluvöld í þessari ferð minni og vissulega er húnvetnsk lögregla skilvirk eins og athafnir hennar um síðustu helgi bera gott vitni. Og þótt íbúar annarra landshluta hafi stundum hengt orðspor sauðaþjófnaða á Húnvetninga, hafa þeir jafnframt viðurkennt að óvíða er slíkt samsafn gáfumanna að finna og í Húnaþingi. eða meðal þeirra sem þar eru upprunnir.

Í riti Páls Sigurðssonar prófessors: "Svipmyndir úr réttarsögu" eru m.a. taldir upp nokkrir aftökustaðir í Húnavatnssýslu og geta menn gert sér í hugarlund hvílíkar harmsögur eru að baki þeirra atburða sem þar gerðust. Þarna er um að ræða fólk sem tekið var af lífi fyrir galdra, sifjaspell, þjófnaði og morð. Sá aftökustaður sem nú er þekktastur er er á Þrístöpum í Vatnsdalshólum, þar sem síðasta aftaka sem framkvæmd var hér á landi fór fram í janúarmánuði 1830. Þar voru líflátin þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir fyrir morð sitt á Natan Ketilssyni.

Sjálf tengist ég því máli á þann hátt að að ég er afkomandi Natans Ketilssonar, sem myrtur var og þá einnig skyld þeim sem aftökuna framkvæmdi með öxi, en það var sem kunnugt er Guðmundur Ketilsson bróðir Natans.

Þegar menn líta um öxl og virða hinar harðúðugu refsingar, sem tíðkuðust fyrr á öldum fyrir stór og smá afbrot hljóta menn að spyrja sig hvers vegna svo hafi verið. Svarið er ekki einfalt. Hugarheimur manna var annar en nú er jafnt hér á landi sem erlendis. Hin kröppu kjör sem nánast allir landsmenn bjuggu við gerðu þá e.t.v. harðbrjósta. Lífið var stutt og það var harðúðugt. Sulturinn var aldrei langt undan og mikill skortur var á einföldustu verkfærum sem nauðsynleg voru til daglegs brúks. Því litu menn t.d. þjófnað á mat eða amboðum sem mun stærri glæp en nú myndi vera gert. Refsingar voru ekki síst dæmdar öðrum til viðvörunar og ríkjandi skoðun var að verja yrði öryggi þegnanna með svo harðneskulegum refsingum sem raun ber vitni.

Það var Magnús Ólafsson Stephensen háyfirdómari, fæddur 1762, sem fyrstur færði landsmönnum nýjar hugmyndir um refsingar og tilgang þeirra . Magnús var gagntekinn af hugmyndafræði "upplýsingarinnar" og hann flutti hana inn í þjóðfélag sem bæði var staðnað og lamað af þeim náttúruhamförum sem hér urðu á æviskeiði hans. Frumkvæði hans varð til þess að smám saman þokaði hugmyndafræði Hammúrabis um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn fyrir hugmyndunum um "betrun" þeirra sem misstigið hafa sig á lífsins braut.

Um þetta mætti hafa fleiri orð, en ég læt þeim lokið að sinni. Þótt margt geti vafalaust sætt gagnrýni í dómsmálaframkvænd nútímans þá hygg ég að landsmenn séu mér sammála um að þar hafi orðið stórstígar breytingar til bóta.

Ég óska Húnvetningum og þjóðinni allri til hamingju með þetta framtak og ég vil lýsa þeirri von minni að hinar stórhuga hugmyndir frumkvöðlanna að þessari sýningu nái fram að ganga.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum