Hoppa yfir valmynd
16. júní 2000 Dómsmálaráðuneytið

Ársskýrsla rannsóknarnefndar umferðarslysa fyrir árið 1999.

Ársskýrsla rannsóknarnefndar umferðarslysa fyrir árið 1999
afhent dómsmálaráðherra


Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur skilað dómsmálaráðherra ársskýrslu fyrir árið 1999. Nefndin er skipuð samkvæmt ákvæði í umferðarlögum og starfar samkvæmt sérstakri reglugerð sem sett var í nóvember 1998. Nefndin er skipuð þremur fulltrúum, lögfræðingi sem formanni, lækni með sérþekkingu í slysa- og bráðalæknisfræði og verkfræðingi á sviði vegagerðar og sérfræðingi í umferðarmálum. Símon Sigvaldason, skrifstofustjóri Hæstaréttar Íslands, er formaður nefndarinnar. Nefndin hefur ráðið til starfa framkvæmdastjóra auk þess sem hún hefur sér til ráðgjafar umferðarverkfræðing, sem starfar með nefndinni.
    Markmið rannsóknarnefndarinnar er að auka þekkingu og skilning á orsökum umferðarslysa. Nefndinni er ætlað að rannsaka tiltekna flokka umferðarslysa og leggja fram tillögur til úrbóta. Nefndin tók formlega til starfa í ársbyrjun 1999 og skilaði sinni fyrstu skýrslu á síðasta ári vegna banaslysa á árinu 1998. Þessi önnur skýrsla tekur til banaslysa á árinu 1999. Í niðurlagi skýrslunnar koma fram athugasemdir og ábendingar nefndarinnar vegna slysa á árinu 1999 sem nefndin vill koma á framfæri við viðkomandi yfirvöld.
      Dómsmálaráðherra hefur sent ársskýrslu rannsóknarnefndarinnar til þeirra aðila sem athugasemdir og ábendingar varða einkum, þ.e. ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, Umferðarráðs, landlæknis og Vegagerðarinnar, auk allra lögreglustjóra, til athugunar.
        Árið 1999 urðu 21 banaslys sem er heldur færra en árið áður þegar 27 létu lífið. Ríflega 70% þeirra áttu sér stað í dreifbýli og tæplega 30% í þéttbýli.

        Akstur undir áhrifum áfengis, of hraður akstur og ónóg notkun bílbelta eru helstu orsakaþættir banaslysa í umferðinni 1999, líkt og árið áður. Að áliti nefndarinnar eru þetta yfirgnæfandi áhrifavaldar, og af því tilefni bendir nefndir á að efla þurfi fræðslu og grípa verði til annarra aðgerða til að sporna gegn þessum vanda. Fleiri þættir eru teknir til skoðunar, s.s. skýrslugerð og rannsóknir, tækniskoðun bifreiða, blóðrannsóknir o.fl.


        Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
        16. júní 2000.


        Hafa samband

        Ábending / fyrirspurn
        Ruslvörn
        Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum