Hoppa yfir valmynd
26. júní 2000 Dómsmálaráðuneytið

Fundur dómsmálaráðherra Norðurlanda

Fundur dómsmálaráðherra Norðurlanda
Haldinn í Ilulissat, Grænlandi 19. og 20. júní árið 2000


Sólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra sat fund dómsmálaráðherra Norðurlanda, sem haldinn var í Ilulissat í Grænlandi dagana 19. og 20. júní, en auk hennar sátu fundinn dómsmálaráðherrar Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar svo og fulltrúar frá landsstjórnum Færeyja og Grænlands.

Á fundinum var fjallað um mörg mál, sem sameiginlega þýðingu hafa fyrir Norðurlandaríkin og má þar nefna skýrslugjöf um verkefni norrænu ráðherranefndarinnar á sviði dómsmála, sem unnið var að í formennsku grænlensku landsstjórnarinnar skýrði frá stöðu mála í Grænlandi og nefndi sérstaklega útvíkkun á heimastjórn Grænlendinga m.a. á sviði lögreglustjórnar og dómsstóla.

Sænski dómsmálaráðherrann skýrði frá undirbúningi Svía til að taka við formennsku í ESB á fyrra helmingi næsta árs. Hyggjast Svíar beita sér fyrir margvíslegum aðgerðum á sviði lagasamvinnu og réttarfars og halda þar áfram því starfi sem Finnar fengu samþykkt í svokallaðri Tampere-yfirlýsingu á formennskutíma sínum á síðari hluta 1999.

Af Íslands hálfu var lagt fram erindi frá Norðurlandaráði heyrnarlausra varðandi yfirheyrslur hjá lögreglu og afplánun refsinga þegar heyrnarlausir eiga í hlut.

Rætt var um samhæfðar aðgerðir Norðulandaríkjanna í því skyni að berjast gegn og fyrirbyggja öfgamenn sem kenna sig við nasista, kynþáttastefnu eða ''hvítt vald''. Einnig var rætt um verslun með konur, en talið er að hundruð þúsunda kvenna í heiminum séu nú seldar yfir landamæri og þær neyddar til kynlífsþjónustu. Þá var rætt um Schengen-samvinnuna, aukinn málshraða í meðferð sakamála og loks varsamþykkt áætlum um hið norræna samstarf á lagasviði fyrir tímabilið 2000 - 2001.

Svo sérstaklega sé fjallað um tvö fundarefni, má í fyrsta lagi nefna baráttuna gegn öfgamönnum, sem haft hafa sig í frammi á hinum Norðurlöndunum og kenna sig við nasisma, kynþáttastefnu (rasisma) eða ''hvítt vald''. Sérstaklega hafa þeir sýnt andúð á innflytjendum og fólki með af erlendum uppruna, einkum þeim sem hafa annan húðlit en áður tíðkaðist á Norðurlöndum.

Hér er um að ræða hópa sem oft fara milli Norðurlandanna til þess að sækja baráttusamkomur og reyndar eru þeir yfirleitt í góðu sambandi við skoðanabræður sína sunnar í álfunni. Lögregluyfirvöld hafa haft góða samvinnu um að varna því að þessir hópar fremji ekki refsiverða verknaði og ákveðið var á fundinum að koma á fót sérfræðingahópi til þess að fjalla um þetta vandamál og samræmd viðbrögð við því.

Þá urðu miklar umræður um ''verslun með konur'' og aðgerðir til þess að koma í veg fyrir hana, en svo virðist sem milliríkjaverslun með konur til kynlífsþrælkunar fari mjög í vöxt. Skýrt var frá þeim aðgerðum sem hvert Norðurlandaríkjanna hefur framkvæmt á þessu sviði og rætt um aukið samstarf ríkjanna til þess að auka virkni lögreglu- og landamæraeftirlits þegar grunur liggur á að um ólöglega verslun með konur sé um að ræða. Rætt var um aukið samstarf við stjórnvöld þessara ríkja í því skyni að útrýma þessari glæpastarfsemi. Sama á við um konur frá ýmsum Asíuríkjum, sem ginntar eru til að koma til Evrópu, þar sem allt önnur starfsemi bíður þeirra, en þeim var sagt í upphafi. Í umræðunum skýrði Sólveig Pétursdóttir frá nýlegum lagabreytingum á Íslandi og frá þeirri rannskókn á vændi á Íslandi, sem nú er í undirbúningi.

Dómsmálaráðherrarnir ákváðu að láta embættismannanefnd fara yfir viðbrögð ríkjanna á þessu sviði, en einnig var ákveðið að vinna að því að Ísland og Noregur gerðu samvinnusamninga við Evrópsku löggæslustofnunina Europol sem fyrst, að formlegt samstarf Norðurlandaríkjanna í baráttunni gegn skipulögðum glæpaflokkum sem sérhæfa sig í verslun með konur, verði aukið og að Norðurlandaríkin samræni afstöðu sína á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem unnið er að gerð alþjóðasáttmála gegn verslun með fólk, þ.á.m. verslun með konur til kynlífsþrælkunar.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
26. júní 2000.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum