Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2000 Matvælaráðuneytið

Aðgerðir gegn brottkasti. 05.07.00

Verkefnissjórn
Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að raunverulegt umfang brottkasts sé metið og að gripið verði til viðeigandi aðgerða til þess að koma í veg fyrir það. Í því skyni hefur hann m.a. ákveðið að skipa sérstaka verkefnisstjórn, sem skipuleggi og samræmi aðgerðir þeirra aðila, sem koma að eftirliti á sjó.

Formaður verkefnisstjórnarinnar verður Jón B. Jónasson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu en auk hans munu koma að verkefninu fulltrúar frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Landhelgisgæslunni svo og annar fulltrúi skipaður af ráðherra án tilnefningar.

Skoðanakönnun
Sjávarútvegsráðuneytið skipaði 24. ágúst 1999 nefnd undir formennsku Gunnars I Birgissonar alþingismanns, sem ætlað var það verkefni að kanna mismun á starfsaðstöðu landvinnslu og sjóvinnslu. Nefndin hefur m.a. tekið til meðferðar brottkast afla sem vandamál er verði að kanna ítarlega. Í þessu sambandi hefur nefndin rætt við ýmsa aðila.

Að höfðu samráði við sjávarútvegsráðherra hefur nefndin samið við Gallup um gerð sérstakrar könnunar á umfangi og ástæðum brottkasts.

Fyrstu aðgerðir
Fiskistofa hefur þegar skilað inn tillögum um fyrstu aðgerðir og á grundvelli þeirra hefur sjávarútvegsráðherra ákveðið að Fiskistofa ráði nú þegar fimm eftirlitsmenn til viðbótar við þá sem þegar eru að störfum og ef þörf þykir aðra 5 í upphafi næsta árs.

Umgengnisnefnd um auðlindir sjávar
Í framhaldi af því samráðsferli við hagsmunaðila sem sjávarútvegsráðherra kom á við ákvörðun á úthlutun aflamarks fyrir næsta fiskveiðiár hefur hann óskað eftir því við formann nefndarinnar, Sævar Gunnarsson að hún leggi sérstaka áherslu á brottkastið. Í nefndinni sitja auk formanns Sjómannasambandsins fulltrúar LÍÚ, Farmanna- og fiskimannasambandisins, Vélstjórafélags Íslands, sjávarútvegsráðuneytisins, Fiskistofu og Hafrannsóknarstofnunarinnar.

Eftirlitsmyndavélar
Í tengslum við umræðu um verkefni eftirlitsmanna um borð í fiskiskipum hefur mönnum orðið tíðrætt um hvort eftirlitsmyndavélar geti ekki komið í stað þeirra. Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sem tekur þetta sérstaklega til athugunar og mun Friðrik Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ verða formaður hans.

Sjávarútvegsráðuneytið
5. júlí 2000


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum