Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2000 Matvælaráðuneytið

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 13/2000



Undirritaðar hafa verið samþykktir og samkomulag um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki starfar samkvæmt samkomulagi viðskiptaráðuneytis, Sambands íslenskra viðskiptabanka, Sambands íslenskra sparisjóða, Samtaka verðbréfafyrirtækja, Sambands lánastofnana og Neytendasamtakanna. Einnig kemur Fjármálaeftirlitið að nefndinni sem vistunaraðili hennar. Nefndin var upphaflega sett á laggirnar 1995 en nú hafa Samtök verðbréfafyrirtækja og Samband lánastofnana bæst í hópinn, auk þess sem töluverðar breytingar eru gerðar á samþykktunum.

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki tekur til meðferðar kvartanir viðskiptamanna fjármálafyrirtækja sem standa að nefndinni. Skilyrði fyrir meðferð nefndarinnar er að fjármálafyrirtæki hafi hafnað kröfu viðskiptamanns og ekki hafi tekist að leysa ágreiningsefni með sátt innan fjögurra vikna. Nefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu sem tekur jafnframt við kvörtunum. Greiða þarf sérstakt málsskotsgjald sem fæst endurgreitt við afhendingu úrskurðar hafi krafa viðskiptamanns að hluta eða öllu leyti verið tekin til greina.

Stórt skref hefur verið stigið með þessum nýju samþykktum og er helstu nýmæli þau að nú eiga allir viðskiptamenn, einstaklingar sem lögaðilar, málsskotsrétt til nefndarinnar. Áður áttu einstaklingar einir málskotsrétt. Jafnframt varðar það viðskiptamenn fjármálafyrirtækja miklu að nú eiga öll fyrirtæki á fjármálamarkaði aðild að úrskurðarnefndinni.

Vistun nefndarinnar er hjá Fjármálaeftirliti, eins og áður segir og er nú vistun beggja úrskurðarnefnda á fjármálamarkaði nú á sömu hendi, en stofnunin vistar einnig úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, eins og kunnugt er. Mikilvægt er fyrir Fjármálaeftirlitið að vera í beinum tengslum við viðskiptamenn eftirlitsskyldra aðila og fá þannig frá fyrstu hendi upplýsingar um það sem kann að vera ábótavant í rekstri viðkomandi fjármálafyrirtækja. Nefndin úrskurðar nú einnig um ágreining sem kann að rísa og varðar yfirfærslur fjármuna á milli viðskiptareikninga á milli landa.

Þessi nýja tilhögun og endurskoðun samþykkta ætti að verða bæði viðskiptamönnum fjármálafyrirtækja sem og fyrirtækjunum sjálfum til heilla.

Reykjavík 6. júlí 2000.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum